sunnudagur, apríl 29, 2007

Ekki heimsmeistarar en sprengjur...


Sky is illuminated by anti-aircraft gun fired by the government during attacks by Tamil Tiger's planes in Colombo April 29, 2007. Planes of Sri Lanka's Tamil Tiger rebels dropped bombs on two oil facilities near the capital Colombo on Sunday, slightly damaging one, the air force said. REUTER

Ég hélt ekki út að vaka yfir cricketinu og sofnaði um 12 leytið. Það leit nefnilega ekki vel út fyrir Sri Lanka. Upp úr kl. 1 vakti gigtarskömmin mig og ég hélt bölvandi fram til að finna mér verkjatöflur. Þá fór rafmagnið í smástund. Ég beið róleg því ég vissi að rafstöðin mundi hrökkva í gang. Þegar ég kom aftur upp í rúm heyrði ég tvo háa en fjarlæga hvelli og hugsaði með mér: "Ætli gæjarnir hafi unnið eftir allt saman. Bara flugeldar um miðja nótt". Um leið og verkjatöflurnar slógu inn, sofnaði ég til morguns.

Fréttirnar núna í morgunsárið eru að Sri Lanka tapaði leiknum en hvellirnir sem við heyrðum í nótt eru alvöru. Tamíltígrarnir vörpuðu tveimur sprengjur á gasstöð rétt utan við Colombo (www.lankapage.com). Rafmagnið var tekið af í klukkutíma í nótt og því náðu menn ekki að horfa á restina af leiknum. Ég reikna ekki með að fólk sé almennt mjög hresst með atburði næturinnar. Við erum hins vegar sannir Íslendingar sem látum skeika að sköpuðu. Hvað getum við annað gert!

laugardagur, apríl 28, 2007

Spennan eykst...


Ja, nú þykir mér týra á tíkarskarinu. Í fyrrakvöld slokknuðu skyndilega ljósin en eftir hálfa mínútu komu þau aftur á. Seinni partinn í gær fréttum við að rafmagnið hefði verið tekið af Colombo í heila klukkustund til öryggis. Einhver varðstöðin hafði tilkynnt um flugumferð á tíma þar sem engin flugvél átti að vera á lofti og því miklar áhyggjur að tamíltígrarnir væru á ferðinni. Við urðum hins vegar ekki vör við þetta því blokkin okkar hefur sína eigin rafstöð. Við drógum ekki einu sinni fyrir og vorum því óvitandi skotmark í myrkrinu. Ekkert gerðist sem betur fer.

Dvölin hér er ótrúlega viðburðarík, þrátt fyrir að ég hafi ekki getað verið mikið á ferðinni. Helgi fer alltaf og þvælist eitthvað á daginn og ég fer með honum ef það þarf ekki að labba langt. Það er mikil spenna í loftinu vegna úrslitaleiksins um heimsmeistarabikarinn í cricket. Sri Lanka leikur til úrslita gegn Ástralíu í kvöld. Fyrir Sri Lanka búa er cricket í sama spennuflokki og handbolti fyrir okkur. Lífið hreyfir sig hægt hér og það hentar frábærlega fyrir þessa íþrótt. Hver leikur tekur a.m.k. 4-5 klst. Eftir að hafa borðað nokkrum sinnum út á Cricket Club Café og horft um leið á einhvern leikinn í heimsmeistarakeppninni um leið, þá er ég farin að fatta geimið. Ég verð að segja að ég kann vel við íþrótt þar sem ég get setið og horft án þess að vera á barmi taugaáfalls af spenningi.

