miðvikudagur, maí 24, 2006

Það er stór dagur í dag...


Í dag, 24. maí, er einkadóttir okkar þrítug. Við sendum henni hjartanlegar hamingjuóskir og vonum að hún eigi góðan dag með fjölskyldu sinni. Frænkur hennar eru á leið til Köben til að halda upp á þennan merkisáfanga með henni. Það er varla að hægt sé að trúa því að tíminn hafi liðið svona hratt. Það er svo stutt síðan að hún var bara lítill síbrosandi grallari en nú er hún ábyrg ung kona sem við erum óskaplega stolt af. Á þessum degi fyrir þrjátíu árum var skítkalt úti eins og er í dag. Þegar ég var svæfð fyrir keisaraskurðinn var lítill gróður á trjánum og nöturlegt út að líta, en þremur dögum seinna vaknaði ég og fékk að sjá dóttur mína. Lítil dama með ljóst hárið í eins og burstaklippingu á höfðinu. Um leið og ég fékk hana í fangið var mér litið út um gluggann. Sólin skein og allt var að grænka. Það var eins og veröldin hefði vaknað með mér og litla krílinu okkar sem var komið í heiminn. Við pabbi hennar, Jón, Gerður og annað skyldulið munum vera með hugann hjá henni í dag. Í tilefni dagsins látum við fylgja uppskrift að afmælisköku fjölskyldunnar, Dimmalimm.

Blogguppskriftin

Dimmalimm

1 1/3 bolli hveiti
1 ½ tsk lyftiduft
½ til 1 tsk salt
½ tsk sódaduft
1 ¼ bolli sykur

Allt þetta er sigtað saman í skál.

1/3 bolli smjörlíki
¾ bolli súrmjólk

Bætt í og hrært í 2 mín.

2 egg
60 g dökkt súkkulaði brætt og kælt
1 tsk vanilludropar

Bætt í og hrært í 2 mín. Hellt í smurt og hveitistráð form og bakað við 180°C í 30 – 35 mín. Má alveg falla aðeins.

Krem
2 ½ bolli flórsykur, ¼ bolli kakó, 1/8 tsk salt sigtað saman í skál. Bætt í 1/3 bolli smjör, 3 msk heitur rjómi, 1 eggjarauða, 1 tsk vanilludropar og allt hrært í 2 mín eða þar til kremið lýsist aðeins. Smurt utan á kökuna þegar hún er orðin köld.

laugardagur, maí 20, 2006

Komin heim...


Það er merkisdagur í dag. Helga Kristín systir mín útskrifast sem sjúkraliði. Norðlenski hluti fjölskyldunnar óskar henni innilega til hamingju með áfangann og óskar henni allra heilla í starfi eða frekara námi. Við erum virkilega stolt af árangri hennar. Um leið óskum við henni og Stebba góðrar ferðar til Tyrklands n.k. mánudag. Ég veit að í tilefni dagsins ætla systur mínar og fylgilið að hittast í Kópavoginum, horfa á Eurovision og borða saman. Við verðum með þeim í anda og skálum fyrir þeim þegar líður á þáttinn.

Við erum komin heim í heiðardalinn og við erum mjög glöð. Rúmin okkar, stólarnir og mátuleg hlýja í húsinu okkar. Gaman að hitta vini og kunningja aftur, hlú að fjölskyldunni og vera glaður yfir því hvað tilveran er stórkostleg. Það er að vísu skítkalt úti í dag en loftið er ferskt. Eina sem við söknum að ráði frá Spáni, er grænmetið og ávextirnir. Í stað þess að vera með hrúgurnar af velþroskuðu grænmeti, þá erum við að velta hálfþroskuðu dóti á milli handanna og reyna að giska á hvenær það verði orðið gott til átu. En við lærðum líka að láta okkur nægja það sem væri á boðstólum hverju sinni. Svo við skellum okkur yfir á vetrarnýtingu afurðanna á spánska vísu.

