laugardagur, apríl 14, 2007

Ævintýrið byrjað...



Við erum komin til Sri Lanka. Loftslagið er heitt og rakt á okkar mælikvarða en sennilega nokkuð temprað miðað við löndin fyrir norðan okkur. Hitastigið liggur nokkurn veginn í kringum 30°C og rakastigið í kringum 70 til 80%. Við tökum því rólega meðan við erum að venjast loftslaginu. Satt best að segja tekur þotuþreytan líka sinni toll.
Að sjálfsögðu lentum við í veseni í London. Bretinn er búinn að setja nýjar reglur um transit farþega. Það má bara vera með eina tösku á mann, stærð skipti ekki máli! Við og flestir farþegar sem voru að fara þar í gegn voru stoppuð og fengum tvo valkosti. Annað hvort að troða annarri töskunni ofan í hina eða að fara út í gegnum vegabréfaeftirlitið og tékka okkur inn aftur. Okkur féllust hendur, en eftir smáumhugsun var fært til í stærri töskunum og hinum troðið í. Ekkert mál fyrir mig, því ég var bara með veski og flugtösku, en Helgi var með tölvutösku í viðbót við sína flugtösku. Eftir endurskipulagningu og mikla troðslu, fórum við aftur í transitið, þá þurftu flugtöskurnar að passa í einhverja grind sem okkur var bent á. Helgi beitti sínum alkunnu kröftum og tókst að troða töskunum í grindina, en ég er næstum því viss um að grindurnar gliðnuðu um nokkra sentimetra á kant. En inn komumst við og gátum skráð okkur í áframhaldandi flug til Colombo með Sri Lankan Airlines. Þetta var tæplega 11 tíma flug og frábær þjónusta á leiðinni. Að vísu kom það okkur á óvart að kvöldmatur var borin fram fljótlega eftir flugtak kl. 2 að íslenskum tíma og um kl. 4 áttu svo allir að fara að sofa, enda komið kvöld í Sri Lanka. Dregið var fyrir alla glugga, öll ljós slökkt og kyrrð var fljótlega komin á. Okkur tókst misjafnlega að sofa þrátt fyrir svefntöflur en dormuðum með hléum þar til morgunmatur var borin fram klukkustund fyrir lendingu.
Við vorum sótt á flugvöllinn af tveimur brosmildum heimamönnum og síðan tók við ævintýraleg ökuferð inn í borgina. Hér er mjög dularfull umferðarmenning. Þeir keyra vinstra megin eins og alls staðar á gömlum yfirráðasvæðum Breta en aðrar umferðareglur eru þverbrotnar. Hver treðst um annan þveran í gríðarlegri þvögu af bílum, strætisvögnum og tuktuk. Tuktuk eru þríhjóla yfirbyggðar vespur með sæti fyrir tvo mjóa aftur í. Hér berjast menn um hvert bil í umferðinni og það er ekki fyrr en ökutæki eru komin mjög nálægt hvert öðru sem annar hvor gefur sig. Oftast víkur sá minni, en stærri tækin víkja líka þegar ástandið er metið þannig að ekki borgi sig að troðast frekar. Flautum er óspart beitt til að frekjast eða vara við en ökumenn sjást ekki með hnefann á lofti (road rage). Flestir víkja með bros á vör. Bílferðin átti að taka um klukkustund en vegna morgunumferðar og gríðarlegrar rigningar (sumir tóku regnhlíf með sér) tók þetta tvær og hálfa klukkustund. En það var tekið á móti okkur með pompi og prakt í sendiráðinu og eftir smáhressingu voru við flutt í íbúðina okkar, þar sem við lögðum okkur í nokkrar klukkustundir. Um kvöldið vorum við sótt aftur í kvöldmat hjá íslenska sendiráðunautnum. Við fengum forsmekk af matseld heimamanna og það lofar góðu. Maturinn var frábær. Sumt sterkt en flest mjög milt, líkist helst indverskri matseld. En við fórum svo heim undir miðnætti eftir skemmtilegt kvöld og steinsváfum í 11 klst. Nú hvílum við okkur fyrir ævintýri næstu daga.

2 Comments:

Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Frábært að heyra að hlutirnir hafi gengið vel og að ykkur líði vel.
Góða skemmtun,
Þórdís og co.

3:40 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Frabaert ad thid seud komin a stadin. Eg oska ykkur godrar skemmtunar. Kv. Thorhildur i rigningu og roki i NY

3:56 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home