Það er margt að miðla þegar kynnst er nýrri menningu. Við höfum rétt minnst á veitingahúsin, en við höfum látið þau um að næra okkur undanfarnar tvær vikur. Þau hafa verið hvert öðru betra og svo ódýr að það tekur því ekki að koma sér upp grunneldhúsvörum. Helgi keypti að vísu 5 kg af hrísgrjónum,en ég á eftir að sjá okkur reyna að torga þeim. Almennt erum við að borga innan við 1500 kr. fyrir tveggja manna máltíð nema þegar við ætlum að vera flott á því eins og í gær, þá var farið á Thambapani til að borða frábæra fiskrétti með hvítvíni og það kostaði heilar 3500 kr! Hver nennir að elda með svona marga frábæra veitingastaði í göngufæri. Eitt veitingahúsið sem við höfum heimsótt tvisvar heitir Green Cabin garden restaurant. Hér er eldaður ekta Sri Lanka matur. Vesturlandabúar geta fengið grillaðan kjúkling og franskar. Ég tók stökkið og pantaði mér það sem þjóninn kallaði milt karrí, krabbakarrí. Með því var borið fram stringhoppers, sem eru hrísnúðlur vafðar í litla disklaga kökur, og krydduð kókosmjólk. Ég varð hálfhissa þegar aðalmáltíðin kom í lítilli desertskál. En þá er kerfið þannig að núðlunum er vafið upp með fingrunum, bleytt aðeins í með karrígumsinu, smá kókósmjólk, chilitómatsósu og sjá, bitanum troðið upp í sig. Í næstu heimsókn var prófað rækjukarrí með Pittu, þykk pylsa hnoðuð úr rísmjöli og kókós, gothimba, örþunnar risastórar hrísmjölspönnukökur. Þetta fer eins fram. Smáflaga er rifin af gothimba, klípa af pittu eða stringhoppers ofan á, hálf teskeið af karríi, aðeins meira af kókósmjólk og smásletta af chilitómatsósu. Hnoðað vandlega saman og troðið upp í sig. Hér er matast með hægri hendinni og sú vinstri geymd undir borðbrúninni á meðan. Hér er mikið chili notað í matinn. Það er kostur, því það logar allt í fimm mínútur og svo kemur þetta fína bragð. Við erum búin að finna frábæran fiskréttastað, Thambapani, enn betri kínverskan, Flower Lounge og prýðilegan altmúligstað, Queens Café. Svo ekki sé minnst á Pizza Hut, þeir standa alltaf fyrir sínu nema hér er líka notuð chilitómatsósa á pizzurnar. Þessir staðir eru allir mikið sóttir af heimamönnum en Cricket Club Café er málið fyrir Evrópubúana.
Við sendum börnunum okkar og fjölskyldum þeirra sérstakar kveðjur en þau standa í stórræðum þessa dagana. Jón fór í skurðaðgerð s.l.mánudag þar sem tvíburinn var fjarlægður, vonandi endanlega. Honum hefur heilsast vel. Við getum ekki lýst því hversu fegin við erum enda var stöðug ígerð í gangi og því alltaf hætta á frekari slæmsku. Kristín opinberaði það í gær að nýtt barnabarn sé á leiðinni og verður væntanlega sporðdreki eins og amma og langafi. Við sendum kossa, risastór knús og góðar hugsanir og vonum að austanvindurinn beri það til þeirra allra.

föstudagur, apríl 27, 2007

Vinningurinn er alvöru...


Eldsnemma í morgun trítlaði ég út á horn og veifaði næsta tuktuk. Ég var á leiðinni á Apollosjúkrahúsið í endurkomu. Ég fór ein, því Helgi var á fundi með liðinu sínu. Það er frábært að ferðast í tuktuk. Einhvern veginn er það eins og að fá borgina í æð. Hitinn er yfirþyrmandi en þolanlegur vegna gustsins sem blæs í gegnum tuktukinn þegar hann er á ferð. Allar lyktir borgarinnar hellast yfir mann góðar sem slæmar, ýktar í hitanum. Síðast en ekki síst er tuktukinn fljótur í förum, því ökumaðurinn þekkir fullt af skemmri leiðum og er stundum fullhugaður í að smeygja sér á milli annarra ökutækja. Þar sem samið er um fargjaldið fyrirfram, þá er ekkert verið að slóra. En þeir gefa sér samt tíma til að gauka ýmsum fróðleik að manni. Ekki síðri sögumenn en Íslendingar og stoltir af landinu sínu. Á sjúkrahúsinu voru umbúðirnar rifnar af, sárið skoðað vandlega og og síðan allt hreinsað upp á nýtt. Einhver ígerð er ennþá við tána, en allt á góðri leið. Nýjar og enn stærri umbúðir settar utan um og ég áminnt um að láta þær alls ekki blotna. Eftir tvo daga má ég taka þær af og þarf ekki að mæta aftur í skoðun. Ekkert pensilínofnæmi hefur gert vart við sig. Heimsókn á bráðamóttökuna kostar ekki nema 150 rúpíur eða 90 kr. Heldur ódýrara en á Íslandi og það meira að segja á einkasjúkrahúsi.

Á leiðinni heim sá ég fullt af fólki á íþróttavelli sem var þar í alls konar þrautum og hlaupum. Út við girðinguna voru margar skráningarstöðvar og biðraðir við þær. Og fyrir utan girðinguna var ofboðslega löng biðröð, fleiri hundruð manns. Tuktukgæinn minn hægði ferðina og sagði mér að það væri sérstakur umsóknardagur til að komast í lögregluna. Mér fannst aðsóknin ótrúleg, en hann sagði að þetta væri mjög eftirsóknarvert starf og bara ágætlega launað.

