fimmtudagur, maí 31, 2007

Kyrrðardagar...


Síðasta vika hefur verið róleg. Gott að hvíla sig og leyfa orkunni að endurnýjast eftir undangengna vanheilsu. Það er heldur svalara í veðri núna þessa dagana eða rétt ríflega 30°C en rakinn er mikill, sem þýðir að minnsta hreyfing verður til þess að fólk svitnar ótæpilega. Við höfum verið á ferðinni á daginn. Búin að finna eina verslunarmiðstöð í viðbót, sem heitir Crescat. Sú er sniðin að vestrænum hætti. Stærri búðir, bjartari húsnæði og þess vegna töluvert hærra verðlag þar. Hér í götunni hjá okkur er ein fínasta búðin í Colombo. Hún selur listmuni, húsgögn og búsáhöld, allt sérhannað og ofboðslega flott. Hún heitir Paradise Road. Við fórum þar inn í gær og skoðuðum. Þetta er búð í stíl við Casa enda voru inn á milli alls konar designerdót frá Corbusier og fl. En mest er af innlendri hönnun sem er mjög samkeppnisfær. Einhvers staðar á leiðinni fann ég þetta fína dippidútt úr tré sem ég áleit að væri til þess að skrúfa safann úr sítrusávöxtum. Áður en ég borgaði fannst mér samt rétt að spyrja hvort þetta væri rétt hjá mér. Afgreiðslufólkið fórnaði höndum og sagði að þetta væri útskorin stjörnuávöxtur og væri til skreytingar. Einn gæinn hljóp af stað og sótti samsvarandi verkfæri úr hvítu postulíni og rétti mér. Ég var alsæl og borgaði þetta en hugsaði með sjálfri mér að stjörnuávöxturinn hefði alveg getað gert sama gagn. Tengt búðinni er flott gallery og veitingahús sem heitir Gallery café. Við fórum að borða þar á laugardagskvöldið og vorum algjörlega heilluð. Fyrst var gengið inn í port og þaðan inn í stórt anddyri með vænni tjörn. Alls staðar heyrist vatnsniður í bland við fallega tónlist. Þar á veggjum er málverkasýning og í smáskoti voru seldir valdir hlutir frá búðinni. Þaðan er gengið inn í veitingahúsið, aflangt rými með sérhönnuðum húsgögnum. Við vorum búin að lesa okkur til um að þetta væri eitt af fimm bestu veitingahúsum hérlendis. Þeir stóðu fyllilega undir væntingum og við gáfum okkur góðan tíma til að njóta veitinga og umhverfis.

Fyrr í undangenginni viku heimsóttum við næstfrægustu búðina í bænum. Hún heitir “Barefoot” og selur sérhannaðar handverksvörur. Búðin er í gömlu húsi í nýlendustíl og góðan tíma þarf til að skoða alla króka og kima. Þarna eru seld handofin fataefni úr bómull eða silki. Sérsaumaður fatnaður, leikföng, búsáhöld, bækur og alls konar smáhlutir sem hugsanlega þarf að nota eða punta með á hverju heimili. Ferðalagið endar á litlu útikaffihúsi sem við eigum eftir að prófa. Sérkenni þessarar verslunar er gríðarleg litagleði og sérstaklega tærir og fallegir litir. Skemmtileg og einstaklega fallegt fyrirtæki.

Við erum líka búin að rölta hér um nágrennið og taka myndir hér í götunni af t.d. húsinu sem við búum í. Gróðurinn er mikill, mannlíf og dýralíf gróskumikið. Krákurnar eru á fullu í hreiðurgerð, flækingshundarnir hvíla sig í hitanum, ein og ein kisa er á stjákli og fjöldi fólks á ferðinni. Sumir eru að flýta sér og aðrir ekki. En það virðist vera pláss fyrir alla í þessu samfélagi.

