sunnudagur, desember 31, 2006

Í lok ársins...


Við erum komin heim eftir árangursríka ferð suður til Reykjavíkur. Að morgni 28. var flogið með bóndann í sjúkraflugi og hann kominn í hjartaþræðingu fljótlega eftir að sjúkraflutningamenn skiluðu honum á gamla Landsspítalann. Í ljós kom að mikil þykknun hafði orðið í stoðneti sem var sett í framveggsæð hjartans fyrir tæpum fimm árum. Bara smálæna eftir sem hægt var þræða vírinn og blása. Fyrir hádegi var hann svo komin upp á hjartadeild og leit út eins nýfægður túskildingur. Glaðvakandi og hress. Undir kvöldmat fór hann síðan fram úr rúminu og gekk ganginn fram og tilbaka. Ég trúði varla mínum eigin augum. Eitthvað annað en fyrir fimm árum, þegar hann var hundveikur fram til morguns. Við svo búið skildi ég kallinn eftir og dreif mig til Þórdísar systur minnar til að reyna hvílast og jafna mig á atburðum dagsins. Um kvöldið komu síðan Helga systir og liðið hennar. Við áttum saman kvöldstund sem var frábær. Ástarþakkir til ykkar allra fyrir að hlúa svona vel að mér. Daginn eftir var síðan flogið heim á leið. Helgi var svo útskrifaður samdægurs af sjúkrahúsinu. Læknirinn hans lagði á það áherslu að þessar þrengingar hefðu ekki verið kólesteróltengdar. Allar aðrar æðar hjartans hefðu verið í fínu lagi. Hvað svo sem Helgi hefði verið að gera væri rétt og hann skyldi halda því áfram. Svo nú tekur við endurhæfing næstu vikurnar. Þó að allt hafi gengið vel, þá tekur svona lagað sinn toll bæði andlega og líkamlega. Ég verð að viðurkenna það að það var heldur ekki mikið eftir af mér. En við stóðumst þessa raun og erum óskaplega hamingjusöm yfir því að vera komin heim aftur heilu og höldnu. Nú tekur við nýtt ár og við horfum bjartsýn fram við.

Við óskum ykkur öllum farsældar á nýju ári og þökkum allt gott á liðnum árum.

mánudagur, desember 25, 2006

Heilög jól...


Kæru félagar, vinir og ættingjar um land allt. Okkur finnst ævinlega við fjarskalega rík þegar við setjumst niður með jólakortin okkar og kunnum við ykkur bestu þakkir fyrir. Jólakveðjan okkar er þessi frábæra vetrarmynd sem Helgi tók af fjöllunum fyrir ofan Akureyri. Fremst standa Súlur og hægra megin er Hlíðarfjall og vinstra megin Kerling. Vestast á pollinum er frostþoka enda 20°frost. Þetta eru fjöll í hærra lagi, en það glittir samt í ljósin í bænum. Ef tvísmellt er á myndina þá sést stærri útgáfa af henni.

Annríki okkar hjóna hefur verið mikið frá því í byrjun nóvember. Einhvern veginn tekst okkur að hafa svo mikið að gera að tíminn endist engan veginn til að setjast niður og skrifa pistla, hvorki langa né stutta. Við pabbi byrjuðum nóvember með því að eiga afmæli. Ég þann 10. og hann þann 13. Nú vill svo skemmtilega til að ég varð 55 ára og hann 77 ára. Við erum sammála um að lífið er harla gott. Ingjaldur vinur okkar Hannibalsson varð svo 55 ára þann 17. og lestina rak Sigurður tengdasonur okkar þann 23. nóv. Afmælisgjöfin mín var fjögurra daga ferð til Köben að hitta Kristínu og fjölskyldu. Við Helgi nutum þess fram í fingurgóma. Þann 13. desember var svo komið að Guðrúnu Björku systurdóttur minni og þann 19. átti Gerður hans Jóns Gests afmæli. Í dag er Helga Kristín systir mín 51 árs. Við sendum ykkur öllum innilegar afmæliskveðjur.