Um hádegið kom Helgi heim og eftir smáhvíld, drifum við okkur í heimsókn í höfuðstöðvar Pizza hut. Þar fengum við ávísun á draumaferðina okkar. Ein nótt á lúxushóteli í Kandy með fullu fæði, þ.e. þrjár máltíðir. Ávísunin gildir fyrir tvo. Eftir að skoða þetta á netinu hlökkum við mikið til. Sérstaklega held ég að það sé skemmtilegt að panta sér ferð með varakonungslestinni (Viceroy Express www.bahraintravel.com.bh/Sri%20Lanka%20in%20style.htm) til Kandy, en hún er ævaforn búin þægindum sem hæfa konungi. Klædd að innan með dökkum viðarinnréttingum og rauðum plusssætum. Lestin er dregin af gamalli eimreið. Vinningurinn er raunverulegur!

Enn var farið í tuktuk og nú á leið í mollið eða Liberty Plaza. Á leiðinni stoppaði ökuþórinn okkar við búddamusteri og benti okkur á risastóran fíl sem var í garðinum. Í garðinum voru fílastyttur af öllum stærðum og gerðum en aðalfíllinn var lifandi og ekki meira en í seilingarfjarlægð frá okkur. Ótrúleg upplifun. Því miður var myndavélin ekki með í för, svo frásögnin verður að duga. Eftir verslunarleiðangurinn komum við löðursveitt heim enda 36 stiga hiti og sól. En við hugsum okkur gott til glóðarinnar, því við keyptum okkur nautasteik og fína rauðvínsflösku. Hvorki meira né minna en St. Julien vín, Chateau de Lalande, árgerð 1999.

miðvikudagur, apríl 25, 2007

Ævintýrið um litlu tána...


Dagurinn í dag byrjaði ekki vel. Í morgun drifum við okkur út á Apollo sjúkrahúsið til að láta kíkja á litlu tána á vinstri fætinum á mér. Á laugardaginn byrjaði hún að roðna. Mig klæjaði og sveið. Ég var alveg viss um að eitthvað hefði bitið í tána á mér. Á sunnudag birtust blöðrur og óþægindin jukust talsvert. En ég beit á jaxlinn og bölvaði í hljóði. Í gærkvöldi var táin orðin rauðblá og bólgin og greinilega eitthvað á seyði. Ég fór á netið og þar komst ég að því að það væri komin ígerð í tána, hugsanlega heimakoma. Þar var ráðlagt að leita strax læknis því hætta væri á blóðeitrun. Í morgun vakti Helgi mig síðan eldsnemma, rak mig á fætur og gaf mér morgunmat. Síðan var haltrað út og náð í tuktuk. Á sjúkrahúsinu var tekið vel á móti okkur, táin skoðuð í bak og fyrir, hreinsuð með frekar óþyrmilegum aðferðum og settar umbúðir utan um allt saman. Ekki heimakoma en ígerð í gangi. Læknirinn skrifaði út lyfseðil á fúkkalyf og fullyrti að þau væru í lagi fyrir konu með ofnæmi fyrir pensilíni. Síðan var mér skipað að koma eftir tvo daga til að láta skipta um stóra plásturinn og þeir vilja tékka á því að allt sé í lagi. Sem sé stóralvarlegt mál.

Síðan var aftur náð í tuktuk og nú vildi Helgi fara á ferðaskrifstofu og kaupa farseðlana okkar til Malasíu. Það gekk allt vel nema ég var eitthvað slæpt. Þegar heim kom tók ég fyrstu pilluna og sofnaði síðan. Seinni partinn fórum við að skoða á netinu hvaða lyf ég hefði fengið og þar stóð stórum stöfum að ekki ætti að gefa þetta lyf fólki með ofnæmi fyrir pensilíni. Það viðurkennist að okkur brá verulega og nú var bara beðið eftir ofnæmisviðbrögðum. Lost eða fílamaðurinn í aksjón!

Eftir nokkra dúra og létt stressköst brá okkur í brún, því í staðinn fyrir að ég dytti niður í losti, þá fékk náttúran raflost. Himinninn dökknaði og allt í einu sáust gríðarlegar eldingar og þrumur sem hljómuðu eins og æsilegustu sprengingar á gamlárskvöld. Þetta var æsilegra en þrumuveður sem við urðum vitni að úti í Kanada. Rigningin sem fylgdi í kjölfarið var líka engu lík. Himnarnir opnuðust og vatnið flæddi niður. Helgi var farinn að hafa áhyggjur af því að við fengjum engan kvöldmat því veðurhamurinn virtist óstöðvandi. En allt tekur enda og eftir rúman klukkutíma heyrðum við að umferðin var komin í gang aftur.

