þriðjudagur, desember 04, 2007

Komin heim...

Ég komst heim á laugardagsmorgun með fyrstu ferð. Vegna mikils fjölda farþega var leigð þota með mannskapinn. Ég var svo heppin að ég fékk að sitja á fyrsta farrými sem er algjört æði fyrir svona gigtveika kellingu. Flugið norður tók ekki nema hálftíma, en í fyrsta aðflugi var vélinni kippt upp aftur. Vá, hugsaði ég, aftur á Egilsstaði? Nei, það voru biluð lendingarljós á vellinum en það mikið farið að birta að lent var í þriðju tilraun. Mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég sá grákoll bóndans í mannfjöldanum á flugvellinum og sór þess eið að það yrðu margir, margir mánuðir áður en ég færi aftur í burtu. Þó svo að Birta hafi sagt að ég mætti alveg koma bráðum aftur. Það var mikil nautn að láta dekra við sig um kvöldið. Nautasteik og rauðvín í kvöldmatinn og danskt konfekt í desert. Það var ekki síðra að komast í stóra stólinn og rúmið sitt um kvöldið. Nú verða jólin haldin heima í fyrsta skipti í langan tíma. Um síðustu jól var Helgi á sjúkrahúsinu og þar áður vorum við á Spáni. Við ætlum að njóta þess að vera heima núna.

Það væsti ekki um mig á föstudaginn hjá Þórdísi og fjölskyldu. Á meðan Þórdís og Siggabræður fóru í leikhúsið um kvöldið, komu Guðrún, Hulda Kata og Stefanía að passa mig og Huldu Ólafíu. Við fórum og borðuðum á American Style. Ég mæli með hamborgurum á þeim stað. Kjúklingabringan sem ég pantaði var svo harðsteikt að það þurfti að skera hana í örþunnar sneiðar til að geta borðað hana. Hún var samt bragðgóð og meðlætið ágætt. Svo var farið heim og horft á ameríska jólamynd. Sem sagt fínt kvöld og frábær félagsskapur. Ég þakka kærlega fyrir allt saman. Þetta er það góða við að vera veðurtepptur. Tækifæri til að hitta þessa frábæru fjölskyldu sem ég á.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Myndin mátti vera betri og kjúklingurinn en það gerir ekkert til!! :) Við hlógum nóg þegar Hulda Ólafía vildi endilega troða pabba sínum inn í skápinn. Kannski finnst henni svona fyndið þegar hann kemur út úr skápnum!! :-)

11:54 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home