laugardagur, apríl 29, 2006

Gleðilegt sumar öllsömul...


Nú fer í hönd löng helgi hér á Spáni, Feria de abril. Þá æðir fjöldi fólks af stað í lautartúra, fjölskylduveislur, strandferðir og til ýmissa hátíðahalda. Sumt kvenfólk og litlar stúlkur sjást í doppóttum flamenco klæðnaði með kamba í hári og pífur á ermum og pilsi. Hátíðahöld eru í flestum bæjum og þorpum. Paellur er eldaðar, borðaðar og ómældir lítrar af rauðvíni renna ofan í mannskapinn. Við höfum séð að skrúðgöngur eru vinsælar skemmtanir við flest tækifæri. Í Valencia voru um síðustu helgi miklar skrúðgöngur til að minnast þess þegar Spánverjum tókst að reka Mára af sléttum Spánar fyrir fullt og allt eftir 700 ára valdatíma þeirra. Þá klæðast menn í fimmtándu aldar búninga. Sumir leika bjarta og fagra Spánverja og aðrir dökka og ljóta útlendinga. Svo er efnt til bardaga en að sjálfsögðu allt í góðu. Síðan hópast allir saman og borða rétt sem eru kallaðir „ Márar og Kristnir“. Þetta er hrísgrjónahringur með svörtum baunum í miðjunni. Sigurinn er í höfn, kristnir hafa umkringt márana. Með þessu er borin fram fersk tómatsósa, því vígvellir voru alltaf blóðugir!! Um næstu helgi verða hátíðahöld í Torrevieja og eru allir erlendir gestir boðnir sérstaklega velkomnir og heimamenn hvattir til að blanda geði við þá. Við skiljum þetta ekki alveg þar sem heimamenn eru einstaklega ljúfir í viðmóti og hjálplegir. Það þarf frekar að vara sig á aðkomupakki frá hinum ýmsu löndum. Svo sem glæpa­gengjum frá austur Evrópu eða fjársvikaliði frá norður Evrópu. Hér eru fréttir í hverri viku af afhjúpun slíks glæpahyskis. Spánverjarnir eru aðallega að drepa sig í bílslysum eða berja kellingar og krakka til bana og að sjálfsögðu er hafið þjóðarátak til að stemma stigu við þessum ósóma. Nú er farið styttast í veru okkar hér á Spáni. Við erum farin að hlakka til því hér er farið hitna töluvert og því kominn tími til að halda á svalari slóðir. Til hátíðabrigða skulum við setja inn uppskrift af heilsteiktum svínahrygg. Við notuðum að sjálfsögðu kjöt af iberico bellota fyrst við erum stödd hér um slóðir, algjört æði!!!

Blogguppskriftin

Kryddleginn svínahryggur

Hryggur með 3-4 rifjum án pöru en helst með þunnu fitulagi (uþb 600 gr)

1 tsk esdragon
½ tsk rósmarín
½ tsk timian
1 tsk af rifnum sítrónuberki
3-4 hvítlauksrif skræld og sneidd í þunnar sneiðar
3 msk ólífuolía extra vergine
Gróft salt og pipar

Nuddið hrygginn vel með smávegis af olíunni, saltið vel og piprið. Verið ekki smeyk við að höndla kjötið. Gott nudd meyrir það vel. Blandið afgang af olíunni við kryddið og hvítlaukinn. Ef ferskt krydd er notað, þá breytast tsk í msk. Nuddið þessu vel inn í hrygginn. Pakkað inn í plast eða álpappír og leyft að hvíla í ísskápnum í 6 til 48 klst. Við eldun er kryddið skafið af kjötinu. Steikt í miðjum ofni við 220°C þar til hiti í miðjum vöðva fer yfir 70°C. Sennilega um 30 til 40 mín. Takið þá kjötið úr ofninum, setjið álpappír lauslega yfir og látið standa í 15 mín. Ágætt er að hafa gott kartöflugratín með. Dugar vel fyrir 2 og jafnvel fleiri.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Óboðnir gestir...



