mánudagur, janúar 22, 2007

Kóralbrúðkaup...


Í dag höldum við upp á 35 ára brúðkaupsafmæli okkar. Þrátt fyrir grá hár finnst okkur eins og við séum til þess að gera nýgift. Þegar við vorum að trúlofa okkur fyrir rúmlega 37 árum, þá var ég ekki viss um að ég gæti horft á sama andlitið á næsta kodda í 50 ár. Núna finnst mér það hið besta mál. Lífið hefur verið okkur gott og þrátt fyrir nokkra skelli á leiðinni þá höfum við glaðst yfir hverjum degi sem lífið hefur fært okkur. Á bóndadaginn gaf ég Helga hvíta túlípana og í dag eru þeir orðnir bleikir. Kannski er það einmitt lýsandi fyrir okkur.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Heillaóskir til litla bróður...


Guðmundur Kristinn bróðir minn á afmæli í dag og við óskum honum innilega til hamingju með afmælið. Að ekki sé talað um að senda kossa og knús en við biðjum Dísu konuna hans um að sjá um þá hlið fyrir okkur. Hann er aldrei kallaður annað en Gvendur í fjölskyldunni okkar og það breytist sennilega ekki meðan við systur hans höfum smávit í kollinum. Hann er eini maðurinn í heiminum sem ég get kallað litla bróður, þrátt fyrir það að hann sé stærri, feitari og frekari en ég. Hann segir auðvitað að þessi lýsing eigi við mig og þess vegna þori hann aldrei að vera með neitt vesen við mig! Hver ætli trúi því eiginlega? En það hefur ekki reynt á þetta undanfarna áratugi þar við höfum verið í sitt hvorri heimsálfunni. Við sendum honum ástarkveðjur og vonum að ekki líði á löngu þar til við hittumst til að spjalla um lífið og tilveruna eins og okkur einum er lagið.

föstudagur, janúar 05, 2007

Annar í afmæli...

Fyrsta afmælisbarn mánaðarins er Helgi! Hann fær hjartanlegar hamingjuóskir með afmælið frá fjölskyldunni, mér, börnum og barnabörnum. Við erum mjög glöð að hann er komin í lag aftur og vonumst til að eiga mörg, mörg frábær ár í viðbót með honum. Það verður engin stórveisla þetta árið, þó svo að það sé virkilega tilefni til þess. Í tilefni afmælis voru eldaðar andabringur með aðalbláberjasósu, sem bornar voru fram með steiktum kartöflum og hunangsgljáðum sætum kartöflum.

Blogguppskriftin

Andabringur a la Auður et Gordon Ramsey

2 andabringur uþb 200g hvor
Sjávarsalt, pipar

Mælt er með því að byrja að kokka meðlætið.

Smjörsteiktar kartöflur
3-4 vænar kartöflur skrældar og skornar í 2-2 ½ cm sneiðar. Soðnar í kjúklingasoði í10 -12 mín, látið síga af þeim í sigti. Geymið soðið. Eftir að þær eru soðnar (al dente), er 1- 2 msk smjör brætt í pönnu eða potti, krömdu, óskrældu hvítlauksrifi bætt í ásamt smávegis af timian og rósmarín. Þegar smjörið freyðir eru kartöflunum raðað á og síðan steikt í 4-5 mín við meðalhita. Þá er kartöflum snúið við og steiktar á hinni hliðinni í 3-4 mín.

Gljáðar sætar kartöflur eða rófur
1 lítil rófa eða 1 lítil sæt kartafla skræld og skorin í litla ferninga ca 2 cm á kant. Soðið í saltvatni. Rófur í 10 mín en sætar kartöflur í 5-6 mín. Síið vatnið af grænmetinu og leyfið að þorna smástund í sigti. Uþb 1 msk af smjöri brætt í potti, 1-2 tsk af hunangi og ½ tsk af rifnu fersku engifer bætt út. Bitunum velt upp úr í örfáar mínútur.

Andabringur
Meðan grænmetið soðnar er tilvalið að steikja bringurnar. Skáskerið í fituna með stuttu millibili. Leggið bringurnar á skinnhliðina í kalda pönnu og látið steikjast við meðalháan hita í 6-8 mín. Snúið við og steikið á kjöthlið í 1 mín. Saltið skinnhliðin og piprið. Sett inn í ofn í 6-8 mín við 200°hita. Eftir það eru bringurnar látnar jafna sig í nokkrar mín undir álpappír eða viskustykki. Á meðan bringurnar eru í ofninu er fitunni hellt af pönnunni, hálft glas af rauðvíni hellt út á og látið sjóða niður um helming. Heilt glas af kjúklingasoðinu (sem kartöflurnar voru soðnar í) hellt út í ásamt 100g af bláberjum. Látið sjóða áfram í 4 mín. Þykkið aðeins með 2 msk af smjöri eða maizena.

Grænmetinu skipt á tvo diska. Sósu hellt á diskana og ofan á hana andabringu sem er búið að skera gróft niður. Aftur ca 2 cm sneiðar. Þessi uppskrift dugar fyrir tvo.

Verði ykkur að góðu.