Rebekka kom með okkur norður á laugardag og hefur verið með okkur alla vikuna. Hún gisti hjá afa og ömmu á fimmtudagskvöld og við horfðum saman á forkeppnina. Við vorum að sjálfsögðu sármóðguð fyrir hönd Sylvíu Nætur að hún komst ekki áfram. Við erum enn móðgaðri yfir því að Carola hin sænska komst áfram. Kannski hefur hún sofið hjá Stockelius eins Sylvía sagði! En við drekktum sorgum okkar í birgðum af nammi og knasi sem við sóttum í Hagkaup í tilefni dagsins.

Til að minna okkur á sólina látum við fylgja mynd af Rebekku Rut í Flamencokjól frá Spáni.

föstudagur, maí 12, 2006

Lok Spánardvalar ...


Í dag fórum við á föstudagsmarkaðinn í Torrevieja. Við héldum lengst af að markaðurinn væri niður við höfn, því þar eru sölutjöld alla daga. En þetta var allt annað. Markaðurinn náði yfir margar götur, tvö torg og eitt óbyggt svæði. Hér eru bændurnir með uppskeruna sína, slátrarinn með afurðir sínar, blómakonur, spánskt sælgæti, föt og alls konar glingur. Við stóðumst ekki mátið og keyptum nýjar kartöflur, lauk og smá nammi. Helgi fékk sér væn leðurbelti hjá súdönskum herramanni. Ótrúlega fallegt og fíngert fólk frá Súdan. En nú líður að lokum Spánardvalar okkar. Í fyrramálið leggjum við af stað til Alicante, en þaðan verður flogið beint til Keflavíkur. Í Keflavík taka Jón, Gerður og Rebekka á móti okkur um sexleytið og við keyrum norður annað kvöld. Við munum án efa sakna hlýjunnar, fólksins og margs í umhverfinu hér á Spáni. Við munum þó ekki sakna skordýranna. Þessir fimm mánuðir hafa liðið hratt og okkur hefur liðið mjög vel hér. Í dag hljóðar uppskriftin á þessa leið.

Blogguppskriftin

Hátíðakvöldverður a La Casa de Xu

Helgi settur í bað og klæddur í sparifötin. Frúin snyrt til og gerð hugguleg í framan. Farið út í bíl og ekið út að næsta hringtorgi. Bílnum lagt á bílastæði La Casa de Xu. Hjónunum vel fagnað af Kínverjum staðarins enda ekki fyrsta heimsókn þeirra. Matseðillinn hljóðar upp á matreiðslu frá Kanton, mjög mildur og bragðgóður matur. Forréttur var gufusoðið Dim Sum fyrir frúna og blandað góðgæti fyrir húsbóndann. Aðalrétturinn var stökksteikt andalæri fyrir mig og steikt nautakjöt að hætti Kantonbúa fyrir Helga. Matarins notið með einni flösku af Pinto rauðvíni frá La Mancha. Með reikningnum var borið fram eplavín og lótussnafs í litlum kínverskum dónastaupum. Við flissum alltaf þegar við sjáum myndirnar birtast í botninum, en fæstir gestanna fatta brandarann. Þeir sveifla í sig snafsinum og rjúka í burtu. En við kvöddum Kínverjana okkar með virktum og handabandi og í staðinn fékk ég lítið staup með mynd af huggulegum Kínverja sem sýnir stinna líkamsparta þegar hann blotnar.

Við hjónin kveðjum Spán og Spánverja með brosi og þakklæti fyrir að hafa gert dvölina svona góða með hjálpsemi, góðu skapi og ótrúlegu langlundargeði gagnvart slakri spænskukunnáttu okkar. Verið þið sæl að sinni. Við tekur daglega lífið norðan heiða.







sunnudagur, maí 07, 2006

Í hátíðarskapi ...