Þegar við komum hér um jólin var til mikið og gott úrval af skordýraeitri. Meðal annars stór brúsi af eitri sérstaklega ætluðu til að vinna bug á kakkalökkum eða la cucaracha eins og þeir heita hér á Spáni. Brúsinn var næstum tómur svo við áttum von á að kvikindin myndu sýna sig með vorinu. Við höfum þrifið allt hátt og lágt einu sinni í viku og notað sérstakt Ajax Repel á gólfin sem á að halda öllu skordýrafríu. Enda höfum við verið blessunarlega laus við nærveru þeirra innandyra. En aðfararnótt skírdagsins var dýrðin búin. Sem við lágum og horfðum á imbann sé ég allt í einu stóran svartan hlunk koma spásserandi undan eldavélinni. Helgi brást hratt og snöfurmannlega við og sótti stóra græna flugnaspaðann okkar og drap kakkalakkann. Örstuttu seinna kemur litla sexfætta konan hans labbandi og varð að annarri klessu. Eftir töluverða stund kemur einn lítill trítlandi og hlaut sömu örlög. Daginn eftir var farið í Páskaþrifin degi á undan áætlun. Sópar, ryksuga og tuskur ásamt mismunandi eitruðum hreinsiefnum voru nýtt til hins ýtrasta. Allar smugur voru hreinsaðar og eitri sprautað á þá staði sem ráðlagt var. Síðari hluta dagsins stóðum við sigrihrósandi og horfðum yfir vígvöllinn. Næstu þrír dagar liðu og okkur leið bara vel í tandurhreinu húsinu. Aðfararnótt mánudags vaknaði frúin um tvöleytið við árás gigtargemlingsins. Þar sem verkjalyfin eru geymd í eldhúsinu var sjálfgert að fálma sig fram. Um leið og ljós kviknaði hlupu tveir stórir svartir blettir af stað. Húsbóndinn hrökk upp af værum blundi og stökk fram til varnar kerlu sinni. Um leið hlupu nokkrir kakkalakkar í viðbót með veggjum. Græni spaðinn gegndi sínu hlutverki með sæmd. Sex lágu í valnum. Eftir nokkrar vangaveltur áttuðum við okkur á því að flestir voru í nánd við eldavélina þrátt fyrir að hún hefði verið rifin fram og þrifin hátt og lágt. Stóri brúsinn var því gripin og sprautað í allar glufur á vélinni. Daginn eftir lágu tveir dauðir við vélina. Eiturbirgðirnar voru endurnýjaðar snarlega og nýjum skammti dreift á alla áhættustaði. Nú eru liðnir nokkrir dagar og við bíðum með öndina í hálsinum eftir næstu kakkalakkafjölskyldu!!!! Það er ekki við hæfi að setja inn uppskrift í dag, þó að við höfum sannfrétt að einhverjar þjóðir djúpsteiki kvikindin eða hjúpi í súkkulaði.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Í lok Semana Santa...


Gleðilega páska kæru vinir og ættingjar nær og fjær. Hér er dýrðlegur páskadagsmorgun, sólin skín, 23° hiti og bærinn er fullur af útlenskum skríl!!! Hér er allt í mismunandi stórum umferðateppum, búðirnar eru yfirfullar og strandirnar líka. Við látum lítið á okkur bera. Förum og verslum í úthverfum og rétt kíkjum í bæinn til að skoða stóru gylltu flekana með jesústyttunum sem múgur og margmenni ber síðan um götur sér til sáluhjálpar og syndayfirbótar. Hjá þeim alsyndugustu er sveif á flekanum og öðru hvoru kemur svartklædd vera a la Ku Klux Klan og togar í sveifina og þá lyftist flekinn og skellur á öxlum syndaranna. Þeir segja að þeir sem beri þyngstu byrðarnar fái mestu fyrirgefninguna. Einn alstærsti flekinn er hér í Torrevieja og vegur 1500 kg. Alþjóðlega bræðralagið ber hann um götur og þarf 110 manns til að lyfta flykkinu. Stærsti hópur bræðralagsins er breskur og síðan eiga aðrar þjóðir sína fulltrúa. Aðeins 20% þeirra eru kaþólikkar. En í dag eru allir himinglaðir vegna páskaupprisunnar og nú verður eldaður dýrindis matur í öllum eldhúsum og allt tiltækt notað sér skemmtunar. Enda himnafaðirinn búinn að fyrirgefa syndir í tonnatali. Við höldum okkur heima í litla húsagarðinum okkar og ætlum að vígja grillið í dag. Það er að vísu kolryðgað og ljótt eftir veturinn en grindin er hrein og kolunum er ábyggilega sama um ryðið. Við ætlum að borða nautaentrecote og ég ætla líka að gera tilraun til að grilla artiskokkur. Ég fékk heilt kíló af þeim fyrir 1 evru. Kannski eru þær óætar en smá alioli bjargar áreiðanlega því sem hægt er. Ég ætla að gefa ykkur uppskrift að spænskri útgáfu.


