sunnudagur, ágúst 19, 2007

Öll afmælin í ágúst...

Við sendum Þórdísi systur bestu kveðjur og hamingjuóskir með afmælið í dag. Huldu Kötu sendum við heillaóskir með afmælið 15. ágúst. Rebekka varð 8 ára þann 17. ágúst og við sendum henni hamingjuóskir, koss og knús. Því miður festust hvorki Þórdís né Siggi á mynd á fjölskyldudeginum mikla í júlí. Hulda Kata var fjarri góðu gamni og því ekki mynduð. Rebekka hélt upp á afmælið sitt hér norðan heiða með okkur föðurfólkinu sínu þann 14. ágúst. Þann 15. héldu gestir síðan heim á leið. Kristín og börnin til Köben og Rebekka í Kópavoginn til að undirbúa stórafmælið sitt. Hér róaðist mikið og afinn og amman sátu hálflömuð eftir. Við söknum nú samt örlítið fjörsins. En það líður að hausti og nú tekur við undirbúningur vetrarins. Við fórum í berjamó á föstudaginn og tíndum fullt af berjum. Bláber eru mest áberandi, bæði aðalbláber og venjuleg bláber. Ég týndi restinni af orkunni og er rétt að finna bláendann af henni í dag. Helgi er byrjaður að undirbúa kennsluna og mér sýnist að við höfum sko nóg að gera. Við látum fylgja nokkrar myndir með. Fyrst kemur flott mynd af Huldu Ólafíu í stað Þórdísar. Síðan kemur mynd af næsta afmælisbarni, Rebekku. Næst er þessi flotta mynd af Helgunum með smá Jón í prófíl. Við gátum ekki sleppt þessarri frábæru mynd af litlu frænkunum eftir heimsókn á handverkssýninguna á Hrafnagili. Og síðast en ekki síst sjáum við Jón og Gerði með Helga litla.

föstudagur, ágúst 03, 2007

Ótrúlegt annríki í júlí...

Það hefur ekki gefist tóm til að skrifa mikið að undanförnu. Ég sótti Birtu til Kaupmannahafnar og stoppaði hjá litlu fjölskyldunni í nokkra daga. Þann 2. júlí flugum við svo heima á leið eftir mikið vafstur á Kastrup. En vesenið var sko ekki búið. Þegar til Íslands kom var ekki hægt að lenda á Akureyri vegna mikillar þoku og eftir að sveima yfir Eyjafirðinu í hálfa aðra klukkustund var lent á Egilstöðum og keyrt til Akureyrar. Farþegarnir voru mjög fegnir, því fyrst var okkur sagt að við yrðum að lenda í Reykjavík með tilheyrandi akstri norður! En heim komumst við klukkan þrjú síðdegis í stað þess að vera mætt í morgunmat. Síðan hefur verið mikið um að vera hér í Möðruvallastræti. Fyrst fengum við heimsókn um helgina 8. júlí. Einn af vinum Jóns var að koma með son sinn á fótboltamót og gisti hérna hjá okkur. Hálfum mánuði síðar komu systurnar mínar með skylduliði og var gist alls staðar. Í kjallaranum og úti í garði. Þann 30. júlí kom svo Kristín með Helga litla og 1. ágúst kom Rebekka. Svo hér hefur verið mikið fjör og gaman í sumar. Um miðjan mánuðinn mun svo allir halda til síns heima og Helgi byrja aftur að kenna. Ég ætla líka að fresta öllum pistlaskrifum þangað til.

Við sendum Dísu mágkonu síðbúnar afmæliskveðjur í tilefni gærdagsins og vonum að hún hafi átt góðan afmælisdag.
Við látum fylgja með nokkrar myndir frá fjölskylduheimsókninni. Efst erum við Helga systir, svo er mynd af Birtu og Guðrúnu að borða vöfflur á sveitamarkaði, mynd af Njarðvíkurgenginu í jólagarðinum og síðast en ekki síst, Birta og Hulda Ólafía að ríða röftum í jólagarðinum. Ef þið smellið á myndirnar þá birtast þær í stærra formi. Sigga, Þórdísi, Jóni, Gerði og Daða tókst einhvern veginn að sleppa framhjá myndatökum.
Hjartans kveðjur til ykkar allra með þakklæti fyrir frábærlega skemmtilega en allt of stutta heimsókn.