þriðjudagur, júní 19, 2007

Ævintýrið endar og nýtt tekur við...


Við byrjum á því að senda Birtunni okkar innilegar hamingjuóskir með afmælið 16 júní s.l. Hún er orðin átta ára og stór og falleg stelpa sem við erum stolt af. Í afmælisgjöf ætlar amman að sækja hana um mánaðamótin næstu til Kaupmannahafnar og bjóða henni að dvelja hjá okkur í júlímánuði. Lent verður á Akureyri þann 2. júlí n.k. Við hlökkum til að fá hana til okkar og vonum að við getum gert henni lífið skemmtilegt hér norðan heiða. Meðfylgjandi er mynd af henni að tala við afa á Sri Lanka.
Í dag er líka lengstur dagur og afmælið hennar Helgu ömmu minnar. Hún hefði orðið 104 ára í dag.

Við komum heim til Íslands á laugardagskvöld eftir tveggja sólarhringa útivist. Vegna þotuþreytu hafa undanfarnir dagar farið í að sofa og hvíla sig. Við lögðum af stað út á Bandaranaika flugvöll í Colombo kl. 2 aðfaranótt föstudags 15. júní eða kl. 21:30 þann 14. júní að íslenskum tíma. Það þýðir ekki annað en að vera tímanlega því afgreiðsla er sein bæði í innritun og hjá útlendingaeftirlitinu. Strax kom í ljós að flugi hafði verið seinkað frá kl. 6:15 til 7:40. Jæja við létum okkur hafa það. Versluðum smávegis, svöruðum einni ferðakönnun og fengum verðlaun fyrir, borðuðum morgunmat og fórum svo inn á VIP lounge og lúrðum þar til að tími var til að fara um borð í flugvélina. Þetta er í 4. skiptið sem við fljúgum með Srilankan Airlines og það verður að segjast að þeir eru með þá bestu þjónustu um borð sem við höfum kynnst. Við fengum heita þvottapoka til að þvo andlitið og hendurnar. Síðan var borin fram morgunmatur. Svo var dregið fyrir alla glugga, breytt teppi yfir sig og sofið eða horft á sjónvarpið næstu 5 klst. Þá voru allir vaktir með ávaxtasafa og heitum þvottapoka. Síðan var borin fram fordrykkur, hádegismatur og það er rétt að taka fram að við fengum að velja á milli þriggja rétta á matseðli bæði í morgun- og hádegismat. Flugvélin lenti síðan í París kl. 3 að þarlendum tíma. Eftir að hafa skráð okkur í transit, fórum við að leita að lounge en var bent á að við þyrftum að fara óraleið að skrifstofu flugfélagsins til að fá boðsmiða. Ekki nóg að vera með kortið! Við nenntum því ekki og fórum því í beint í gegnum öryggisskoðun og í landgöngusal. Skemmst er frá því að segja að Frakkar er miklu skárri en Englendingar í flugvallarmálum. Aðalfarangur okkar var tékkaður inn í Colombo beint til Íslands en við vorum með flugfreyjutöskur og poka með okkur. Engin vandræði, bara eðlilegt eftirlit. Nú tók við 7 klst bið eftir brottför til Íslands en hún var áætluð kl. 22:35 að frönskum tíma eða kl. 21:30 að íslenskum tíma. Sólarhring eftir að við fórum úr íbúðinni okkar í Colombo. En allt var á áætlun og við flugum heim og vorum komin á Hótel Borg um kl. 2 aðfararnótt laugardags og sofnuð örstuttu síðar. En það var sprottið á fætur kl. 9, endurraðað í töskur, farið í sturtu og síðan morgunmat. Um ellefuleytið kom Helga systir síðan að sækja okkur og eftir viðkomu í ríkinu og hjá tengdó hittumst við fjölskyldan hjá Þórdísi systur í Kópavoginum. Það var óskaplega gaman að hitta alla, geta eytt dagstund með þeim og miðlað smávegis af ferðasögunni. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir frábærar móttökur. Við áttum síðan bókað flug norður kl. 17:30 og þar biðu Jón og Gerður eftir okkur. Þar með hafði ferðalagið tekið 46 klst. Við borðuðum saman og nutum þess að hittast aftur eftir langt hlé. Um miðnættið svo skriðið upp í rúm og við misstum meðvitund. Það var aldeilis frábært að koma heim. En mér finnst frekar kalt eftir hlýjuna á Sri Lanka.
Nú er framundan að segja frá síðustu dögunum okkar þar og reyna að sýna ykkur eitthvað af öllum þeim myndum sem voru teknar þar. Það bíður helgarinnar.

miðvikudagur, júní 13, 2007

Ævintýraprinsessan...

