miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Góðar minningar...


Við minntust 75 ára afmælis mömmu í gær. Ég segi eins og Þórdís systir mín, ég er ekki viss um að mamma hefði kært sig um að verða svo gömul né að heilsan hefði verið til fyrirmyndar. Móðir mín gerði allt með tilþrifum og á sínum forsendum. Hún var sátt við líf sitt og átti mikið af góðum vinum og kunningjum. Eins og mér fannst mamma vera mér erfið sem barni, þá var hún einstök “táningamamma”. Henni fannst við systkinin vera mjög skemmtileg á unglingsárunum og eyddi verulegum tíma í að spjalla við okkur um heima og geima. Ekkert mannlegt væri okkur óviðkomandi svo sem listir, pólitík, alls konar menning og andleg málefni. Hún á stóran þátt í því að kenna okkur að vera víðsýn og óhlutdræg. Hvort það tekst alltaf er óvíst, en við reynum okkar besta. Ég held að það sé það sem ég sakni mest eru löngu samtölin þar sem veröldin var krufin til mergjar við eldhúsborðið yfir rjúkandi kaffibollum.

Í innkaupunum á laugardaginn voru keyptar kjúklingabringur í Bónus með 40% afslætti. Mér varð hugsað til óteljandi ferða okkar mæðgnanna í Bónus á laugardögum. Ég lærði það fljótt að til að týna mömmu ekki í búðarferðum, þá þyrfti ég að vera með körfuna fyrir okkur. Ef ekki þá þurftum við Þórdís að leita út um allt að henni þegar okkur þótti mál að komast heim í kaffið. Okkur fannst tilvalið að nota bringurnar í afmælismatinn og ekki skemmdi fyrir að ég hafði bakað amerískt eplapæ á mánudaginn. Eftir stutta heimsókn í Hagkaup var bætt við bláberjum og vanilluís á 99 kr hvort. Ég gróf upp kjúklingabókina hans feita og fann þar uppskrift að kjúklingabringum í sinnepssósu. Þegar ég kom heim vildi svo merkilega til að Ingjaldur vinur okkar var mættur á svæðið, en hann og mamma voru miklir vinir. Hann lenti því í afmælisveislu sér til óvæntrar ánægju. Maturinn heppnaðist frábærlega. Við skemmtum okkur hið besta, skáluðum fyrir mömmu og töluðum mikið þar til Ingjaldur þurfti að mæta í flugið um átta leytið.

Blogguppskriftin

Kjúklingabringur í sinnepssósu

4 kjúklingabringur
2 msk hveiti
4 msk smjör
2 msk olía
Dijon eða jurtakryddað sinnep
1 meðalstór laukur fínsaxaður
½ - 1 bolli sveppir fínt saxaðir
2 msk söxuð steinselja
Salt, pipar
1 bolli rjómi
1 msk sítrónusafi

Bringurnar eru dustaðar með hveitinu og brúnaðar vel á pönnu. Þær eru síðan fluttar yfir á eldfast fat og smurðar að utan með sinnepi og ekki nískast með það. Laukurinn og sveppirnir eru mallaðir í afganginum af fitunni og leyft að brúnast. Steinselju, salt og pipar bætt í maukið og rjómanum blandað við. Leyft að sjóða vel upp og þykkna aðeins. Þessu er svo hellt yfir bringurnar og sett inn í ofn við175°C í 30 – 35 mín. Þegar bringurnar eru tilbúnar þá eru þær settar á diska. Sósunni er hellt í pott, sítrónusafanum hrært saman við og hitað að suðu. Borið fram með góðum hrísgrjónum. Dugar fyrir 4.

laugardagur, febrúar 10, 2007

Það birtir...