Blogguppskriftin

Alioli

5 hvítlauksrif skræld
150 ml góð olífuolía

Gamla aðferðin: Merjið hvítlaukslaufin í mortéli með ¼ tsk af grófu salti. Þegar þau eru orðin að mauki, bætið þá olíunni hægt og hægt í þar til blandan er þykk og góð. Þeir sem er óöruggir með útkomuna, geta bætt við eggjarauðu og þá verður blandan líkari majónesi. Smádropi af sítrónusafa skerpir bragðið. Ef þú ert að flýta þér hentu þá öllu í blandarann með smásneið af soðinni kartöflu eða brauðskorpu sem hefur verið bleytt og er kreist þurr. Það kemur í veg fyrir að blandan skilji sig. Berið fram sem ídýfu með brauði, léttsoðnu grænmeti, hráu grænmeti eða notið með grilluðum mat allt eftir því sem ykkur dettur í hug. Spánverjunum finnst gott að blanda smá alioli í tærar súpur, þá oftast fiskisúpur. Það er þá gert við borðið eftir smekk hvers og eins. Ef hvítlauksrifin eru ekki fersk eða farin að spíra, þá benda franskar uppskriftir á að skera hvítlauksrifin langsum í sundur og taka úr þeim grænu spírurnar. Þá verður hvítlaukurinn ekki eins bitur. Frakkarnir nota alltaf eggjarauður og þá eina á hverja 100 til 150 ml af olíu.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Loftkælingakvef...


Á laugardaginn ókum við sem leið lá norður í land og skoðuðum nokkra bæi. Byrjuðum í Almoradí, síðan til Crevillente. Þar stoppuðum við og skoðuðum falleg torg og slatta af markaðstjöldum með alls konar litríku drasli. Þaðan var farið til St Pola, þar er álíka saltframleiðsla og í Torrevieje. Svo enduðum við í Guardamar sem er gríðarlega vinsæll ferðamannastaður. Þar stoppuðum við á ströndinni gengum svolítið og horfðum á hálfberrassað og afvelta lið sleikja sólina og bjórflöskur. Við settumst á barinn og fengum okkur smárétti og brauð með alioli. Alioli er hvítlauksmajónes/sósa sem er borið fram með brauði. Algjört sælgæti. Alla leiðina var loftkælingin á og í lok ferðar var okkur hálfkalt þrátt fyrir 26° útihita. Á sunnudag hélt Helgi að hann væri með grasofnæmi en þegar leið á daginn rann upp fyrir okkur ljós. Við vorum kvefuð!! Nú er aðeins að brá af okkur en við erum frekar lufsuleg.
Fyrir helgi fórum við á markaðinn og heimsóttum vin okkar slátrarann. Sá sem selur okkur uxakjötið. Við keyptum meira af því og einnig svínakótelettur iberico bellota. Flottar, dökkar og vel fitusprengdar kótelettur. Við kryddlögðum þær í mildu kryddi og steiktum síðan í fyrradag. Ég á ekki til orð til að lýsa þessu kjöti. Það bókstaflega bráðnar í munninum og bragðið er engu líkt. Það var hverrar evru virði. Kryddunin er ættuð frá Rioja og er notuð á svínafillet (úrbeinaðar svínakótelettur). Þar eru steiktar eða grillaðar kótelettur skornar í helminga og settar í brauð (baguette/bocadilla) og er vinsæll skyndibiti þar um slóðir. Mælt er með að kryddleggja sæmilegt magn af þeim og frysta það sem ekki er eldað. Sneiðarnar eru þunnar svo ekki þarf að þíða þær fyrir notkun og því hægt að grípa til þeirra með litlum fyrirvara.