Bara örfá orð til að láta vita að við erum komin heim eftir mikla ævintýraferð um hálendi Sri Lanka. Á fyrstu myndinni sem fylgir, efni ég loforðið sem ég gaf barnabörnunum. Amma og afi á fílsbaki. Ein þar sem Kumara fær verðlaunin sín. Tvær sýna prinsessuna heilsa og kveðja.

Mig hefur alltaf langað til að komast í meira návígi við fíla heldur en að horfa á þá tvístíga í dýragörðum. Í gær fékk ég ósk mína uppfyllta. Við eyddum hálfum degi, fyrst í Pinnewala munaðarleysingjahælinu fyrir vegalausa fíla. Þar hittum við 60 fíla af öllum stærðum og gerðum, m.a. einn sem hefur bara þrjá fætur. Hann missti hægri framfótinn uppfyrir ökkla því að hann steig á jarðsprengju fyrir einhverjum árum. Síðan fórum við í annan fílagarð, þar sem hægt er að blanda geði við liðið. Það er skemmst frá að segja að divan sem tók á móti okkur heitir Kumara, sem þýðir prinsessa. Hún fæddist í garðinum 1968 og er fyrsta fílabarnið sem fæðst hefur í slíkum garði (in captivity). Hún gerði garðinn frægan þegar hún lék í mynd um Tarzan, konung apanna. Það var minnsta mál að þjálfa hana en api sem átti að sitja stutta stund á bakinu á henni þurfti tveggja vikna þjálfun. Fyrst var okkur boðið að baða dömuna, en ég treysti mér ekki til að vaða út í vatnið, svo hún kom upp úr ánni og heilsaði okkur formlega. Síðan gekk hún tignarlega upp að garðvegg, lagðist utan í og við vorum komin á bak! Við fórum stuttan hring, nóg fyrir okkur. Svo pósaði hún með okkur fyrir myndavélina. Þá tilkynnti Kumara okkur að hún ætti skilið að fá ávexti í verðlaun. Ég tróð slatta af ávöxtum upp í hana, var þakkað pent fyrir. Hún þurfti líka að sýna okkur hvað hún væri sterk. Trjábút sem er 500 kg að þyngd var lyft léttilega og borinn smáspöl. Að lokum veifuðu hún og fílahirðirinn í kveðjuskyni. Ég fékk að klappa henni og knúsa eins og ég vildi. Það verður að segjast að þegar við kvöddumst, þá var kímnisblik í augum hennar. Ferðasagan verður að koma seinna, enda svo viðburðarík að ég get ekki klárað hana fyrr en heim kemur. Við kveðjum Sri Lanka með frábærar minningar um stórkostlegt land og hjartahlýja þjóð.

mánudagur, júní 11, 2007

Vesen, vesen og þó...


Dagurinn hefur verið svo ævintýralegur að ég sé mig til knúna til að bæta við fréttum. Það er skemmst frá því að segja að vegabréfsáritunin okkar rann út í morgun. Við vorum búin að orða þetta við félagana í sendiráðinu nokkrum sinnum og þeir gerðu frekar lítið úr því. Smámál eins og það var kallað. Reddað eftir helgina. Nú helgin var búin svo við hringdum og tékkuðum á málum. Jú það ætti að vera hægt, mæta til þeirra um hádegið. Þangað komin var altmuligmaður skrifstofunnar sendur með okkur í útlendingaeftirlitið. Undir tvö vorum við komin og mílumiðröð fyrir utan. Okkar maður gekk fram hjá öllum, inn eftir löngum gangi meðfram matsöluborðum og fornbókasölum, upp á þriðju hæð, þar var farið inn eftir fornlegum sal með fjölda opinberra starfsmanna og fengin umsókn hjá afgreiðslunni. Umsóknin fyllt út, farið fram fyrir, tekin af okkur mynd og límd á blaðið. Gengið inn í salinn aftur til einhvers yfirmanns sem kvittaði á allt saman. Næst var farið aftur í afgreiðslu og upplýsingarnar slegnar inn í tölvu og einhverjir reitir fylltir út á blaðinu. Aftur ruðst inn til sama yfirmannsins til að fá aðra uppáskrift. Næst var farið til gjaldkera og borgaðar 4.400 rúpíur, síðan voru blöðin ásamt kvittun og pössum sett til ofurþreytts afgreiðslumanns, sem afhenti okkur númer og sagði okkur að bíða. Hann fór með dótið inn í annan sal, eyddi þar dágóðri stundu með öðrum embættismönnum, fór síðan með allt til yfirmannsins á ný, sem kvittaði á allt saman í þriðja skiptið. Eftir hálftímabið brosti sá þreytti til okkar, kallaði númerið okkar upp og afhenti okkur passana. Við þóttumst góð, drifum okkur niður og fórum framhjá óralangri biðröðinni og vorum keyrð aftur í sendiráðið. Þegar við fórum að tala um að þetta hefði tekið langan tíma, var litið á okkur, glott og sagt ef þið hefðuð ekki verið með mann með ykkur sem hefði troðist fram hjá öllum, þá hefðuð þið þurft að mæta kl 6 í morgun og fara í biðröðina! Nú skildum við þetta með matsölurnar og bækurnar í anddyrinu. Allt þetta fyrir vikuframlengingu á vegabréfsáritun.