Upp úr kl 7 kvað frúin upp með það að henni væri nógu batnað til að fara í kvöldmat. Við trítluðum eftir regnvotum gangstéttum út í Pizza hut. Þar inni var jafnkalt og síðast þegar við heimsóttum þá. Helgi pantaði sér tilboð mánaðarins og fékk skafmiða í kaupbæti. Mér var réttur miðinn til sköfunar og viti menn. Það var vinningur á miðanum. Við urðum svolítið skrýtin í framan og trúðum eiginlega ekki eigin augum. Við borðuðum matinn okkar eins og ekkert hefði í skorist. Þjónninn kom til að spyrja hvort við hefðum unnið eitthvað á skafmiðann. Helgi varð dularfullur á svip og spurði nokkurra óbeinna spurninga um hvað mundi gerast ef við hefðum fengið vinning. Ég gat ekki stillt mig og sagði: “Sýndu þeim miðann”. Þjóninum brá í brún og hljóp af stað með miðann. Allt í einu voru fjórir gæjar í kringum okkur brosandi út að eyrum. Orðið “luck” heyrðist hér og þar í orðræðunni og eftir svolítið írafár og læti var okkur tilkynnt að við hefðum unnið tveggja daga ferð fyrir einn til Kandy. Eftir að skiptast á miðum og símanúmerum og óteljandi brosum, þá borguðum við reikninginn enn með bros á vör. Helgi er viss um að einhverjir meinbugir verði á innheimtu vinningsins, en ég segi nú bara: “Það gerir sko ekkert til. Við erum alla vega búin að innheimta spennu augnabliksins”. Og hvað haldið þið, firmamerki fyrirtækisins sem skaffar vinninginn er fimm tær (www.chaayahotels.com) !!!

mánudagur, apríl 23, 2007

Fínt fólk í veislu...



Í gær fórum við í síðdegisveislu hjá Árna, sendiráðunautnum okkar. Hann býr í fallegu húsi frá nýlendutímanum í næsta hverfi. Húsið er umlukið háum garðveggjum og með fallegum garði. Flestar plöntur í garðinum eru notaðar sem pottablóm hjá okkur, hér eru þau vel yfir mannhæð. Stór og mikil yfirbyggð verönd er fyrir framan með bar og aðstöðu til að grilla. Þetta var eins og að ganga inn í ævintýri á nýlendutímanum.

Við komum um tvöleytið og stuttu seinna mættu þrír Íslendingar í viðbót. Þau höfðu lent í Sri Lanka nóttina áður. Við fengum að sjálfsögðu gin og tonic og síðan var spjallað. Því miður man ég ekki hvað herramennirnir tveir heita, en með í hópnum var ung kona sem heitir líka Auður. Ekki oft sem ég hitti nöfnur utan Eyjafjarðar. Enda kom í ljós að hún var líka ættuð úr Eyjafirði. Hún var í friðargæslunni hér á síðasta ári en þau eru núna komin til að vinna einhver verkefni á vegum Þróunarsamvinnustofnunar. Það var virkilega gaman að hittast og spjalla. Um fjögurleytið var okkur boðið upp á Sushi og Sashimi (hrár fiskur án hrísgrjóna) sem smakkaðist afar vel. Sérstaklega góður var hrár túnfiskur sem hafði verið veiddur daginn áður. Síðan fóru karlmennirnir í grilleldamennskuna. Boðið var upp á grillaðan túnfisk með ýmsu meðlæti og er skemmst frá að segja að máltíðin var frábær. Besti fiskur sem við höfum smakkað. Í eftir rétt var síðan heitur súkkulaðidesert, bakaður að ofan og fljótandi að innan, borin fram með æðislegum vanilluís. Með herlegheitunum var borið fram Amarone vín frá Ítalíu sem passaði vel með matnum. Upp úr kl. 9 fórum við að tygja okkur til brottfarar. Röltum út á horn og náðum okkur í Tuktuk sem skilaði okkur hratt og örugglega heim.

