sunnudagur, mars 19, 2006

Íslandsheimsókn...


Nú líður að heimsókn til Íslands. Við erum byrjuð að tína saman það sem á vera meðferðis, taka til farseðlana okkar og búin að þrífa húsið. Við bæði hlökkum til og kvíðum heimferðinni. Hlökkum til að hitta ykkur öll en kvíðum því að veðrið muni ekki leika eins við okkur og hér á Spáni. Hér eru allar auglýsingar fullar af vorstemmningu. Ofurmarkaðir (hipermercados) fullir af útihúsgögnum, grillum og viðleguútbúnaði. La primavera esta aquí eða vorið er komið eins og sagt er á spænsku. Vortískan í algleymingi. Ég skellti mér C & A og verslaði mér spariföt svo ég yrði ekki systrum mínum, frænkum og öðru venslafólki mínu til skammar. Það er mjög gaman að versla þar. Þeir selja föt sem eru bara reglulega flott handa stórum stelpum eins og mér. Ég fæ hvorki á tilfinninguna að ég sé eins og rúllupylsa né eins og lítið fjall. Tilfinning sem gerir iðulega vart við sig í öðrum búðum þegar verið er að prófa stærstu númerin og þau passa ekki eða eru eins og illa sniðin tjöld. Hér eru til föt fyrir miklu stærri og feitari kellingar en mig.
Ég ætla að leyfa ykkur að njóta þess að læra að búa til spænska tortilla (kartöfluomelettu) í dag. Þetta er geysilega vinsæll matur hér bæði sem tapa og sem fullbúin máltíð. Tortilla er hægt að kaupa tilbúna í öllum búðum. Það er bæði hægt að borða hana kalda og heita. Það má nota hana sem meðlæti. Notið hugmyndaflugið!

Blogguppskriftin

Tortilla Española

6 msk olífuolía
1 kg kartöflur skrældar og skornar í þunnar sneiðar
2 msk saxaður laukur
6 egg
1 tsk salt.

Olían hituð í djúpri pönnu, kartöflum bætt út í og velt vel upp úr olíunni. Látið þær malla hægt án þess að brúnast, hrærið oft í. Eftir 10 til 15 mín er lauknum bætt í. Látið malla áfram þar til kartöflurnar eru soðnar uþb 20 til 30 mín samtals. Eggin er þeytt vel með saltinu í stórri skál. Setjið disk yfir kartöflurnar og hellið afgangs olíu í hitaþolna skál. Kartöflunum er hellt út í eggjahræruna og blandað vel við. Smávegis af olíunni er sett á pönnuna og hrærunni hellt í. Látið malla við meðalhita án þess að tortillan brúnist mikið á botninum eða uþb 5 mín. Pannan er hrist öðru hverju til að ekkert festist við. Leggið lok eða disk ofan á og snúið pönnunni snöggt á hvolf. Smáolíu úr skálinni bætt á tóma pönnuna og tortillunni rennt af disknum yfir á hana aftur. Mallað á þeirri hlið uþb 3 mín í viðbót. Rennið henni yfir á disk, berið fram með góðu salati og brauði. Dugar fyrir fjóra sem aðalréttur en verður að 15-20 stk. í tapa þá skorið í litla ferninga. Það getur verið gott að vera með meiri lauk, jafnvel að nota eggaldin í stað hluta af kartöflunum. Ýmis grænt krydd eða spínat getur líka verið gott saman við tortilluna

föstudagur, mars 17, 2006

Hamingjuóskir til....


...tengdamömmu, Kristínar Helgadóttur eldri "sko ekki dóttir hans", sem er níræð í dag og Valgerðar "litlu frænku", sem er fjórtán ára í dag. Miklar heiðurskonur báðar tvær. Við sendum bestu kveðjur og hlökkum til að sjá ykkur í næstu viku.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Sól, sól skín á mig...


Þegar ég vaknaði í fyrradag var gigtargemlingurinn mættur og verulega úrillur að þessu sinni. Eftir hafa hnoðast á mér og hoppað jafnfætis á mér megnið af deginum var hann orðinn þreyttur og dró sig í hlé aldrei þessu vant. Skildi mig eftir alveg marflata. Venjulega ólátast hann í 2-3 daga. Í dag sá ég aftur til sólar. Heldur betur fegin að heimsóknin væri svona stutt.
Vissuð þið að það eru til sérstök svín hér á Spáni? Nú orðið eru þau hvergi til nema hér á Iberíuskaganum enda eru þau kölluð Iberíusvín. Þau ganga laus og lifa helst ekki á neinu öðru en eikarakörnum. Ef það tekst er kjötið af þeim kallað Ibericó bellota og er eitt það dýrasta og fínasta sem hægt er að kaupa hér til matar. Svínin eru svört að lit og með svartar klaufir og því gjarnan kölluð “pata negra” eða svartar lappir. Þetta er til aðgreiningar frá venjulegum svínum sem geta verið svört en eru ekki með svartar klaufir. Kjötið af þeim er dökkt og mjög fitusprengt, afbragðsgott á bragðið og ekkert líkt venjulegu svínakjöti.
En það er ekki hægt að vera hér á strönd Miðjarðarhafsins og tala ekki um fisk. Hér eru óteljandi tegundir af fiski, skelfiski, krabbadýrum og öðrum ókennilegum kvikindum eins og mismunandi sortum af smokkfiski og kolkrabba. Við höfum ekki verið mjög dugleg að smakka þetta. Við höfum þó eldað paellu, múslinga, stóran humar, makríl, lýsing (Merluza með hvítum ormum) og lax. Við höfum ekki ennþá lagt í að kaupa okkur álaseiði en þau líta út eins langir ormar og hvítir í þokkabót! Uppáhaldið okkur er risarækja sem við kaupum hálft kg af í einu, kostar um 5 evrur. og þykir dýrt. Og í dag látum við fylgja eina af uppáhaldsuppskriftum okkar. Gambas al ajillo eða gambas pil pil eða bara hvítlauksrækjur. Galdurinn hér er að ofhita ekki olíuna og ofelda ekki rækjurnar.

