þriðjudagur, desember 25, 2007

Jólin, jólin alls staðar...


Við sendum öllum ættingjum og vinum okkar bestu jólakveðjur og óskir um farsælt komandi ár. Helga systir fær sérstakar afmæliskveðjur en afmælið hennar er í dag.

Hér norðan heiða liggur falleg hvít kápa yfir jörð og allt er mjög hátíðlegt. Allar matarkistur eru svo fullar að út úr flóir og við að sjálfsögðu búin að missa matarlystina. En aðfangadagskvöld var frábært með steiktum öndum (Andrés og Andrésína önd) og jólaís. Jón Gestur, Gerður og Daði komu til okkar og við nutum alls þess sem fram var borið. Við verðum að viðurkenna að þreytan náði okkur með hurðinni þegar leið á kvöldið því um miðnættið var hver komin til síns heima. Það var sofið fram yfir hádegi í dag og síðan hringt í alla ættingja sem til náðist með góðu móti. Pabbi minn tók við þessi jólin í sjúkrahúslegum fjölskyldunnar en hann var lagður inn með slæma sýkingu. Við óskum honum góðs bata og að hann verði komin heim um áramótin.
Fyrir þessi jól var farið í skógarferð í Þelamörk í Hörgárdalnum. Við fórum öll fjölskyldan og príluðum upp um fjöll og firnindi til að finna okkur jólatré. Helgi, Jón og Daði hjuggu trén síðan niður meðan við kellurnar, Auður, Gerður og Rebekka, horfðum á aðfarirnar.
Efsta myndin er af jólatrénu okkar, nýskreyttu í stofunni, næst kemur mynd af Jóni og Daða við þeirra jólatré, þriðja myndin er síðan af feðgunum við jólatréð okkar Helga, loks er mynd af okkur Rebekku þreyttum eftir fjallaklifrið. Skógræktin bauð okkur síðan upp á ketilkaffi við varðeld í fallegu skógarrjóðri.
Við drifum okkur síðan heim og fengum okkur heitt kakó til að hlýja okkur eftir ævintýri dagsins og kveiktum á þriðja kertinu á aðventukransinum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home