Við enduðum daginn í gær á Hilton Colombo en þar er fyrirtaks veitingastaður sem heitir “Il ponte” eða upp á ítölsku “Brúin” enda ítalskur staður. Við höfðum borðað þar einu sinni áður og erum mjög hrifin af staðnum. Matreiðslan er eiginlega ítölsk evrópsk fusion, virkilega vel heppnuð. Árni sendiráðunautur bauð okkur ásamt tveimur nýjum Íslendingum sem eru að vinna hér að upplýsingakerfum. Við áttum skemmtilegt kvöld, sem er nokkurs konar upptaktur að grillveislu sem Árni ætlar að halda fyrir okkur á laugardagskvöldið.
Efst er mynd af blómabúðinni í götunni, næst er mynd af Paradise Road, síðan er mynd af blokkinni sem við búum í og seinast sjáið þið garðinn í Cricket club café. Það er einn af stöðunum þar sem við borðum oftast. Við setjumst oftast inn og njótum veitinga í loftkældu umhverfi.

fimmtudagur, maí 24, 2007

Til hamingju með afmælið...


Við sendum Kristínu dóttur okkar afmæliskveðjur í dag. Hún er 31 árs og eldist vel. Við hefðum svo gjarnan vilja vera með henni í dag en lönd og höf aðskilja okkur. Við sendum hlýjar hugsanir og biðjum börnin og Sigga að kyssa hana frá okkur.


Við erum loksins að ná heilsu aftur eftir hremmingar síðustu viku. Helgi hefur sennilega náð sér í kamfýlóbakter skv. þeim lýsingum sem ég er búin að kynna mér undanfarið. Mér er svotil batnað af ofkælingunni en undanfarna tvo daga hef ég verið með meltingartruflanir. Vægast sagt leiðinleg vika.
Það hefur frekar róstursamt hér um slóðir undanfarið. Við höfum samt ekki orðið vör við það enda hafa tamíltígrarnir haldið sig við norð- og austlægar slóðir. Í morgun sóttu þeir í sig veðrið og sprengdu upp langferðabíl með hermönnum hér í Colombo í morgun. Mannfall varð ekki en sjö slösuðust.
Við erum farin að hugsa okkur til hreyfings af ýmsum ástæðum og erum að velta fyrir okkur að vera komin heim um miðjan júní. Hvort við förum til Kandy verður undir því komið að rólegra verði hér á Sri Lanka næstu daga.Við upplýsum um áætlanir strax og þær liggja fyrir.

föstudagur, maí 18, 2007

Terima kasih...

Hér hefur aldeilis verið heilsuleysi á bænum. Síðdegis á miðvikudag kom Helgi veikur heim, ómótt og illt í maganum, skreið upp í rúm og lá þar það sem eftir var dags. Í gær kom hann heim undir kl. fimm og þá var hann kominn með hita og illt í hálsinn. Enn og aftur var lagst í bælið. Við Ögmundur fórum út á Queens café og fengum okkur að borða. Ég var komin að hungurmörkum því ég hafði lítið borðað frá því á þriðjudagskvöld. Líðanin mín lagaðist verulega en Helgi eyddi hálfri nóttinni á klósettinu. Þá eru allir Íslendingarnir í tengslum við verkefnið búnir að fá magakveisu nema ég.