Fimbulkuldi, stillur og glampandi sól einkenna veðrið þessa dagana. Jörð er fannhvít, bleikir ljósgeislar leika um fjallatinda og tími kominn til að draga fram sólgleraugu til að sjá hvert leiðinni er heitið. Sólin er einmitt nógu hátt á lofti til að lyfta sér yfir fjöllin en um leið nógu lág til að blinda bílstjóra á leið í suður eða vestur. Á svona dögum er freistandi að rölta stuttan spöl og koma svo heim og fá sér heitt kakó með rjóma. Við höfum mestmegnis verið löt og leyft okkur að sitja heima til að horfa á úrval efnis af flakkaranum okkar. Ég hef mætur á góðum glæpaþáttum, helst breskum en Helgi horfir á alls konar matreiðsluþætti. Merkilegt nokk er það svo ég sem er aðallega í tilraunaeldamennskunni. Jón Gestur gaf mér feikna góða kokkabók í jólagjöf sem heitir: “Gordon Ramsey makes it easy”. Gordon Ramsey er enn einn breskur sjónvarpskokkurinn sem hefur stjórnað mjög vinsælum þáttum bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann hefur m.a. verið með raunveruleikaþætti, Hell’s Kitchen, þar sem ungir kokkar heyja útsláttarkeppni um að eignast veitingahús. Gordon er fyrrverandi knattspyrnumaður af skosku bergi brotin og dregur dám af því í munnsöfnuði og stjórnun. Hann er afbragðs kokkur og á nokkra frábæra veitingastaði hér og þar um heiminn sem eru taldir bera af m.a. eru einhverjir þeirra með Michelin stjörnur. Nú síðast opnaði hann nýjan stað í Tokyo.

Í dag er yngsta systurbarnið mitt, hún Hulda Ólafía, fjögurra ára og við sendum henni afmæliskveðjur. Hún fær ábyggilega að blása á kertin á svo sem eins og einni Dimmalimm í dag. Hún er frábær lítil dama sem vekur ánægju og gleði í kringum sig. Ég set inn mynd sem við tókum af henni og Birtu í sumarheimsókninni okkar.

Fyrst að frostið ræður ríkjum í dag er fátt betra en að elda sér góða súpu. Þar sem við erum í viðvarandi heilbrigðisátaki, þá er tilvalið að taka daga þar sem grænmetið ræður ríkjum. Við mælum eindregið með þessari. Hún er vinsæl köld á sumrin og gengur þá undir nafninu: “vichyssoise”.

Blogguppskriftin

Blaðlauks- og kartöflusúpa

900 g blaðlaukur (púrrur)
50 g smjör
450 g kartöflur, afhýddar og skornar í litla teninga
1 sellerí stilkur saxaður smátt
6 dl kjúklinga- eða grænmetissoð (smekksatriði)
6 dl mjólk
Salt, pipar og múskat
2-3 dl rjómi
3 msk saxaður graslaukur eða vorlaukur

Takið grófasta partinn af græna hluta blaðlauksins af, skerið langsum upp úr lauknum, skolið hann síðan vel. Það er oft mold og sandur í lausvafða enda lauksins og mikilvægt að ná því vel í burtu. Skerið hvíta hluta lauksins ásamt ca 5 cm af græna hlutanum í þunnar sneiðar. Bræðið smjörið í stórum potti við meðalhita. Kartöflum og blaðlauk bætt út í og látið malla í 7 mín. Hrærið stöðugt í á meðan. Bætið sellerí, soði og mjólk út í, hleypið suðunni upp. Minnkið þá hitann, þannig að súpan rétt malli. Bætið salti, pipar og múskati í eftir smekk og látið súpuna malla í 25 mín. Ef súpan er borin fram heit er hún sett í matarvinnsluvél eða töfrasprotinn látinn mauka hana, síðan er rjómanum bætt í og hún hituð að suðu. Borin fram strax með góðu brauði og salati. Ef hún á að berast fram köld, þá er hún maukuð, rjóma bætt í og hún láta kælast niður í ísskáp. Ef graslaukur er notaður, þá er honum stráð yfir rétt fyrir framreiðslu, en ef vorlaukur er notaður þá er honum bætt í með rjómanum. Ég nota yfirleitt léttmjólk og kaffirjóma (12%) í súpuna en ef hún á að vera sparisúpa, þá er notum við mjólkurvörur með fullum styrkleika! Ótrúlegt en satt þá fellur þessi uppskrift undir gourmethluta matarbókmenntanna. Uppskriftin dugar fyrir 4-6.