miðvikudagur, apríl 25, 2007

Ævintýrið um litlu tána...


Dagurinn í dag byrjaði ekki vel. Í morgun drifum við okkur út á Apollo sjúkrahúsið til að láta kíkja á litlu tána á vinstri fætinum á mér. Á laugardaginn byrjaði hún að roðna. Mig klæjaði og sveið. Ég var alveg viss um að eitthvað hefði bitið í tána á mér. Á sunnudag birtust blöðrur og óþægindin jukust talsvert. En ég beit á jaxlinn og bölvaði í hljóði. Í gærkvöldi var táin orðin rauðblá og bólgin og greinilega eitthvað á seyði. Ég fór á netið og þar komst ég að því að það væri komin ígerð í tána, hugsanlega heimakoma. Þar var ráðlagt að leita strax læknis því hætta væri á blóðeitrun. Í morgun vakti Helgi mig síðan eldsnemma, rak mig á fætur og gaf mér morgunmat. Síðan var haltrað út og náð í tuktuk. Á sjúkrahúsinu var tekið vel á móti okkur, táin skoðuð í bak og fyrir, hreinsuð með frekar óþyrmilegum aðferðum og settar umbúðir utan um allt saman. Ekki heimakoma en ígerð í gangi. Læknirinn skrifaði út lyfseðil á fúkkalyf og fullyrti að þau væru í lagi fyrir konu með ofnæmi fyrir pensilíni. Síðan var mér skipað að koma eftir tvo daga til að láta skipta um stóra plásturinn og þeir vilja tékka á því að allt sé í lagi. Sem sé stóralvarlegt mál.

Síðan var aftur náð í tuktuk og nú vildi Helgi fara á ferðaskrifstofu og kaupa farseðlana okkar til Malasíu. Það gekk allt vel nema ég var eitthvað slæpt. Þegar heim kom tók ég fyrstu pilluna og sofnaði síðan. Seinni partinn fórum við að skoða á netinu hvaða lyf ég hefði fengið og þar stóð stórum stöfum að ekki ætti að gefa þetta lyf fólki með ofnæmi fyrir pensilíni. Það viðurkennist að okkur brá verulega og nú var bara beðið eftir ofnæmisviðbrögðum. Lost eða fílamaðurinn í aksjón!

Eftir nokkra dúra og létt stressköst brá okkur í brún, því í staðinn fyrir að ég dytti niður í losti, þá fékk náttúran raflost. Himinninn dökknaði og allt í einu sáust gríðarlegar eldingar og þrumur sem hljómuðu eins og æsilegustu sprengingar á gamlárskvöld. Þetta var æsilegra en þrumuveður sem við urðum vitni að úti í Kanada. Rigningin sem fylgdi í kjölfarið var líka engu lík. Himnarnir opnuðust og vatnið flæddi niður. Helgi var farinn að hafa áhyggjur af því að við fengjum engan kvöldmat því veðurhamurinn virtist óstöðvandi. En allt tekur enda og eftir rúman klukkutíma heyrðum við að umferðin var komin í gang aftur.

Upp úr kl 7 kvað frúin upp með það að henni væri nógu batnað til að fara í kvöldmat. Við trítluðum eftir regnvotum gangstéttum út í Pizza hut. Þar inni var jafnkalt og síðast þegar við heimsóttum þá. Helgi pantaði sér tilboð mánaðarins og fékk skafmiða í kaupbæti. Mér var réttur miðinn til sköfunar og viti menn. Það var vinningur á miðanum. Við urðum svolítið skrýtin í framan og trúðum eiginlega ekki eigin augum. Við borðuðum matinn okkar eins og ekkert hefði í skorist. Þjónninn kom til að spyrja hvort við hefðum unnið eitthvað á skafmiðann. Helgi varð dularfullur á svip og spurði nokkurra óbeinna spurninga um hvað mundi gerast ef við hefðum fengið vinning. Ég gat ekki stillt mig og sagði: “Sýndu þeim miðann”. Þjóninum brá í brún og hljóp af stað með miðann. Allt í einu voru fjórir gæjar í kringum okkur brosandi út að eyrum. Orðið “luck” heyrðist hér og þar í orðræðunni og eftir svolítið írafár og læti var okkur tilkynnt að við hefðum unnið tveggja daga ferð fyrir einn til Kandy. Eftir að skiptast á miðum og símanúmerum og óteljandi brosum, þá borguðum við reikninginn enn með bros á vör. Helgi er viss um að einhverjir meinbugir verði á innheimtu vinningsins, en ég segi nú bara: “Það gerir sko ekkert til. Við erum alla vega búin að innheimta spennu augnabliksins”. Og hvað haldið þið, firmamerki fyrirtækisins sem skaffar vinninginn er fimm tær (www.chaayahotels.com) !!!

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er nokkuð fyndið. Hvar er Kandy?

3:40 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Bara fyndið! Ferlega sniðugt markaðstrick hjá Hótelinu,,að gefa holiday fyrir einn!! Ekki eru margir sem vildu eyða fríinu sínu einir á 5 stjörnu hóteli!
Láttu þér batna í litlu táni!

4:32 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sniðugt! En hvernig gengur með pensillínið?

Stórskemmtilegir pistlar hjá þér og gaman að fá svona lýsingar á exótískum stöðum.

Með ósk um góðan bata!

8:09 e.h.  
Blogger Auður Eir Guðmundsdóttir said...

Táin er að lagast. Búin að fá nýjar umbúðir. Fúkkalyfin virðast ætla að vera í lagi. En Kandy er gamalt konungsríki og borg inn á miðri Sri Lanka. Bretar komust ekki til að leggja hana undir sig fyrr en í lok 19. aldar. Talin með fallegustu og óspilltustu stöðum á hér.

5:48 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home