Blogguppskriftin

Gambas al ajillo

40 mjög ferskar, hráar risarækjur (heima fást þær frystar)
8 msk olía
4 hvítlauksrif, skræld og skorin þvert í næfurþunnar sneiðar
4 sneiðar af þurrkuðum chili eða ca ½ ferskur (í versta falli nýmalaður pipar)
2 msk vatn
Klípa af papriku
Klípa af salti

Skolið rækjurnar og þurrkið léttilega með pappír. Hitið olíuna vel en ekki þannig að það rjúki af henni. Setjið hvítlaukinn og chili út í og mallið í 30 sek eða þar til að laukurinn fer að taka smálit. Setjið rækjurnar út í og reynið að raða þeim þannig að það sé bara einfalt lag af þeim. Hrærið í þar til rækjurnar verða bleikar eða ca 30 til 40 sek. Takið pönnuna af hitanum, hrærið vatninu út í, dreifið salti og papriku yfir. Borið strax fram, þannig að rétturinn sé ennþá snarkandi á matarborðinu. Borðað með góðu brauði til að veiða upp hvítlauksolíuna. Kalt hvítvín eða kalt þurrt sherry drukkið með. Dugar fyrir 4 sem tapa eða forréttur.

mánudagur, mars 13, 2006

Fálmað eftir spottum...


Jæja kæru ættingjar og vinir. Nú er víst búið að sleppa okkur í loftið. Kristín tók af okkur ómakið með því að auglýsa þetta á síðunni sinni. Við höfum verið að fikta okkur áfram með óstyrkum fingrum og ekki fundist þetta nógu gott. En við látum gossa. Í krækjunum okkar er síða Sigga Hall þeirra spánverja. Hann heitir José Andrés og er með kokkaþátt á öllum virkum dögum. Hann notar ógrynnin öll af ólífuolíu og hvítlauk, en er mjög skemmtilegur ef öllum málæðinu hans er sleppt. Þátturinn heitir "Vamos a cocinar con José Andrés" eða Komum að elda með Jóa Andrésar.
Annars hefur síðasta vika verið í volgara lagi, svo heitt að við erum að hugsa um að skipta út vetrarsængum (2 cm á þykkt) fyrir sumarsængur (1 cm á þykkt). Helgi er orðinn mjög brúnn í framan og á handleggjum. Ég held að ég hafi aldrei séð hann almennilega sólbrúnan fyrr. Ég er bara svona eins og venjulega, vinnukonubrún.
Við fengum létt taugaáfall í gær. Við höfum verið að berjast við pop up glugga með klámfengnum kvendum undanfarnar vikur. Ég lenti inn á þessum ósóma þegar ég var að skoða ýmsa ferðalinka eitt kvöldið. Daginn eftir var komið ikon á síðuna okkar og eftir heiðarlega tilraun til að eyða því byrjuðu pjásurnar að birtast. Einnig fóru ýmis önnur skrýtin tilvik að angra okkur. Um helgina gekk síðan illa að komast inn í tölvuna og eftir einhverjar lagfæringar Jóns og Helga kom í ljós að kominn var Trójuhestur í tölvuna og í honum voru faldar skipanir um að hringja í hin og þessi símanúmer á sóðaslóðum og eingöngu "high cost" númer. Það var erfitt að bíða þangað til í dag og fá upplýsingar frá símafyrirtækinu að fyrirætlun tölvuþrjóta hafði ekki heppnast varðandi óumbeðnar símhringingar. Við losnum samt alls ekki við pjásurnar. Þær vinkonurnar spretta upp á skjáinn í hvert skipti sem við förum inn á moggann.

Við ætlum að enda þennan pistil á því að óska mági okkar og svila, Stefáni, innilega til hamingju með afmælið í dag og vonum að Helga Kristín kyssi hann vel og vendilega í tilefni dagsins og gefi honum eitthvað gott að borða.