Blogguppskriftin

Lomo en adobo
(paprikulegið svínafillet)

350g svínafillet
2 msk mild paprika
½ tsk oregano
½ tsk timian
1 lárviðarlauf
1 hvítlauksrif skrælt og marið með 1 tsk salts
1 msk olífuolía

Blandið kryddinu saman við olíuna og nuddið vel inn í kjötið. Pakkið því svo inn í klessuplast eða álpappír. Setjið í ísskápinn og látið marinerast alla vega í sólarhring. Kjötið þolir allt að viku í ísskáp og það batnar með degi hverjum. Við eldun er stykkið tekið og skorið í þunnar sneiðar, ca kótelettuþykkt eða kóteletturnar teknar í sundur. Þurrkum af kjötinu og skellum því á grill eða pönnu í 3 – 4 mín, snúum því einu sinni. Sem tapa eða forréttur er hver sneið sett á litla brauðsneið (baguette) og sítrónusneið með. Dugar fyrir 4-6 sem tapa eða fyrir tvo sem aðalréttur. Við steiktum kóteletturnar með beini og settum síðan matreiðslurjóma á pönnuna og leyfðum kótelettunum að malla þar í 5 mín í viðbót. Svínvirkaði með léttu sítrónublönduðu kúskús!!!

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Aftur á Spáni...


Við erum komin aftur til Spánar eftir frábæra heimsókn til Íslands. Skítakuldi sunnanlands og kafsnjór norðanlands. Við misstum svo sannarlega ekki af vetrinum heima. Kærar þakkir fyrir frábærar móttökur svo ekki sé talað um skemmtilega fermingarveislu á laugardeginum. Okkur hlýnaði um hjartarætur að hitta svona mikið af ættingjunum.
En Spánn tók á móti okkur með 24°C hita og stórum blómabreiðum. Afspyrnuljót tré við endann á götunni eru allt í einu allaufguð og komnar þokkalega stórar fíkjur á þau. Sum sé ekki tré eins og í skóginum hennar Mjallhvítar heldur fíkjutré. Hér var fjöldi fugla í trjánum, en Maríuerlurnar eru farnar af stað, sennilega til Íslands, og svölurnar eru horfnar líka. Hér eru eftir pínulitlar finkur sem halda stóra fundi og lenda reglulega í gríðarlegum rifrildum án sýnilegrar ástæðu. Þess á milli spjalla þær ljúflega saman og éta geitunga og döðlur með góðri lyst. Hundtíkurnar í þarnæsta húsi eru í vandræðum vegna katta sem sitja meinstríðnir upp á grindverki eða stiga í næsta húsi. Markmið kattanna er að láta tíkurnar gelta þar til að þær eru orðnar hásar og nágrannarnir brjálaðir.
Í dag ætla ég að miðla til ykkar uppskrift frá Provence í Frakklandi. Vínið gefur sósunni mikið og gott bragð og uppskriftin er fljótleg.

Blogguppskriftin

Engiferrækjurnar hennar Maríu

16-20 stórar hráar rækjur
2 msk ólífuolía
4 msk rifinn ferskur engifer
7 væn hvítlauksrif, skorin langsum og sneidd
Gott sjávarsalt eftir smekk
500 ml eða hálf flaska af þurru hvítvíni
4 msk af ferskri basilíku sneiddri í þunna strimla
Soðin basmati hrísgrjón

Hitið olíu á steikarpönnu sem er nógu stór til að rækjurnar geti allar verið á pönnunni í einu. Setjið 3 msk af engifer, allan hvítlaukinn og klípu af salti á pönnuna. Mallið við meðalháan hita þar til hvítlaukurinn er rétt að byrja að brúnast eða 2-3 mín. Hellið víninu út í og sjóðið niður þar til helmingur er eftir af soðinu eða u.þ.b. 8 mín. Raðið rækjunum ofan á og sjóðið í 4 mín eða þar til þær eru orðnar bleikar í gegn en ágætt er að snúa þeim öðru hvoru. Setjið hrísgrjón í skálar fyrir hvern og einn, setjið rækjurnar ofan á ásamt svolitlu af sósu. Dreifið afganginum af engifernum og basilíkunni yfir. Drekkið gott hvítvín með. Dugar fyrir fjóra í forrétt eða tvo sem aðalréttur.