þriðjudagur, september 26, 2006

Viðburðaríkir dagar...




Haustið er komið. Í dag er kalt, rakt og lítið skyggni vegna þoku sem liggur niðri í firðinum. Einmitt dagur til að vera kyrr heima hjá sér með góða bók og tebolla af stærstu gerð. September hefur verið ljúfur. Gott og hlýtt veður til að fara í gönguferðir og bíltúra.
Kristín fór með litlu stubbana sína heim til Danmerkur 5. sept. og það hefur verið átak að venjast því aftur að vera einn á morgnana. Enginn sem segir “hæ amma” þegar ég kem fram á morgnana, engin lítil dama sem kúrir með mér í stóra stólnum að horfa á sjónvarpið á kvöldin. En við vorum heppin að fá 5 vikur saman og tókum þær með trukki. Eitt af því skemmtilegasta var að fara suður og hitta fjölskylduna. Að sjálfsögðu var Rebekku kippt með til að heimsækja langafa og Immu. Síðan hittum við svo stórfjölskylduna heima hjá Þórdísi systur og Sigga um kvöldið. Daginn eftir heimsóttu Birta og Helgi Margréti ömmu og Þorkel afa áður en brunað var norður. Við þökkum fyrir frábærar móttökur og hlýju í þessarri ferð. Næstu helgi á eftir fórum við í Gljúfurárréttir með Helgu vinkonu og fjölskyldu. Það er ár og dagur síðan við höfum fylgst með stóru fjársafni renna af fjalli í réttir. Það var rosalega gaman. Það er skemmtileg grein um réttirnar á http://www.dagur.net/ og eitthvað af myndum. Á mánudeginum var svo skotist í bíltúr út í Ólafsfjarðarmúla og tínt smávegis af aðalbláberjum til að fá sér út á skyrið um kvöldið. Birta var mjög hamingjusöm í berjatínslunni en Helgi litli stóð í miðju lynginu og háorgaði. Ekkert hægt að labba í móanum! Það verður ekki annað sagt en norðurlandið er krökkt af berjum. Krækiberin eru jafnstór og bláberin. Það er minna af venjulegum bláberjum en aðalbláber og aðalber eru í miklu magni. Við Helgi fórum seinna í mánuðinum fram í Skíðadal og tíndum 1½ kg af aðalbláberjum og 3 kg af krækiberjum. Það tók ekki nema ríflega klukkutíma. Rifsberjarunnarnir okkar voru líka næstum því útafliggjandi af berjum. Við tíndum 4 kg af þeim og það sá ekki högg á vatni. Við erum búin að búa til rifsberjahlaup, aðalbláberjasultu, krækiberjasaft og smáslatti af frystum berjum. Þetta nægir okkur til vetrarins. Þessa dagana erum við aðallega að smakka á sláturafurðum haustsins. Það verður að segjast eins og er að lambasteikurnar eru mjög gómsætar. Ekki skaðar að um hverja helgi er ferskt kjöt á tilboði. Á sunnudaginn var svo uppáhaldsbíltúrinn tekinn. Keyrt gamla veginn yfir Vaðlaheiðina. Útsýnið var stórkostlegt, haustlitirnir að ná yfirhöndinni og fjöllin byrjuð að hvítna í toppinn. Það er eins og skaparinn hafi sótt stóra sigtið og dreift flórsykri á fjallatoppana. Við þökkum Kristínu okkar, Birtu og Helga litla fyrir frábæra heimsókn, ættingjum okkar aftur fyrir frábærar móttökur og Helgu vinkonu og fjölskyldunni hennar fyrir alúð og hlýju á skemmtilegum réttardegi. Í dag ætla ég elda ítalskt rísottó. Einstaklega gott með grilluðum eða langsteiktum mat. Getur líka staðið eitt og sér með góðu salati.

Blogguppskriftin

Ítalskt rísottó

3 msk af olíu
1 laukur fínt saxaður
250g grautarhrísgrjón (Arborio hrísgrjón)
1 líter af góðu kjúklingasoði
Rifinn parmesan eftir smekk
Smáklípa af smjöri
Ferskar kryddjurtir eftir smekk

Olían hituð í potti og laukurinn mallaður þar til hann er mjúkur. Hrísgrjónum bætt í pottinn og leyft að malla í uþb 2 mín. Tæpum bolla af kjúklingasoðinu bætt í pottinn. Hrært nokkuð stöðugt í þar til er soðið saman við hrísgrjónin. Öðrum bolla af kjúklíngasoði bætt við og hrært í. Endurtekið þar til búið er að nota allt soðið og rísottið er þykkt. Bætið við 2 – 4 msk af parmesan, klípu af smjöri og 1 – 2 msk af ferskum kryddjurtum t.d. steinselju, basilíku eða tarragoni. Yfirleitt þarf ekki að salta því bæði kjúklingasoðið og osturinn er saltað en smakkið til og bætið við eftir þörfum. Þetta er grunnuppskrift og hægt að bæta í hana alls konar grænmeti. Sveppum, papriku og öðru grænmeti sem þarf að sjóða er bætt í með lauknum. Spínat, aspas og annað grænmeti sem þarf litla sem enga suðu er bætt í síðast. Ristuðum fræjum eða hnetum má líka bæta við í lokin. Allt eftir löngum og smekk. Dugar sem meðlæti fyrir þrjá til fjóra.