fimmtudagur, janúar 10, 2008

Annað afmæli ársins...

Guðmundur litli bróðir minn á afmæli í dag. Við sendum honum innilegar kveðjur og vonum að hann fái gott að borða og koss frá Dísu í desert. Ég var að lesa yfir bloggsíður fjölskyldunnar og njóta þess að lesa um eldamennskuna yfir jólin og áramótin! Þá rann það allt í einu upp fyrir mér að aðaláhugamál okkar er sælkeraeldamennska. Þar er bróðir minn enginn aukvisi. Hjá honum hef ég t.d. borðað frábæran fylltan kjúkling, svo ekki sé talað um pæjana sem hún mágkona mín eldar af mikilli list. Kannski tekst mér að heimsækja þau áður en langt um líður og njóta lífsins þeim við "Þrumuflóa" í Miklavatni áður en langt um líður.

laugardagur, janúar 05, 2008

Fyrsta afmæli ársins...


Í gær héldum við upp á afmælið hans Helga, en hann varð 59 ára. Við fjölskyldan hans óskum honum innilega til hamingju með afmælið. Okkur finnst hann eldast vel.


Stór hluti dagsins fór í að velta fyrir sér hvað ætti að vera í matinn. Við ákváðum það svo að hafa risahörpuskel a la Gordon Ramsey í forrétt. Í aðalrétt var listilega steiktar rib eye steikur. Með þessu var opnuð 17 ára gömul rauðvínsflaska, Chateau Gruaud la Rose 1991, alveg flauelsmjúkt bordeaux vín. Lúxusmatur eldaður á heimaslóð.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Ingibjörg Þorbergs heiðruð...


Innilegar heillaóskir til Immu hans pabba en hún var sæmd íslensku fálkaorðunni í dag. Hún er vel að henni komin og við erum glöð yfir því að hún hljóti verðskuldaða viðurkenningu sem tónskáld og tónlistarmaður. Við höfum notið tónlistar hennar í gegnum árin og ég held að það sé á fáa hallað þegar við nefnum t.d. jólaplötuna hennar, "Hvít er borg og bær" í viðbót við aðra frábæra hljómdiska sem komið hafa út á síðustu árum. Ástarkveðjur frá okkur norðanmönnum og litlu fjölskyldunni í Baunaveldi.