fimmtudagur, júní 29, 2006

Sólardagar...


Hér á norðurlandi er líka letilíf eins og í Kópavoginum. Ég flatmaga á þakinu, les og hugsa um hvernig ég geti komist af með að gera sem allra minnst. Í dag er sólskin, 20 stiga hiti og mild sunnangola en gott skjól af stóru reynitrjánum okkar. Einu hljóðin sem heyrast eru drunur í sláttuvélum og garðáhöldum ýmis konar og á klukkustundarfresti heyrist í kirkjuklukkunum. Fuglarnir er jafnlatir og mannfólkið í dag. Ekkert tíst og enginn söngur. Það fer líka að líða að þeim tíma sem grilllyktin leggst yfir allt. Ég hef verið löt að skrifa hér inn. Ég verð að byrja á því að óska litlu, stóru skrúfunni minni henni Birtu til hamingju með 7 ára afmælið 16. júní s.l. Svo óskum við Sigga tengdasyni til lukku og góðs gengis með vinnuna hjá Centropa. Lars von Trier er greinilega ekki búinn að fá nóg af Íslendingum. Að síðustu og ekki síst óskum við Þórhildi til hamingju með afmælið í dag og vonum að systurnar skemmti sér vel á Mallorca í dag. Það er ekki nógu heitt í dag til að búa til Gazpacho (köld tómatsúpa) en í staðinn kemur svöl uppskrift.

Blogguppskriftin

Kjúklingasalat frá Hawai

1 grillaður kjúklingur
1 lítil dós af ananas í bitum eða 1 ferskur ananas skorinn í bita.
1 græn paprika fræhreinsuð og skorin í netta bita
40 gr ristaðar möndlur heilar eða klofnar að endilöngu.
½ bolli majónes (létt)
¼ bolli sýrður rjómi (fitulítill)
1-2 tsk gott sinnep
Gott salat, iceberg eða höfuðsalat
Skreyting: Tómatar og agúrkur

Kjötið rifið af kjúklingnum og skerið í bita. Majónes, sýrður rjómi og sinnep hrært saman með smávegis af ananassafanum (eftir smekk). Kjötinu, ananas, papriku og ríflega helmingnum af möndlunum blandað saman við sósuna. Slatti af grænu salati lagt á fat sem undirlag. Kjúklingasalatinu hellt ofan á þau. Tómatbátum og agúrkusneiðum raðað í kring og að síðustu er restinn af möndlunum dreift yfir. Borið fram með góðu baguette brauði eða ristuðu brauði. Dugar fyrir fjóra.

miðvikudagur, júní 14, 2006

Algjör sveppur...


Komið þið öll heil og sæl ættingjar mínir og vinir. Það eru þrjár vikur frá síðustu innfærslu. Húsfreyjunni á heimilinu hefur tekist að vera hundlasin af sveppasýkingu með verkjum og sálin því ekki upp á marga fiska. Tala nú ekki um þegar þarf að fara láta lækninn inspektera viðkvæma staði. En læknisheimsóknin borgaði sig. Rétt lyf voru tekin í notkun og núna loksins er heilsan að koma tilbaka og orkan með. Um leið er vorið að koma aftur hér á norðurlandinu eftir óvenju kaldan og snjóþungan maí. Um helgina komst hitinn yfir 20°C en hrökk síðan niður í 10°C á mánudeginum. Gróðurinn hefur sloppið fyrir horn og sprettur nú á yfirhraða. Kominn tími á slátt nr. 2 hér á túninu. Rabarbarinn er að ná hálfsmeters hæð og smakkast ágætlega í hinum ýmsu desertum. Annars hefur tímanum verið eytt við að fylgjast með Eurovision, kosningum og nú síðast en ekki síst heimsmeistarakeppninni í fótbolta. Það var töluverður vafi á því hvort ég ætlaði að halda með ítölum, frökkum, spánverjum eða Brasilíumönnum. Eftir leikinn í dag er ég harðákveðin. Spánverjar eru mitt lið, möluðu Úkraínu með glæsibrag. Ekkert boltaþóf á þeim bæ. Svo eru þetta líka flottir strákir með æðislega sexý læri og afturenda. Alveg þess virði að horfa á einn fótboltaleik til að dást að þeim. Við skulum leyfa vorinu að seytla inn í uppskriftirnar okkar. Hér kemur einn rababaradesert.

Blogguppskriftin

Rabarbara- “crisp”

4 bollar af rabarbara skorin í litla bita
½ tsk salt
1 1/3 – 2 bollar sykur (fer eftir því hversu súr rabbinn er)
¾ bollar hveiti
1 tsk kanell
1/3 bolli smjör eða smjörlíki

Hitið ofninn í 175°C. Setjið rabarbarabitana í ósmurt gler- eða leirfat og dreifið salti yfir. Setjið sykur, hveiti og kanel í skál, myljið smjörið saman við (mjög þægilegt að gera þetta í matarvinnsluvél) og dreifið í jöfnu lagi yfir rabarbarann. Bakað í ofni 40 til 50 mín eða þangað til deigið er gullinbrúnt að ofan. Borið fram heitt með léttþeyttum rjóma eða góðum vanilluís. Dugar fyrir 6 manns.