En í dag ætlum við að ljúka frásögninni af ferð okkar um Malasíu. Fyrirsögnin þýðir á Malaísku, þakka ykkur fyrir. Við komum aftur til Kuala Lumpur á þriðjudagskvöld. Miðvikudagurinn fór í það að hvíla sig, skreppa út í stóra verslunarmiðstöð sem var rétt hjá okkur og um kvöldið skelltum við okkur á kínverskt veitingahús. Þar fengum við aldeilis frábæran mat. Eldsnemma daginn eftir fórum við í skoðunarferð um borgina. Þetta er mjög hrein og snyrtileg borg. Ofboðslega fallegir garðar og meðfram öllum aðalakstursleiðum er plantað blómum og runnum. Við byrjuðum á safni til að skoða Malaya og ökutæki þeirra fyrr og nú. Síðan var skoðuð stærsta moska landsins, ýmis minnismerki úr stríðinu og síðan var haldið að konungshöllinni. Þar situr nýkrýndur konungur, sá yngsti hingað til, aðeins 45 ára. Þegar Bretar veittu Malasíu sjálfstæði, þá var búið þannig um hnútana að samið var við fyrrum 15 konunga hina ýmsu ríkja landsins að hver þeirra sæti á konungsstóli í 5 ár og þá væri skipt og næsti kóngsi tæki við. Í ár er 50 ára afmæli lýðveldissins og því miklu til tjaldað í veisluhöldum alls staðar sem og krýningu konungs. Síðan fórum við og skoðuðum Kínahverfið, pjáturverksmiðju, batikhús, leðurvinnslu og súkkulaðigerð. Allt mjög áhugavert en verið að selja manni fína minjagripi á uppsprengdu verði. Næst var ferðinni heitið að skoða fyrrum stjórnarsetur Breta svo og cricket klúbbinn þeirra og síðast en ekki síst var tekin myndastopp við hæstu tvíburaturna Suður Asíu. Þegar við komum á hótelið var stefnan tekin á McDonalds til að fríska svolítið upp á vestrænu hliðina á okkur. Á föstudeginum kom Tumi Tómasson á svæðið og þeir Helgi fóru og heimsóttu Jamal í ráðuneytinu. Um kvöldið komu þeir síðan á hótelið ásamt einni dömunni sem hefur líka verið í UNU skólanum og þau buðu okkur að borða síðustu malaísku máltíðina. Síðan var kvaðst með virktum og við boðið velkomin til Malasíu aftur hvenær sem okkur lysti. Deginum lauk með einu til tveimur gin og tonic á mann. Næsta morgun var haldið út á flugvöll. Þar var Tumi orðin hundveikur og taldi það hafa rætur að rekja til máltíðar sem hann fékk í flugvélinni á leiðinni frá Bangla Desh til Malasíu. En ég held að hann hafi fengið einhverja sýkingu sem er svo búin að grassera meðal okkar Íslendinganna hér. En við kvöddum Malasíu þakklát fyrir frábæra ferð og vináttu sem okkur var sýnd.
Efst myndin er af okkur Helga við hallarhlið konungs, á næstu erum við fram við moskuna, þriðja myndin er af stjórnarsetri Breta í Malasíu og sú fjórða er útsýnið úr herbergi okkar á hótelinu.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Á strönd Kínahafs...


Ég er búin að vera hundlasin undanfarna daga, en í dag er þetta allt að skána. Sem betur fer hafa Ögmundur og Helgi nóg að gera við að hotta áfram verkefninu sínu og ég fengið að vera í friði með hóstann minn.

En við skulum halda áfram með Malasíu. Þegar við komum niður að strönd Suður Kínahafs var orðið framorðið og við fengum okkur að borða áður en lagst var inn á hótel til hvíldar. Eftir góðan nætursvefn í Kuala Terengganu var lagt í hann eldsnemma. Nú hafði komið upp eitthvað áríðandi hjá Jamal svo við ætluðum að taka stóra dagskrá og enda um kvöldið í Kuala Lumpur, einum til tveimur dögum á undan áætlun. Nú var stefnan tekin á héraðsskrifstofu sambands fiskimanna. Eftir fund það var tekin stefnan á hádegismat. Á borðum beið okkar smámunngæti. Uppvafin laufblöð með fyllingu. Þegar þau voru opnuð var hrísgrjónabiti innan í með smávökva. Okkur var sagt að þetta væri dæmigert fyrir héraðið og væri oft notað til að brjóta föstuna á Ramadan. Í ljós kom að þetta voru klístruð hrísgrjón hnoðuð með góðu geri og látin gerjast í laufblaðinu í þrjá daga. Sum sé rótáfengt og stílbrot við múslimskar hefðir sem halda sig langt frá áfengi. En þetta var mjög gott. Annað sem við smökkuðum um morguninn voru fiskipylsur sem eru líka einkennandi fyrir þetta hérað. Þær eru kallaðar keropak lekor og er fiskfars hnoðað með sagómjöli. Síðan er það rúllað upp úr hveit og soðið í 15 mín. Pylsurnar eru síðan etnar steiktar eða djúpsteiktar með góðri chili sósu. Eins og þær litu ólystilega út, þá var þetta algjört sælgæti. Síðan var haldið áfram með strönd Kínahafs og stefnan tekin á næsta fiskimannaþorp. Leiðin lá um alls konar lítil þorp og undir fjögur var komið í síðustu heimsóknina. Þar sáum við breiddar til þerris breiður af örsmáum ansjósum. Þær eru soðnar eldsnöggt, þurrkaðar og síðan djúpsteiktar. Malayum finnst þetta ómissandi á hrísgrjónagrautinn sinn á morgnana og almennt með soðnum hrísgrjónum. Eitt af þessu sem við urðum að prófa. En við ókum áfram og um níuleytið að kvöldi þriðjudags vorum við komin til Kuala Lumpur og aftur inn á Quality Hotel. Næsti dagur fór í hvíld eftir viðburðaríka og skemmtilega ferð um norður Malasíu. Á myndunum sjáið þið efst gamalt malaískt timburhús, á næstu mynd eru konur að búa til kerolak lekor til að selja í litlu búðinni sinni, næst eru breiður af ansjósum og síðast konurnar og börnin að bíða eftir því ansjósurnar þorni nóg til að taka þær saman eða chillað á strönd Kínahafs.

mánudagur, maí 14, 2007

Á eyjum og í hitabeltisskógum...