Það er ekki hægt að segja annað en við höfum lifað og hrærst í skemmtilegri veröld síðustu dagana. Nú verður hugað að því að kaupa flugmiða til Malaysíu en það er áætlað að við verðum þar 3. til 10. maí n.k. Eftir það munum við skoða hvort við skellum okkur í ferð til Kandy, sem er lítil borg inn á miðju Sri Lanka. Það eru sagðar óskaplega fallegar slóðir. Kóngurinn í Kandy var sá síðasti sem játaðist undir Breta á nýlendutímanum.

Við erum búin að ákveða það að við munum láta veitingahúsin hér í kring sjá um að elda ofan í okkur. Við gerðum nefnilega tilraun til að elda heima á laugardaginn. Keyptum okkur bratwurst og beikon sem var eldað ásamt slatta af hrísgrjónum. Skemmst frá að segja settumst við löðursveitt að borðum að eldamennsku lokinni og þurftum síðan að vaska allt dótið upp. Önnur tilraun til eldamennsku verður ekki gerð af minni hálfu fyrr en loftslagsaðlögun er svolítið meiri. Nú er líka að hefjast ný vika. Hún byrjar á morgun með Poyadegi. Poyadagur er sá dagur mánaðarins sem tunglið er fullt. Þessir dagar eru frídagar hér og þar sem þetta er fyrsti poyadagur eftir nýár (12. apríl) þá má ekki selja áfengi í heila viku. En við Helgi erum birg. Við eigum sitthvora flöskuna af gini og rommi og erum því í góðum málum út mánuðinn.

Meðfylgjandi eru myndir annars vegar af sólarlaginu séð ofan af þakinu okkar og hins vegar borðstofan okkar.

laugardagur, apríl 21, 2007

Við skoðum í kring um okkur...


Í dag erum við búin að vera hér í 10 daga. Smátt og smátt hefur hitinn og rakinn vanist. Við hittum reyndar konu í lyftunni hérna áðan sem gladdi okkur með því að apríl og fyrri hlutinn af maí séu heitustu mánuðirnir. Eftir það kólni heldur í veðri.

Við fórum í stóran verslunarkjarna í dag sem heitir Liberty Plaza. Þar fundum við flottar vínbúðir og enn flottari “Hagkaup”. Það hefur nefnilega ekki fengist lime og tonic í búðinni sem við förum í venjulega. Það er algjörlega út í hött að þurfa drekka engiferöl út í ginið. Það heldur engum flugum í burtu. Við erum samt ekki alveg búin að fatta matarsystemið hér. Við sjáum alls konar skrýtna ávexti og grænmeti sem við þekkjum alls ekki. Mjólkurvörur eru lítið notaðar hér nema í formi jóghúrt og einhvers sem þeir kalla “curd”. Brauð og aðrar vörur úr hveiti er lítið notað. Við þurfum að fara að prófa að elda mat og helst gera tilraunir með innlenda matargerð. Það er hins vegar freistandi að láta veitingahúsin um eldamennskuna, þar sem það er mjög ódýrt að fara út að borða. Dýr máltíð fyrir tvo kostar uþb 4.000 rúpíur eða 2.800 kr. Á ódýrum stað kostar 1.800 rúpíur eða 1.260 kr. Svo þarf ekkert að vaska upp.

Íbúðin sem við fengum er alveg frábær. Hún er á 5. hæð í 15 hæða húsi. Glæný og enginn búið í henni áður. Þetta eru þrjú herbergi, stofa, eldhús og tvö baðherbergi, allt búið nýjustu tækjum. Loftkæling og viftur í hverju herbergi. Frammi er þvottahús, geymsla og salerni. Sendiráðið lánaði okkur lítið sjónvarp og svo er Helgi með tölvuna sína með sér. Sem sagt nútímavædd í bak og fyrir.

Við reynum að hreyfa okkur eitthvað á hverjum degi. Göngum um hverfið og skoðum mannlífið. Eins og annars staðar sjáum við bæði ríkidæmi og örbirgð. Á meðan sumir keyra um göturnar í bensum, þá sjáum við líka betlandi vesalinga. Samt er ekki mikiðum það. En við erum farin að skilja hvers vegna að það er öryggisverðir alls staðar. Þeir gæta þess t.d. að heimilislaust fólk setjist ekki að í bílageymslum eða tómu húsnæði. Þeir halda flækingshundum í burtu. Þeir sjá um að allt umhverfi húsanna sé hreint og þrifalegt og að óviðkomandi aðilar séu ekki að flækjast á svæðinu. Það fer ekki fram hjá neinum að herlög gilda í landinu. Lögregla er fjölmenn og meðfram helstu götum eru varðstöðvar með reglulegu millibili mannaðar hermönnum sem eru gráir fyrir járnum. En þrátt fyrir árvekni eru allir hlýlegir viðmóts. Það er brosað úr ólíklegustu áttum og kurteisin er mikil. Landsmenn minna þó nokkuð á okkur Íslendinga, þeir eru forvitnir og hafa feikna gaman að því að segja sögur. Þeir hafa af nógu að taka í þrjú þúsund ára menningu sinni. Það er einungis sá tími sem hefur verið skrásettur. Við erum rétt að byrja að fleyta rjómann ofan af.
Meðfylgjandi er mynd af fyrsta fundinum hans Helga. Á henni sjáið þið fólkið sem hann er að vinna með að undirbúningi námskeiðs í verkefnastjórnun. Með á myndinni er ungur Íslendingur, Bjarni Eiríksson. Hann er líka með í þessu verkefni. Annars vinnur Helgi mest heima við glærugerð og aðra skipulagning.

