föstudagur, mars 23, 2007

Ævintýrin gerast enn...


Eyjafjörðurinn er kyrr og fagur eftir mikið hvassviðri í nótt. En við vorum heppin að það var sunnanvindur en ekki norðanstórhríð. Lerkið okkar heldur áfram að brotna og ef svo fer fram sem horfir þá verður kannski fimm metra stubbur eftir í vor. Tvær myndarlegar greinar lágu á jörðinni í morgun.

Í dag er líka merkisdagur. Helgi Hrafn dóttursonur okkar er tveggja ára og við vonum að pakkarnir hans nái í tæka tíð. Við óskum honum til hamingju með afmælið og biðjum Birtu að kyssa hann fyrir okkur. Jafnframt óskum við Stebba mági til hamingju með afmælið 13. mars s.l., svo og Kristínu tengdó og Valgerði frænku sendum við árnaðaróskir með afmælin 17. mars.

Við höfum verið önnum kafin undanfarið. Helgi ásamt fleirum hefur verið að undirbúa verkefni á vegum Sjávarútvegsskóla sameinuðu þjóðanna (UNU) og nú er staddir hér fimm fulltrúar frá Sri Lanka sem verið er að undirbúa til að halda námskeið í heimalandi sínum. Í tengslum við það tókum við boði UNU um dvöl í Sri Lanka og munum við halda á vit nýrra ævintýra 10. apríl n.k. Þar munum við dvelja næstu mánuði, Helgi halda einhver námskeið og við komum aftur heim 29. júní n.k. Við hlökkum til að kynnast landi og þjóð, svo og nýjum matarhefðum. Einnig er í bígerð að skreppa svo sem hálfan mánuð til Malaysíu. Tíminn hefur því farið í að undirbúa förina, fara í bólusetningar, heimsækja heimilislækninn, tannlækninn og afla vegabréfsáritunar til Sri Lanka. Allt gengur vel og nú vantar bara passana tilbaka frá Svíþjóð.

En fyrst það er kalt í dag ætla ég að elda svínakótelettur eftir franskri uppskrift sem ég gróf upp einhvers staðar. Okkur finnst þetta fínn sunnudagsmatur.

Blogguppskriftin

Svínakótelettur með rjóma og eplum a la Normandy

6 svínakótelettur
4 msk smjör
½ kg af matareplum
Safi úr 1 sítrónu (Má líka vera límóna)
3 dl af rjóma
Salt og pipar að smekk

Bræðið smjörið á pönnu við meðalhita og steikið svínakóteletturnar vel. Takið þær af pönnunni og haldið heitum í ofni við 100°C. Á meðan kóteletturnar steikjast kjarnhreinsum við og skerum eplin í báta (skrælið þau ef vill) Reynið að halda eplabátunum heilum. Leyfið þeim að malla í feitinni á pönnunni í uþb 5 mín, það er allt í lagi að að skvetta smá Calvados á eplin. Takið þau síðan af pönnunni og leggið yfir kóteletturnar og haldið öllu heitu áfram í ofninum. Hellið rjómanum og sítrónusafanum á pönnuna og sjóðið niður um þriðjung við háan hita. Saltið og piprið eftir smekk. Sósunni hellt á diska, kóteletturnar lagðar ofan á og eplasneiðarnar ofan á þær. Ég nota alltaf matreiðslurjóma eða kaffirjóma, en í uppskriftinn er gert ráð fyrir fullfeitum rjóma. Ég nota líka heldur minna af sítrónusafa (helmingi minna) en best er að smakka sig áfram. Franskurinn lætur þetta nægja sem máltíð en ég ber þetta yfirleitt fram með kartöflum. Ef menn vilja salat þá mæli ég með því að það sé borðað í forrétt. Þessi uppskrift dugar fyrir 6.