Í gærmorgun var ég komin með hósta, snert af bronkítis og hita. Ég gat ekki annað en hugsað: “Aumingja Helgi, hvers á hann að gjalda að dragnast með handónýta kellingu um hálfan heiminn”. En við vöknuðum samt snemma til að fylgjast með síðustu klukkutímum kosningavökunnar. Mjög spennandi, alveg hissa hvað Framsókn og Samfylkingu hefur gengið vel að tosa sig upp á síðustu metrunum. En mér finnst Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn sigurvegararnir að ná að bæta við sig þingmönnum eftir 16 ára stjórnarsetu. Við tókum því rólega frameftir degi enda von á Ögmundi, vini okkar og nágranna um fimmleytið. Og hann var ekki fyrr komin fyrr en Árni ásamt Tuma kallaði okkur til túnfiskveislu. Ég náði þó að sjá síðustu hringina í formúlunni. Undir kl. 7 tróðum við okkur þrjú í tuktuk og þurftum ekki skóhorn og héldum til veislu.

En ég ætlaði að segja ykkur betur frá Malasíu. Á leiðinni til Penang á norðausturströndinni, voru nokkur fiskiþorp og svæðisskrifstofur heimsóttar. Hvert sem við komum var dregið fram eitthvað í svanginn. Móttökurnar voru frábærar. Malayar hafa þann sið að þeir heilsast með handabandi og leggja svo hægri hendina í hjartastað. Aðspurðir sögðu þeir þetta tákna að tekið væri á móti okkur af hjartans ánægju og bróðerni. Þegar leið á daginn heimsóttum við lítinn ferðamannastað upp í fjalli. Þar fengum við ferskan kókóssafa okkur til hressingar. Síðan var keyrt sem leið lá og þegar við komum að ströndinni var farið með ferjunni til Penangeyju (Pulau Penang). Þegar þangað kom keyrðum við nokkuð langa leið og nú áttum við að gista í hálfgerðri bændagistingu eða Chalet eins og þeir kalla það. Við skelltum okkur inn og það lá við að bakkað væri út. Klósettið rétt virkaði, ef stuðst var við vaskinn þá dinglaði hann eiginlega laus, enginn þröskuldur enda skelltu fyrstu kakkalakkarnir sér fljótlega inn, rúmin voru ágæt en ullarábreiður án laks til að breiða yfir sig. Það er sko á tæru að það eru fleiri en við sem búa til ullardót sem stingur rosalega. En við létum okkur hafa það og notuðum handklæðin sem ábreiður. Við hliðina á húsinu var fiskveitingastaður og þar sest að borðum yfir dýrindis fiskréttum. Við vorum þreytt eftir langan dag og við sofnuðum eins og steinar þrátt fyrir risastóra kakkalakkann sem sat á sjónvarpinu okkar þegar inn var komið. Næsta dag var kúrði ég í rúminu með dýralífinu og Helgi fór með köllunum að kíkja á svæðisstjórann. Undir hádegi var lagt af stað og keyrt yfir lengstu brú Suður Asíu til lands. Nú var ferðinni heitið þvert yfir skagann yfir á strönd suður Kínahafs. Það var ekið yfir há fjöll og í gegnum hitabeltisskóg uns við komum að stóru vatni á fjallstoppi. Við settumst enn að fiskihlaðborði. Ég geri mér yfirleitt far um að bragða á eins mörgum tegundum og ég get. Meðal annars fékk ég mér soðin egg, heilsteikta smáfiska og svo fisk í karríi sem ég vissi að var skata. Jamal og Rosamir vöruðu mig við eggjunum, þau væru brimsölt. En þau brögðuðust mjög vel. Eftir að við höfum setið smástund tökum við eftir því að það mikið af fiskiflugum í kringum okkur. Eftir að reyna að banda þeim frá okkur, færðum við okkur um set en flugnagerið fylgdi okkur. Eftir dálitla stund kemur lítil kisa og gerir sig huggulega. Ég bráðnaði þrátt fyrir áminningar frá Helga og gaf henni smáskötubita. Hún þefaði og kippti sér snöggt tilbaka. Ég smakkaði og varð stórhrifin. Allt í einu tökum við eftir því að flugnagerið var allt lagst á fiskbita kattarins. En það skapaðist ráðrúm til að skella í sig skötunni með góðri lyst án þess að gleypa fiskiflugurnar með. Ég hafði sagt þeim félögum frá skötuáti okkar Íslendinga kvöldið áður í tilefni þess að við fengum grilluð skötubörð í matinn. Núna horfði ég alvarlega á Jamal og sagði honum, að þetta er eins og mjög mild útgáfa af kæstri skötu. Já, sagði hann og glotti, hún er lítillega gerjuð! Með það var haldið aftur af stað niður af fjallinu og þegar við vorum komin að landamærum Thailands og Malasíu glitti fljótlega í Suður Kínahaf.