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Heitt, heitt, heitt...



Það er heitt og rakt hér í suður Asíu. Svitinn rennur af okkur við minnstu hreyfingu. Köld sturta dugar örstutta stund. Snjókoman sem er núna á Akureyri væri vel þegin. En við venjumst þessu hægt og rólega. Við sofum vel þrátt fyrir hitann og vöknum bara einu sinni á nóttu til að setja loftkælinguna í gang til að koma lofthita í herberginu niður í 27°C en venjulegur hiti er um og yfir 30°C. Það sem er sérstakt hér er að það verður ekkert svalara á nóttinni. Sami hitinn allan sólarhringinn. Enda gengur fólk hér rólega, hreyfir sig hægt og skýlir sér fyrir sólinni. Til þess eru notaðar regnhlífar, dagblöð og skuggar húsa og trjáa.

Það er gaman að skoða götulífið hér. Hér eru flestir litlir og dökkir. Almennt eru konur klæddar í Sari eða Shalwar Kameez. Sari samanstendur af undirpilsi, treyju og 6 metrum af þunnu klæði sem er vafið utan um mittið í hinum fegurstu fellingum og endar svo í sveip yfir brjóstið og öxlina. Shalwar Kameez eru síðar pokabuxur og þunn, hálfsíð, langerma blússa sem fellur yfir buxurnar. Eitthvað er af múslimakonum sem eru klæddar í svörtu mussurnar sínar og með andlitið hulið. Karlmennirnir eru flestir klæddir upp á evrópska vísu í síðbuxum og stífpressuðum hvítum skyrtum. Sumir eru í síðu pilsi niður á ökkla og enn aðrir eru í hálfsíðum buxum og stutterma bolum. Kallarnir sem keyra tuktukana eru þannig klæddir. Við fórum með tuktuk að heimsækja Árna og Bjarna í næsta hverfi og það kostaði heilar 200 rúpíur eða um 140 kr. Svo erum við búin að fara í næstu verslunarmiðstöð og þar versluðum við slatta og tókum svo tuktuk heim á 100 rúpíur. Árni er sendiráðunautur hér og Bjarni er að vinna fyrir UNU ásamt Helga. Þeir eru búnir að reynast okkur vel. Við erum búin að borða saman þrisvar og Árni hefur séð til þess að allt hefur verið í lagi í kringum okkur. Við kunnum þeim félögum bestu þakkir fyrir allt saman.

Við höfum ekki enn lagt í að elda sjálf. Við höfum rölt á veitingastaðina hér í kring. Fiskur og kjúklingur eru í miklu uppáhaldi hér, svo og grænmetisréttir. Sri Lanka búar eru að stórum hluta Búdda- og hindúatrúar og fólki er ekki vel við að fórna lífi hér. Enda hæg heimatökin að vera grænmetisæta hér í allri þessari grósku. Skv. Búddistum þá endurfæðist manneskja í allra kvikinda líki hvað eftir annað uns sálin hefur náð þeim þroska að öðlast Nirvana. Þess vegna er þeim illa við að aflífa dýr, því við vitum ekki nema að við séum að koma einhverjum nákomnum fyrir kattarnef. Hér er mikið dýralíf og það mundi æra óstöðugan að ætla sér að fækka t.d. flækingshundum, köttum eða öllum þeim kvikindum sem þrífast í þessum hita. Litlir gekkóar (eðlur) hlaupa eftir veggjum og veiða flugur. Á kvöldin fljúga leðurblökur með miklum skrækjum á milli trjáa. Það er lítið af flugu nema í ljósaskiptunum fer moskítóinn á kreik. Ég er búin að fá fjórar stungur þrátt fyrir eiturgufur sem við sprautum yfir okkur og skarta því nokkrum dökkrauðum peningsstórum deplum eftir þær.

