föstudagur, apríl 27, 2007

Vinningurinn er alvöru...


Eldsnemma í morgun trítlaði ég út á horn og veifaði næsta tuktuk. Ég var á leiðinni á Apollosjúkrahúsið í endurkomu. Ég fór ein, því Helgi var á fundi með liðinu sínu. Það er frábært að ferðast í tuktuk. Einhvern veginn er það eins og að fá borgina í æð. Hitinn er yfirþyrmandi en þolanlegur vegna gustsins sem blæs í gegnum tuktukinn þegar hann er á ferð. Allar lyktir borgarinnar hellast yfir mann góðar sem slæmar, ýktar í hitanum. Síðast en ekki síst er tuktukinn fljótur í förum, því ökumaðurinn þekkir fullt af skemmri leiðum og er stundum fullhugaður í að smeygja sér á milli annarra ökutækja. Þar sem samið er um fargjaldið fyrirfram, þá er ekkert verið að slóra. En þeir gefa sér samt tíma til að gauka ýmsum fróðleik að manni. Ekki síðri sögumenn en Íslendingar og stoltir af landinu sínu. Á sjúkrahúsinu voru umbúðirnar rifnar af, sárið skoðað vandlega og og síðan allt hreinsað upp á nýtt. Einhver ígerð er ennþá við tána, en allt á góðri leið. Nýjar og enn stærri umbúðir settar utan um og ég áminnt um að láta þær alls ekki blotna. Eftir tvo daga má ég taka þær af og þarf ekki að mæta aftur í skoðun. Ekkert pensilínofnæmi hefur gert vart við sig. Heimsókn á bráðamóttökuna kostar ekki nema 150 rúpíur eða 90 kr. Heldur ódýrara en á Íslandi og það meira að segja á einkasjúkrahúsi.

Á leiðinni heim sá ég fullt af fólki á íþróttavelli sem var þar í alls konar þrautum og hlaupum. Út við girðinguna voru margar skráningarstöðvar og biðraðir við þær. Og fyrir utan girðinguna var ofboðslega löng biðröð, fleiri hundruð manns. Tuktukgæinn minn hægði ferðina og sagði mér að það væri sérstakur umsóknardagur til að komast í lögregluna. Mér fannst aðsóknin ótrúleg, en hann sagði að þetta væri mjög eftirsóknarvert starf og bara ágætlega launað.

Um hádegið kom Helgi heim og eftir smáhvíld, drifum við okkur í heimsókn í höfuðstöðvar Pizza hut. Þar fengum við ávísun á draumaferðina okkar. Ein nótt á lúxushóteli í Kandy með fullu fæði, þ.e. þrjár máltíðir. Ávísunin gildir fyrir tvo. Eftir að skoða þetta á netinu hlökkum við mikið til. Sérstaklega held ég að það sé skemmtilegt að panta sér ferð með varakonungslestinni (Viceroy Express www.bahraintravel.com.bh/Sri%20Lanka%20in%20style.htm) til Kandy, en hún er ævaforn búin þægindum sem hæfa konungi. Klædd að innan með dökkum viðarinnréttingum og rauðum plusssætum. Lestin er dregin af gamalli eimreið. Vinningurinn er raunverulegur!

Enn var farið í tuktuk og nú á leið í mollið eða Liberty Plaza. Á leiðinni stoppaði ökuþórinn okkar við búddamusteri og benti okkur á risastóran fíl sem var í garðinum. Í garðinum voru fílastyttur af öllum stærðum og gerðum en aðalfíllinn var lifandi og ekki meira en í seilingarfjarlægð frá okkur. Ótrúleg upplifun. Því miður var myndavélin ekki með í för, svo frásögnin verður að duga. Eftir verslunarleiðangurinn komum við löðursveitt heim enda 36 stiga hiti og sól. En við hugsum okkur gott til glóðarinnar, því við keyptum okkur nautasteik og fína rauðvínsflösku. Hvorki meira né minna en St. Julien vín, Chateau de Lalande, árgerð 1999.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home