laugardagur, maí 12, 2007

Á ferðinni um Malasíu...


Við vorum heldur fljótari í förum en áætlað var. Við tékkuðum okkur inn á Quality Hotel í Kuala Lumpur þriðjudagskvöldið 9. maí og fengum þetta líka ágæta herbergi með internetsambandi, straujárni, straubretti og ég veit ekki hverju. En á þremur dögum tókst aldrei að ná sambandi, hvorki í gsm símunum okkar né tölvunum. Skýringar á þessu voru að símalínur voru í henglum og ekkert virkaði. Það var eins gott að eldhúsið var ekki tölvuvætt, því þá hefðum við ekki einu sinni fengið að borða. Það er vond tilfinning að vera svona sambandslaus við umheiminn. Við vissum ekkert hverju fór fram hvorki heima né annars staðar. Í sjónvarpinu voru bara fréttir af atburðum í Asíu. En rúmið okkar var gott. En öll él birtir upp um síðir. Síðdegis í dag komst netsambandið aftur á en Helgi var þá komin út í höfuðstöðvar LKIM ásamt Tuma Tómassyni yfirmanns UNU (Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna á Íslandi). Við áttum þó ekki nema klukkutíma á kortinu okkar og tæknin hleypti okkur ekki í gegn. Nú erum við komin aftur til Sri Lanka og finnst við næstum því vera komin heim.

En Malasía er frábært land. Skógi vaxið frá fjallatoppum niður í fjörur. Við ókum norður eftir hraðbrautinni á föstudag. Fyrst lá leiðin um skógi vaxnar hæðir og fjöll. Þaðan komum við niður á miklar sléttur, þar sem hver hrísgrjónaakurinn tekur við af öðrum. Hrísgrjónabændur hér eru fremur vel efnaðir og það eru ekki lengur notaðir bufflar til að draga jarðyrkjutækin, heldur sérkennilegar vélar á metersbreiðum felgum. Engin dekk á felgunum, þótt Malasía sé einn af stærstu framleiðendum gúmmís á heimsvísu. Verkafólk sér um að reita illgresi og eitra fyrir flugum og það er berfætt í vatni upp á miðjan legg við vinnu sína. En erindi okkar var að skoða svæðisfélög fiskimanna á landsbyggðinni. Að kvöldi var komið til borgarinnar Alor Star í Kedah héraði og eftir smáhvíld var leiðinni heitið í úthverfi hennar í lítið fiskimannahverfi. Þar hittum við fyrsta svæðisstjórann yfir matarbita. Fiskimennirnir reka veitingahús. Ég fór með bílstjóranum okkar og við völdum fisk í matinn. Risastórar risarækjur, tvær eða þrjár tegundir af hvítum fiski og smokkfisk, allt nýveitt. Við settum þetta í körfur og síðan var þetta eldaði kokkurinn fyrir okkur. Borið fram soðnum hrísgrjónum í missterkum sósum. Við vorum farin að venjast kryddstyrknum, en ég flaskaði á því að fá mér uxahalasúpu. Súpan sú kveikti í mér endanna á milli og ég er viss um að það kom reykur út um eyrun á mér. Við nánari skoðun hafði ég verið að tyggja stóran bita af rauðu chilli. Ég kláraði allan vatnsmelónusafann minn og heimamenn voru fljótir að koma með stóra könnu af miðinum í viðbót. Ég jafnaði mig fljótlega og sneri mér að mildari sortum. Þeir stilltu sig um að hlæja að mér, brostu bara í kampinn, en gættu þess að ég væri ekki að álpast út í neina vitleysu í mataræðinu eftir það. Rækjurnar bættu upp skaðann, svo og annar fiskmatur sem við prófuðum það kvöldið. Veitingahúsið er ekki merkilegt, lítið stálgrindahús með þaki en engum veggjum. Kvöldgusturinn af hafi kældi niður lofthitann og því notalegt að sitja þarna í rökkrinu. Við áttum eftir að borða í mörgum svona útiveitingastöðum á næstu dögum. Eitt sem einkennir fiskiþorpin og nágrenni þeirra er fjöldi katta sem er á ferðinni. Þeir skjótast á milli fótanna á fólki þegar fiskinum er landað. Sitja upp á veggjum á fiskmörkuðum og fylgjast vandlega með. Og á útiveitingastöðunum eru þeir á ferðinni á milli borða og reyna að plata fólk til að láta fiskbita hrökkva af diski. Næsta dag heimsóttum við tvö eða þrjú fiskiþorp og svæðisskrifstofur fiskimannasambandsins. Við fylgdumst með löndun fisks, frumstæðum uppboðum og borðuðum alls konar aukabita. Allt frá þurrkuðum fiski til heilla máltíða. Við fórum í litla verkstöð sem býr til fiskibollur og nagga. Það fengum við klístruð hrísgrjón (sticky rice) með harðfiskmylnu. Þegar leið á daginn var lagt aftur af stað og nú var ferðinni heitið til Penang héraðs með nokkrum heimsóknum í Ketalan héraði í leiðinni.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Selamat datang...