Við látum fylgja myndir sem sýna útsýnið af 15. hæð í blokkinni okkar. Þar sem mataræði okkar er ákvarðað af veitingamönnum þessa dagana verður engin blogguppskrift í dag.

laugardagur, apríl 14, 2007

Ævintýrið byrjað...



Við erum komin til Sri Lanka. Loftslagið er heitt og rakt á okkar mælikvarða en sennilega nokkuð temprað miðað við löndin fyrir norðan okkur. Hitastigið liggur nokkurn veginn í kringum 30°C og rakastigið í kringum 70 til 80%. Við tökum því rólega meðan við erum að venjast loftslaginu. Satt best að segja tekur þotuþreytan líka sinni toll.
Að sjálfsögðu lentum við í veseni í London. Bretinn er búinn að setja nýjar reglur um transit farþega. Það má bara vera með eina tösku á mann, stærð skipti ekki máli! Við og flestir farþegar sem voru að fara þar í gegn voru stoppuð og fengum tvo valkosti. Annað hvort að troða annarri töskunni ofan í hina eða að fara út í gegnum vegabréfaeftirlitið og tékka okkur inn aftur. Okkur féllust hendur, en eftir smáumhugsun var fært til í stærri töskunum og hinum troðið í. Ekkert mál fyrir mig, því ég var bara með veski og flugtösku, en Helgi var með tölvutösku í viðbót við sína flugtösku. Eftir endurskipulagningu og mikla troðslu, fórum við aftur í transitið, þá þurftu flugtöskurnar að passa í einhverja grind sem okkur var bent á. Helgi beitti sínum alkunnu kröftum og tókst að troða töskunum í grindina, en ég er næstum því viss um að grindurnar gliðnuðu um nokkra sentimetra á kant. En inn komumst við og gátum skráð okkur í áframhaldandi flug til Colombo með Sri Lankan Airlines. Þetta var tæplega 11 tíma flug og frábær þjónusta á leiðinni. Að vísu kom það okkur á óvart að kvöldmatur var borin fram fljótlega eftir flugtak kl. 2 að íslenskum tíma og um kl. 4 áttu svo allir að fara að sofa, enda komið kvöld í Sri Lanka. Dregið var fyrir alla glugga, öll ljós slökkt og kyrrð var fljótlega komin á. Okkur tókst misjafnlega að sofa þrátt fyrir svefntöflur en dormuðum með hléum þar til morgunmatur var borin fram klukkustund fyrir lendingu.
Við vorum sótt á flugvöllinn af tveimur brosmildum heimamönnum og síðan tók við ævintýraleg ökuferð inn í borgina. Hér er mjög dularfull umferðarmenning. Þeir keyra vinstra megin eins og alls staðar á gömlum yfirráðasvæðum Breta en aðrar umferðareglur eru þverbrotnar. Hver treðst um annan þveran í gríðarlegri þvögu af bílum, strætisvögnum og tuktuk. Tuktuk eru þríhjóla yfirbyggðar vespur með sæti fyrir tvo mjóa aftur í. Hér berjast menn um hvert bil í umferðinni og það er ekki fyrr en ökutæki eru komin mjög nálægt hvert öðru sem annar hvor gefur sig. Oftast víkur sá minni, en stærri tækin víkja líka þegar ástandið er metið þannig að ekki borgi sig að troðast frekar. Flautum er óspart beitt til að frekjast eða vara við en ökumenn sjást ekki með hnefann á lofti (road rage). Flestir víkja með bros á vör. Bílferðin átti að taka um klukkustund en vegna morgunumferðar og gríðarlegrar rigningar (sumir tóku regnhlíf með sér) tók þetta tvær og hálfa klukkustund. En það var tekið á móti okkur með pompi og prakt í sendiráðinu og eftir smáhressingu voru við flutt í íbúðina okkar, þar sem við lögðum okkur í nokkrar klukkustundir. Um kvöldið vorum við sótt aftur í kvöldmat hjá íslenska sendiráðunautnum. Við fengum forsmekk af matseld heimamanna og það lofar góðu. Maturinn var frábær. Sumt sterkt en flest mjög milt, líkist helst indverskri matseld. En við fórum svo heim undir miðnætti eftir skemmtilegt kvöld og steinsváfum í 11 klst. Nú hvílum við okkur fyrir ævintýri næstu daga.

föstudagur, apríl 06, 2007

Dymbilvika byrjar...



