föstudagur, nóvember 30, 2007

Heimferðin gengur hægt...

Ég lagði af stað frá Köben upp úr kvöldmat í gærkvöldi og allt gekk vel. Okkur seinkaði um 20 mín á leiðinni til Íslands vegna ókyrrðar í háloftum. Í Keflavík var lent kl. 11:15 og þar beið Stefán eftir mér en Helga hafði lent óvænt á næturvakt. Eftir gistingu í Njarðvík hitti ég Helgu í morgunsárið og síðan var rennt af stað til Reykjavíkur þó að það væri vitað að frestun væri á flugi norður. Núna sit ég í góðu yfirlæti heima hjá Þórdísi og Sigga og bíð þess að byrjað verði að fljúga norður. Útlitið er ekki gott þar sem spáð er stormi næsta sólarhringinn og vel á annað þúsund manns bíða eftir flugi. Það er ágætis veður núna bæði í Reykjavík og á Akureyri en ísing og ókyrrð í háloftunum. Ég vona þó að ég nái heim í nótt og geti sofið í mínu rúmi. Ef ekki þá verður þetta góð heimsókn.

föstudagur, nóvember 23, 2007

Nýtt barnabarn og fertugur tengdasonur


Eins og sum ykkar vita þá er frúin komin út til Köben til að vera dótturinni til halds og trausts við fæðingu þriðja barnsins. Ég kom í hús um miðjan dag mánudaginn 12. nóv. og kl. 19:00 var dóttursonurinn fæddur. Á miðvikudag komu mæðginin heim og síðan hefur Gísli litli Freyr blásið út og lengst með tilþrifum. Í morgun var hann mældur hjá lækninum. Nú var hann 3.700g og 54cm. Ekki skrýtið því barnið stendur alltaf á blístri og það lekur út um öll göt nema eyrun. Hann er ósköp vær og heyrist lítið í h0num. Ég verð svo á heimleið 29. nóv. n.k.

Við Helgi óskum Sigurði tengdasyni okkar til hamingju með afmælið í dag. Nú er hann fertugur og ber aldurinn bara nokkuð vel. Helgi verður þó fjarri góðu gamni meðan við hér gæðum okkur á sniglum og önd í kvöld.