Þvílíkt land, þvílíkt ævintýri, þvílík þjóð. Þetta hljómar eins og klisja en við erum heilluð. Orðin í fyrirsögninni þýða velkomin á malaísku. Og við höfum svo sannarlega verið velkomin til Malasíu. Við komum til Kuala Lumpur á fimmtudagsmorgni. Við höfðum farið af stað frá Colombo kl. 4 að morgni og lentum kl 13 að malaískum tíma. Tímamismismunur á milli Íslands og Malasíu er 8 klst. Eftir þessa venjulegu gönguferð um stóran flugvöll komum við að afgreiðsluborði KLIA Express og keyptum okkar miða í hraðlestina með VIP meðferð innfaldri, alveg óvart. Huggulegur porter tók við okkur, bar farangurinn, beið eftir lestinni og fór með okkur á aðalstöðina í Kuala Lumpur. Þar beið lúxusbíll með bílstjóra eftir okkur sem skutlaði okkur á hótelið og fylgdi okkur að afgreiðslunni. Þetta allt saman kostaði 2.600 kr og tók tæplega klst. Okkur leið eins og höfðingjum þegar við vorum komin inn á herbergi. Eftir stutta gönguferð um nágrennið, hvíldum við okkur. Næsta dag kom Jamaludin vinur Helga og fór með hann í heimsókn á vinnustaðinn sinn. Jamal eyddi 6 mánuðum við nám hjá UNU á Akureyri fyrir þremur árum og Helgi var leiðbeinandinn hans í lokaverkefninu. Þarnæsta morgun, 5maí, sótti Jamal okkur og það var lagt af stað í ferð norður alla Malasíu. Ótrúleg ferð. Landslagið engu líkt. Við keyrðum yfir og á milli skógi vaxinna fjalla niður á jafnsléttu á frjósömustu sléttu Malasíu, víðáttumiklum hrísgrjónaökrum eða hrísgrjónaskál landsins eins og landsmenn kalla hana. Við verðum á ferðinni þangað til næsta fimmtudag. Þá komum við tilbaka. Við erum núna í borg sem heitir Kuala Terengganu. Þetta hérað er örstutt frá landamærum Malasíu og Thailands. Þetta er í fyrsta skipti sem við komumst í netsamband síðan á fimmtudaginn var. En það er seint að kvöldi og við búin að vera í 8 tíma ökuferð þvert yfir Malasíu frá vesturströndinni yfir á austurströndina, því ætla ég að geyma ferðasöguna smátíma í viðbót. Takk fyrir kveðjurnar, þær hlýja okkur vel. Á myndinni sjáið þið Helga með vini okkar Jamal.