Nú er hátíð sem er kölluð Feria de Mayo de Torrevieja. Við fórum í bæinn á föstudagskvöld og fengum okkur að borða á litlum stað rétt fyrir ofan höfnina.

Á meðan fylgdumst við með fullt af fólki sem var að labba niður að höfn. Óteljandi dömur á öllum aldri í skrautlegum flamenco kjólum. Inn á milli flottir gæjar í þjóðbúningum. Eftir matinn spásseruðum við í sömu átt og hinir. Það er búið að setja upp tívolí fyrir börnin og óteljandi veitingatjöld. Þurrkuð svínslæri hanga í loftum. Lyktin af djúpsteiktum “churros” liggur yfir öllu. Það eru spánskar kökulengjur sem eru steiktar eins og kleinur. Stórar tunnur af bjór og víni eru svo til að slökkva þorstann. Glæsileg Flamencosýning var í gangi, aðallega misstórir hópar af stelpum. Í hverju veitingatjaldi er músík. Þar dansaði fólk á öllum aldri Flamenco á litlum pöllum.

Á laugardagsmorgninum mættu glæsilegir hestar á svæðið ásamt knöpum sínum. Síðan var skrúðganga. Með stuttu millibili stönsuðu sumir hestanna, stöppuðu með aftur­fótunum og mannfjöldinn klappaði í takt. Lífsnautnirnar héldu áfram á hátíða­svæðinu, leikið sér, borðað og dansað af hjartans lyst. Í gærkvöldi var nautaat en við mættum ekki. Okkur finnst hræðilegt að sjá lífið murkað úr þessum stoltu dýrum. En kjötið af þessum nautum var áður fyrr oft eina nautakjötið sem bauðst fátækum. Af því að kjötið var seigt þá var það lagað og drýgt með ýmsum hætti. Gott dæmi um það er eftirfarandi uppskrift að kjötbollum í sósu.

Blogguppskriftin

Albondigas en salsa

Kjötbollur(albondigas):
450g hakkað kjöt, nauta-, kálfa- eða lamba-.
225g hakkað svínakjöt
1 egg þeytt með gaffli
4 msk kúfaðar af ferskri brauðmylsnu
1 hvítlauksrif skrælt og saxað fínt
½ stór mildur laukur rifinn eða saxaður fínt
1 msk söxuð steinselja
1 tsk malað kumin
1 msk ferskt koriander
Salt og pipar

Sósan:
2-3 msk olífuolía
1 rauð paprika fræhreinsuð og fínsöxuð
1 stór mildur laukur skorin í tvennt, síðan sneiddur langsum (litlir þunnir hálfmánar)
1 hvítlauksrif skrælt og fínsaxað
1 kg af þroskuðum tómötum flysjuðum og söxuðum eða niðursoðnir
4 msk þurrt sherry eða hvítvín
1-2 kanelstangir
Sykur, salt

Blandið vel saman öllu innihaldi í bollurnar. Hafið saltað og piprað hveiti á disk og skál með volgu vatni við hliðina á ykkur. Búið til litlar (bitastórar) bollur með blautum höndum og veltið þeim léttilega upp úr hveiti. Hitið 2-3 msk af olíu á pönnu og steikið bollurnar á öllum hlið þar til þær eru stinnar viðkomu. Á meðan er sósan búin til. Paprika, laukur og hvítlaukur látin malla við vægan hita þar til mjúkt. Ekki láta þetta brúnast. Bætið við tómötum, víni og kanel, kryddið með salti og sykri eftir smekk, lækkið hitann þegar sýður og látið malla í 20 mín. Bætið þá bollunum í, hitið aftur að suðu og látið malla þar til allt er orðið mjúkt í 20-25 mín í viðbót. Borið fram með saffran hrísgrjónum eða frönskum sem hafa verið steiktar í ólífuolíu. Líka gott sem tapas með góðu brauði og víni.