laugardagur, apríl 21, 2007

Við skoðum í kring um okkur...


Í dag erum við búin að vera hér í 10 daga. Smátt og smátt hefur hitinn og rakinn vanist. Við hittum reyndar konu í lyftunni hérna áðan sem gladdi okkur með því að apríl og fyrri hlutinn af maí séu heitustu mánuðirnir. Eftir það kólni heldur í veðri.

Við fórum í stóran verslunarkjarna í dag sem heitir Liberty Plaza. Þar fundum við flottar vínbúðir og enn flottari “Hagkaup”. Það hefur nefnilega ekki fengist lime og tonic í búðinni sem við förum í venjulega. Það er algjörlega út í hött að þurfa drekka engiferöl út í ginið. Það heldur engum flugum í burtu. Við erum samt ekki alveg búin að fatta matarsystemið hér. Við sjáum alls konar skrýtna ávexti og grænmeti sem við þekkjum alls ekki. Mjólkurvörur eru lítið notaðar hér nema í formi jóghúrt og einhvers sem þeir kalla “curd”. Brauð og aðrar vörur úr hveiti er lítið notað. Við þurfum að fara að prófa að elda mat og helst gera tilraunir með innlenda matargerð. Það er hins vegar freistandi að láta veitingahúsin um eldamennskuna, þar sem það er mjög ódýrt að fara út að borða. Dýr máltíð fyrir tvo kostar uþb 4.000 rúpíur eða 2.800 kr. Á ódýrum stað kostar 1.800 rúpíur eða 1.260 kr. Svo þarf ekkert að vaska upp.

Íbúðin sem við fengum er alveg frábær. Hún er á 5. hæð í 15 hæða húsi. Glæný og enginn búið í henni áður. Þetta eru þrjú herbergi, stofa, eldhús og tvö baðherbergi, allt búið nýjustu tækjum. Loftkæling og viftur í hverju herbergi. Frammi er þvottahús, geymsla og salerni. Sendiráðið lánaði okkur lítið sjónvarp og svo er Helgi með tölvuna sína með sér. Sem sagt nútímavædd í bak og fyrir.

Við reynum að hreyfa okkur eitthvað á hverjum degi. Göngum um hverfið og skoðum mannlífið. Eins og annars staðar sjáum við bæði ríkidæmi og örbirgð. Á meðan sumir keyra um göturnar í bensum, þá sjáum við líka betlandi vesalinga. Samt er ekki mikiðum það. En við erum farin að skilja hvers vegna að það er öryggisverðir alls staðar. Þeir gæta þess t.d. að heimilislaust fólk setjist ekki að í bílageymslum eða tómu húsnæði. Þeir halda flækingshundum í burtu. Þeir sjá um að allt umhverfi húsanna sé hreint og þrifalegt og að óviðkomandi aðilar séu ekki að flækjast á svæðinu. Það fer ekki fram hjá neinum að herlög gilda í landinu. Lögregla er fjölmenn og meðfram helstu götum eru varðstöðvar með reglulegu millibili mannaðar hermönnum sem eru gráir fyrir járnum. En þrátt fyrir árvekni eru allir hlýlegir viðmóts. Það er brosað úr ólíklegustu áttum og kurteisin er mikil. Landsmenn minna þó nokkuð á okkur Íslendinga, þeir eru forvitnir og hafa feikna gaman að því að segja sögur. Þeir hafa af nógu að taka í þrjú þúsund ára menningu sinni. Það er einungis sá tími sem hefur verið skrásettur. Við erum rétt að byrja að fleyta rjómann ofan af.
Meðfylgjandi er mynd af fyrsta fundinum hans Helga. Á henni sjáið þið fólkið sem hann er að vinna með að undirbúningi námskeiðs í verkefnastjórnun. Með á myndinni er ungur Íslendingur, Bjarni Eiríksson. Hann er líka með í þessu verkefni. Annars vinnur Helgi mest heima við glærugerð og aðra skipulagning.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home