Næst drifum við okkur á ferðaskrifstofu og gengum frá því að fara eldsnemma í fyrramálið til Kandy og dvelja í hæðum Sri Lanka í einn sólarhring. Það mætir hér bíll með bílstjóra í fyrramálið kl 6:30 og við ætlum að vera komin í fílabyggðir kl. 9. Um hádegi verðum við komin á vinningshótelið okkar, hvert við förum annað er óvíst. Sem sé óvissuferð sem við komum til baka úr undir kvöld á miðvikudag. Þegar við báðum um að flugferðin okkar yrði staðfest, þá sagði vinurinn að við skyldum drífa okkur út á skrifstofur Srilankan airlines og láta lagfæra farseðlana okkar til að við lentum ekki í vandræðum á flugvellinum. Við gegndum þessu og eftir smáhvíld heima var aftur lagt í hann, nú norður á Galletanga í Twin Tower center. Það var sko eins gott að það var búið að lagfæra passana okkar. Við vorum stoppuð á leiðinni á einni varðstöðinni og passarnir skoðaðir út í hörgul. Á áfangastað skelltum við okkur í biðröð sem var flokkuð eftir kyni. Á endanum voru klefar þar sem skoðað var í töskur og horft á okkur rannsakandi augnaráði. Síðan komum við inn í húsið og þar voru öryggisverðir og málmleitarhlið. Eftir það komumst við inn í húsið og á heimaslóðir flugfélagsins. Þar tók við enn eitt vesenið, starfsfólkið sá að við vorum bókuð 15. en farseðlarnir okkur einungis gildir 29. Enn eitt vesenið. Eftir þref og símhringingar til Íslands var ákveðið að við mundum koma aftur á fimmtudag til að fá nýja pappíra. Enn einn klukkutíminn í vesen og vafstur. Við vorum varla komin inn í enn einn tuktukinn fyrr en fór að rigna ótæpilega. En heim komumst við og gátum hvílt okkur örlítið áður en það var trítlað í mat. En við erum þó fegin að við lentum ekki í flugseðlaveseninu um þrjúleytið á aðfararnótt föstudags.
Drykkur dagsins er einn af uppáhalds drykkjum okkar á matstöðunum, lime and Soda. Safi úr hálfu eða heilu lime eftir því hvað það er stórt. Nokkrir ísmolar út í og fyllt upp með sódavatni. Sykrað eftir smekk með gervisykri eða sýrópi. Ekki nota sykurinn hér á Sri Lanka, hann er fullur af örsmáum maurum. Við notum yfirleitt 4 - 5 Canderelpillur. Mjög svalandi og styrkjandi eftir erfiða daga. Gin og tonic er svo á boðstólum eftir kvöldmat.

Ég læt fylgja mynd af tveimur Búddum til lukku.

Ayubowan...

Ayubowan er notað til að heilsast og kveðjast hér á Sri Lanka og þýðir að þér og þínum er óskað velferðar og friðar um ókomna tíma.

Við erum búin að breyta farmiðum þannig að flogið verður heim 15. júní n.k. tveimur vikum fyrr en áætlað var. Helgi er að ljúka því sem átti að vera hans verkefni hér. Það hefur verið vaxandi órói í samfélaginu. Hermönnum og varðstöðvum hefur fjölgað. Þetta verður langt ferðalag. Búið er að breyta næturfluginu okkar í dagflug vegna árásarhættu sem þýðir að við þurfum að bíða margar klukkustundir í París og fljúga heim með kvöldflugi. Við lendum í Keflavík einum til tveimur tímum eftir miðnætti og erum þá búin að vera á ferðinni í ríflega 30 klst. En við hlökkum til að hitta fjölskylduna og komast norður seinni hluta laugardags.