Blogguppskriftin

Heilsteiktur vormakríll með súrum vínberjum og saffron salsa.
4 feitir makrílar verða að vera glænýir (líka gott með silungi eða lax)
Salt
4 msk maímjöl eða hveiti, blandið alla vega pipar í.
Svínafeiti eða olífuolía til steikingar

Salsa:
1 mildur laukur (t.d. hvítur salatlaukur alls ekki venjulegur matarlaukur) fíntsaxaður
2 hvítlauksrif skræld og söxuð
1 rauð paprika fræhreinsuð og söxuð
3 msk vínedik eða annað milt edik og smásalt (enn betra hvítt balsamedik)
½ tsk saffranþræðir
6 msk góð olífuolía
1 msk græn óþroskuð súr vínber eða handfylli af sætum skornum í tvennt eða fernt.

Búið fyrst til salsa. Blandið lauk, hvítlauk og papriku saman við edikið og smásalt og leyfið þessu að marinerast meðan fiskurinn er steiktur. Ristið saffranið örstutt á pönnu þar til það dökknar, ekki brenna það. Myljið það niður og bætið í salsað. Blandið olífuolíunni og vínberjunum við. Sætum eða súrum hvort heldur er til.
Hreinsið makrílinn, látið hann vera aðeins rakan, það er allt í lagi að skera nokkrar línur í hliðarnar á fiskinu al a Jamie Oliver, saltið utan og innan og veltið síðan fiskinum vel upp úr maísmjöli eða hveiti. Hitið olíu/feiti á pönnu og steikið fiskinn við meðalhita, snúið honum einu sinni, 4-6 mín á hlið eftir stærð fisksins. Þar til holdið er stinnt! Berið fram með salsanu og njótið.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Nú hitnar í kolunum....

Nú er farið að hitna verulega. Í dag var 23° hiti og sól skein í heiði. Upp úr hádegi var vaskasta liðið komið í sólbað eða var úti að ganga mjög fáklætt. Hundar lágu afvelta af hita. Hvernig verður þetta eiginlega þegar kemur fram í apríl og hitinn fer yfir 30°? Við fórum í göngutúrana okkar í morgun. Helgi í tvo tíma og ég í rúman hálftíma. Síðan var farið í vikulegan innkaupatúr og matur keyptur til næstu daga. Eftir hádegismat þá var flúið í hús og lagst í siestu og þá er lesið. Hér kosta vasabækur ekki nema fjórðung af því sem þær kosta heima, svo hér er búið að lesa marga krimma með mikilli ánægju. Svo ekki sé minnst á spánskar matreiðslubækur. Þær eru líka lesnar með mikilli ánægju og við erum í stöðugum tilraunum. Við eldum þó aftur og aftur Pollo en chilinendrón eða kjúkling í paprikusósu og erum algjörlega fallin fyrir þeirri uppskrift. Þetta er frumraun mín í bloggheimum og ég veit ekki alveg hvernig mér gengur að koma þessu saman en við sjáum til.

Blogguppskriftin

Pollo chiliendrón
1 lítill (1- 1 ½ kg) kjúklingur hlutaður í bita eða vænn pakki af kjúklingalærum og leggjum.
6 msk olífuolía

2 msk af hráskinku eða beikoni í smáum bitum
1 laukur skorinn í þunnar sneiðar
3-4 hvítlauksrif, skræld og skorin í þunnar sneiðar
3 vænar rauðar paprikur, kornhreinsaðar og skornar í mjóar lengjur.

3 stórir tómatar rifnir á rifjárni eða 1 dós af niðursoðnum tómötum (450 g).
1-2 lárviðarlauf
2-3 negulnaglar
Lítil kanelstöng eða hálf venjuleg
2-3 þurrkuð smáchili, kornin fjarlægð og þau mulin (má sleppa chilinu og nota pipar)

Þurrkið kjúklingabitana vel. Hitið olíuna á vænni pönnu og brúnið þá léttilega í ca 5 mín. Teknir upp og settir til hliðar. Setjið skinku, lauk, hvítlauk og papriku á pönnuna og steikið við meðalhita í ca 10 mín eða þar til grænmetið hefur brúnast (karmeliserast) svolítið. Bætið tómötum, lárviðarlaufi, negul, kanel og chili við, bætið kjúklingabitunum út í og saltið svolítið, ekki of mikið. Sjóðið við vægan hita þangað til sósan verður lík sultu, svona 50 – 60 mín. alls. Fylgist vel með síðustu 10 mín. Borið fram með fullt af góðu brauði til ná allri sósunni!!!

Við prófuðum þessa uppskrift í hálfgerðu bríaríi og kolféllum fyrir henni. Við notuðum lítil græn fersk chili og það var mjög gott. Þau eru ekki sterkari en svo en það er í lagi að smakka á þeim. Það sveið bara í örstutta stund. Ef menn vilja nota þetta sem tapas þá er kjúklingurinn hlutaður í fleiri hluta. Hver bringa í amk 6 bita, læri og leggir höggvin í tvennt með stórum hníf sem slegið er á með t.d. kjöthamri. Það er spánska aðferðin skv. bókinni.

Verði ykkur að góðu.