þriðjudagur, maí 01, 2007

Fróðleiksmolar á Poyadegi...


Í dag er Vesak. Fyrsti poyadagur eftir áramótin 12. apríl og þar sem hann fellur á 1. maí, þá var 1. maí hátíðahöldum flýtt og þau haldin hátíðleg 30. apríl. Þannig næst sérstaklega löng helgi sem nær frá laugardegi til þriðjudags. Fyrir misskilning hélt ég að poyadagurinn væri 24. apríl. En við höfðum verið vöruð við að ekki yrði selt áfengi í heila viku eða fram til 1. maí. Það reyndist líka misskilningur en hins vegar er ekki selt áfengi á veitingahúsunum frá laugardegi til miðvikudags. Forsetinn er bindindismaður og hefur því sett ýmsar reglur til að stemma stigu við ótímabæru áfengisþambi. En snúum okkur aftur að Vesak 2007. Þetta er þríblessuð hátíð Búddatrúarmanna haldinn til minningar um fæðingu Búdda, uppljómun hans og ferð hans inn í nirvana. Kenningar Búdda leggja áherslu að enda þjáningar og óánægju. Okkar er að vinna að hamingju og friði. Hátíðin er haldin í dag og á morgun. Stræti og hús hafa verið skreytt með fánum, ljósum og skrautlegum lömpum. Ekkert í líkingu við þá ofgnótt skreytinga sem við leggjum í við hátíðleg tækifæri en fallegt. Meðfram götum eru standar þar sem fríum svaladrykkjum og mat er dreift. Í sjónvarpinu er ekki þverfótað fyrir Búddamunkum og beinum útsendingum frá miklum hópfundum þar sem fólk minnist Búdda og hugleiðir. Við höfum verið löt í dag eða ég alla vega en Helgi vinnur við að undirbúa námskeiðin. Við skulum segja að ég hafi hugleitt í tilefni dagsins.

Umbúðirnar voru teknar af litlu tánni á sunnudaginn og hún var vægast sagt skrautleg. Mjög köflótt og einhver sár ennþá að lokast. En í morgun ákvað táin að hafa hamskipti að hluta og undan köflótta skinninu birtist venjuleg bleik tá. Mikill léttir. En þangað til öll sár eru gróin, þá förum við varlega í labbitúra og erum ekkert að skíta okkur út.

Ég hef lítið sagt um Sri Lanka sem er eyja við suðvestur strönd Indlands. Stundum nefnd tár Indlands eða perla Indlandshafs. Hér er staðviðrasamt, nóg úrkoma og svipaður hiti allan ársins hring. Íbúar er um 19 milljónir. Stærstur hluti þeirra er af ættstofni sinhala eða 74%, tamílar eru um 18%, 8% landsmanna eru márar, malayar, og burghers. Burghers eru afkomendur hollenskra og portúgalskra innflytjanda sem réðu Sri Lanka frá 1505 til 1796, þegar Bretar lögðu landið undir sig. Tamílar hafa bæði flutt sjálfir yfir sundið og jafnframt sóttust Bretar mjög eftir þeim sem millistjórnendum og verkstjórum og fluttust töluvert af tamílum hingað á nýlendutíma þeirra. Meginframleiðsluvörur eru hrísgrjón, te, kókóshnetur, kókó og alls konar krydd. Jafnframt er Sri Lanka stór útflytjandi eðalsteina. Þegar landið fékk sjálfstæði 1948, fengu Sinhalar völdin sem stærsti þjóðarhlutinn. Málið Sinhalese varð ríkismál. Mál tamíla var ekki viðurkennt og þeir misstu mikið af þeim völdum sem þeir höfðu haft. Þessi breyting er að hluta til rótin af þeim óróa sem hefur verið á norður og austur Sri Lanka. Það er einungis hluti af tamílum sem eru félagar í LTTE eða Tamíltígrunum eins og þeir eru kallaðir í fréttum hjá okkur. Þessi hluti tamíla hefur barist fyrir sjálfstæði á norðurhluta Sri Lanka. Vopnahlé hefur í orði kveðnu verið í gildi í fimm ár en var rofið með árás tamíla á herflugvöll rétt utan við Colombo í mars s.l.
Nú líður að brottför til Malasíu en þangað verðum við komin upp úr hádegi 3. maí. Næst mun ég sennilega bæta inn fróðleiksmolum þaðan.