Í byrjun desember tók svo við prófayfirseta. Ég er vinsæl til yfirsetu í stærri prófum enda vön að stjórna undir álagi! Yfirsetunum lauk 14. des. og þann 15. var jólahlaðborð fyrir starfslið skólans. Við Helgi stungum af stax eftir aðalmáltíðina, enda hann úrvinda eftir mikla kennslu til staðarnema, fjarnema og síðast en ekki síst nemenda Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjónana. Þar er hann mjög vinsæll kennari, enda er hann ekki í neinum vandræðum að grínast á mörgum tungumálum. Mér leist ekkert á hann svo ég reyndi að hvísla hljóðlega öðru hvoru: “Það er kominn tími til að heilsa upp á hjartalækninn”. “Nei, ég þarf að grennast aðeins fyrst.”. En þann 21. tilkynnti hjartað hans að nú væri nóg komið. Það væri komið að því að líta á gripinn. Við flýttum okkur upp á sjúkrahús og eftir miklar rannsóknir var hann lagður inn. Enda blóðþrýstingur hár og fleiri einkenni vísuðu til þess að hjartanu liði ekki vel. Það varð strax ljóst að hann fengi ekki að fara heim til að bíða eftir hjartaþræðingu. Hann yrði sendur suður um leið og slíkt færi í gang á LSH. Við Helgi ákváðum því að halda jólin á sjúkrahúsinu. Jólamáltíðin okkar var snædd þar og eftir matinn kom aðaljólagjöfin okkar. Helgi mátti fara heim í 4-5 tíma, honum hafði loksins skánað nóg. Það var yndislegt. Hægt að spjalla og njóta hátíðarinnar heima hjá okkur. Við erum reyndar svoddan búrar að við töluðum bara um okkur sjálf og héldumst í hendur eins mikið og við gátum, Því meira mátti ekki gera! Ég er ótrúlega heppin að eiga góða að. Systur mínar eru frábærar og allt þeirra skyldulið. Stuðningur þeirra og barnanna okkar hjálpa okkur mikið. Það verður seint fullþakkað.

Ég ætla að gefa ykkur uppskrift að efirlætisjólamat fjölskyldunnar, sem er fyllt önd að dönskum hætti. Þann mat byrjuðum við Helgi að elda á jólunum1972 og sló þvílíkt í gegn að Andrés önd vinur okkar er étinn á öllum jólum. Í gær eldaði ég önd og fór svo með hana og soðið í sósuna um 17:30 til Jóns. Skv. síðustu upplýsingum bragðaðist hún frábærlega.

Blogguppskriftin

Farseruð jólaönd

1 væn önd helst ekki minni en 2,5 kg. (Annars ertu bara að borða Rip, Rap og Rup).

Fylling:
250gr svínahakk
200gr skinkustrimlar (ALI)
6-7 sveppir – millistærð
3-4 stilka af steinselju
1 sneið franskbrauð
1 egg
2 msk crème fraiche (sýrður rjómi)
Salt
1/2 tsk þurrkað rósmarín

Þurrkið öndina að utan og innan, forðist að skola hana. Klippið tvo fremstu liðina af vængjunum og einhvern part af strjúpanum. Látið svínakjöt, innmat, soðnu skinkunna, sveppi og steinselju fara eina ferð í gegnu hakkavél eða matarvinnsluvél, ekki of fínt. Farsinu er hrært saman með rósmarín, salti, eggi og sýrða rjómanum. Fyllt í öndina en ekki of þétt, því þá getur brabra sprungið! Opinu lokað með grillnál eða á hvern hátt sem þið viljið. Öndin nudduð að utan með grófu salti, n.b. Ekki of miklu. Sett á magann í steikardall og inn í 250°heitan ofn í 15 mín. Snúið henni á bakið og steikið áfram í 15 mín í viðbót. Á þessu stigi er fitunni hellt af bakkanum og hún geymd til síðari nota. Síðan er hitinn lækkaður í 190°og öndin látin steikjast í 1 til 1 ½ klst. Allt eftir stærð. Önd sem er 2,5 kg þarf klukkustund en yfir 3 kg lengist steikartími um hálftíma. Á meðan er búið til soð í sósu. Vængstubbar og strjúpi brúnað, lauk með tveimur negulnöglum í, gulrót, sellerí og nokkrar greinar af steinselju bætt við. Kjúklingasoði hellt í pottinn þar til flýtur yfir og síðan má þetta malla á meðan öndin er að steikjast. Þegar að öndin er tilbúin, er hún tekin út úr ofninum, álpappír breiddur yfir og hún látin hvíla sig meðan meðlætið er reitt fram. Hellið uþb bolla af heitu vatni í steikarfatið, leysið upp alla brúna skán eins og hægt er. Veiðið mestu fituna af jukkinu og hellið því í gegnum sigti út í sósusoðið. Soðið áfram þar til það bragðast vel. Sigtið soðið og þykkið það með Maizena eða hveiti og vatni hristu saman. Sósan er smökkuð til, t.d. með rjóma, rifsberjahlaupi, gráðosti eða því sem gefur gott bragð án þess að yfirgnæfa bragðið af öndinni. Ráðlagt meðlæti: Sykur- eða smjörbrúnaðar kartöflur, grænar baunir, rauðkál og bara það sem ykkur langar til.

Gleðilega hátíð