Nú er ég þreytt en glöð. Í fyrrakvöldi lauk frábæru námskeiði með hátíðakvöldverði. Fyrir tveimur vikum barst mér bréf í hendur frá Sjálfstæðisfélagi Akureyrar, þar sem boðið var upp á leiðtoga- og ræðunámskeið fyrir konur. Þrjú kvöld og hátíðarkvöldverðurinn fjórða kvöldið, allt ókeypis. Ég sá mér leik á borði að kynnast fleira fólki, svo ég skráði mig strax. En viti menn, þremur dögum seinna voru 540 konur búnar að skrá sig og námskeiðin orðin tvö. Ásdís Halla Bragadóttir forstjóri Byko og fyrrverandi bæjarstjóri Garðabæjar opnaði námskeiðið með aldeilis frábærum fyrirlestri um hlutverk og þörf á að taka hlutverk leiðtogans í okkar lífi, heima, í félagslífi og á vinnustað. Rætt var vítt og breitt um nauðsyn jákvæðni og framsýni og henni tókst að fá okkur til að trúa því að besta leiðin til að breyta aðstæðum væru þessi eiginleikar. Skemmst frá að segja að gríðarleg stemmning myndaðist strax á fyrsta fundi og náði hámarki í skemmtun miðvikudagskvöldsins. Ríflega 500 hundruð konur mættu í laufléttan fordrykk í anddyri íþróttahúss Síðuskóla og síðan var boðið til borðs. Karlmenn sjálfstæðisfélagsins þjónuðu og fórst það vel úr hendi. Núverandi og fyrrverandi bæjarfulltrúar og þingmenn mættu, almennir félagsmenn og gestir alls staðar að. Síðan var borin fram eðalhamborgarahryggur í boði Kjarnafæðis, eftir matinn var borið fram kaffi með konfekti og kransakökum í boði Kristjánsbakarís, drykkjarvörur við hvers manns hæfi eftir vild. Bæði var boðið upp á dinnermúsík og Akureyrskan Idolsöngvara, bestu ræðurnar voru fluttar, leikfélagið kom með sýnishorn af leiksýningum páskanna, konur fluttu stuttan leikþátt og síðast var dregið um ellefu flotta vinninga en enginn þeirra lenti hjá mér. Heim komst ég undir miðnætti himinsæl með frábært kvöld.

Nú fer að líða að því að við forum til Sri Lanka. Á mánudagsmorgun förum við suður og á þriðjudag hefst ferðin langa. Við munum lenda í Columbo að morgni miðvikudagsins og þar verður tekið á móti okkur. Það er búið að leigja handa okkur íbúð, sem verður aðsetur okkar út júní. Hugsið ykkur, næsta fimmtudag munum við sitja einhvers staðar hinum megin á hnettinum með gin og tonic í glasi og horfa á allt öðru vísi sólarlag. Ég læt nánari lýsingar bíða. En hér fylgir með mynd af Ögmundi nágranna okkar og vini í sólbaði á Sri Lanka í febrúar.

Páskarnir verða haldnir hér í norðurhöfum. Við erum á fullu að ganga frá stofunum okkar og það lítur allt út fyrir að hægt verði að borða hátíðarkvöldverð hér fyrir brottför. Við erum að hugsa um að taka út hina jólaöndina og elda daginn fyrir páska. Við ætlum líka að njóta þess að bærinn okkar er fullur af gestum. Flestir eru hér til að fara á skíði, en aðrir ætla í leikhúsið og skoða ýmsa menningarviðburði. En flestir ætla að fjölmenna á veitingahús eða heimahús í plássinu og gera sér glaðan dag. Miðvikudagurinn bar þessu vitni. Hleypt var í hollum inn í ríkið, biðraðir í matvöruverslunum voru mældar í klukkustundum en ekki metrum og bílaumferðin slagaði hátt í höfuðborgarsvæðið. En við höldum okkur heima og njótum lífsins. Núna ætlum við ekki elda neitt stórfenglegt. Við fengum soðna drottingarskinku í Bónus. Hún verður skorin í þunnar sneiðar og borin fram með kartöflusalati, niðursoðnum ferskjum og honey Dijon sinnepi. Með þessu verður teygaður norðlenski bjórinn Kaldi en eins og alþjóð veit er hér um sérlega hollan og bragðgóðan drykk að ræða enda ógerilsneyddur. Við sendum ykkur öllum hlýjar kveðjur úr norðurhöfum og vonum að lífið leiki við ykkur. Gleðilega Páska!