Þetta hefur verið ævintýralegt ferðalag. Við höfum að vísu ekki enn ferðast neitt um Sri Lanka. Áætlanir um slíkt frestuðust þar sem mér tókst að verða lasin í vikunni. En núna um helgina ákváðum við að skoða meira af Colombo. Nyrst í Colombo er Galle fort sem eru leifar af virkisveggjum Portúgala á stórri eyri. Þar hefur alla tíð verið miðstöð þeirra yfirvalda sem hafa stjórnað á hverjum tíma. Þar er líka stórt vatn, Beira vatn, með eyju sem er kölluð Slave Island. Þar geymdu Hollendingar afrísku þrælana sína áður en þeir voru seldir plantekrueigendum. Til að þrælarnir strykju síður var miklum fjölda krókódíla skellt í vatnið. Þessum krókódílum var svo komið fyrir kattarnef þegar Bretar tóku stjórn á nýlendunni. Þeir þurftu ekki afríska þræla til að rækta te, heldur fluttu þeir mikinn fjölda tamíla frá Indlandi. Tamílarnir kunnu terækt og voru góðir stjórnendur. Syðst í vatninu er undurfagurt Búddahof sem er kallað Gangaramaia. Það er byggt þannig að það virðist fljóta. Hinum megin á götunni er annað Búddahof miklu eldra. Mjög fallegt hof með fjölda af Búddastyttum og safn ýmissa fornra og verðmætra muna sem þeim hefur áskotnast á löngum tíma. Í forgarðinum var stór fíll með þær stærstu skögultennur sem ég hef séð. Síðan fór Tuktuk gæinn okkar með okkur til eðalsteinasala, en Sri Lanka er einn stærsti útflytjandi eðalsteina í heiminum. Þar hófust fimleg sölusamskipti. Eftir mikil kostatilboð og skoðun á safírum, rúbínum, tópösum og ég veit ekki hverju, versluðum við smávegis og forðuðum okkur. Eftir það lá leiðinn niður á Galle Face strönd en þar eru leifarnar af virkisveggjunum. Þar var mikill fjöldi fólks að frílista sig. Við spókuðum okkur svolítið en höfðum lítinn frið fyrir litlum tannlausum kalli, sem þóttist vera kennari fyrir heyrnardaufa. Hann spurði mikið og kjaftaði enn meira og varðist fimlega öllum tilraunum okkar til að sleppa frá honum. Að lokum ætluðum við að fara inn á Galle Face Hótel og fá okkur einn gráan á barnum. En við snerum við á miðri leið og ákváðum að fara heldur heim. Við skelltum okkur inn í Tuktuk og viti menn, sá heyrnardaufi mættur með möppu og bað um nafn okkar á blað fyrir skólann. Ég var svo græn að ég hélt að það væri nú í lagi að setja tvö skrýtin nöfn á blað en Helgi þakkaði pent og ýtti möppunni í burtu. Tuktuk gæinn gaf í og sagði okkur um leið að þetta væri götusvindlari. Hér tíðkast nefnilega að ganga um götur og reyna að fá bláeyga túrista til að styðja hin ýmsu góðgerðamálefni sem oftast eru svo leyst á næsta bar.

Við frískuðum svo upp á okkur og skelltum okkur á Gallery Café í kvöldmat.


Efsta myndin er af hofinu á vatninu, næsta er af Búddaaltari hofsins, síðan er mynd af fílnum skögultennta og svo Búdda í hofinu hans, síðast er mynd af mér og litla tannlausa kallinum sem "kennir heyrnarlausum börnum".

föstudagur, júní 01, 2007

Við fögnum...


Við gleðjumst með systurdóttur minni, Stefaníu Helgu, en hún er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík í dag. Við óskum henni heilla á ókomnum árum og sendum henni árnaðaróskir frá Sri Lanka. Hún hefur staðið sig eins og hetja í gegnum árin og við vonum að MR reynist henni jafnmikill heillakostur að hafa í farteskinu eins og það hefur verið okkur hinum jubileumstúdentunum í fjölskyldunni. Við erum stolt að bæta henni í hópinn. Því miður getum við ekki verið með henni í dag, en sendum henni hlýjar hugsanir og vonum að hún eigi góða stund með fjölskyldu og vinum.