mánudagur, júlí 31, 2006

Lífið í óreiðunni á enda...


Í dag rignir og því ekki þörf á að vökva blómin mín stór og smá. Við erum voða fegin, því grasið er farið að skrælna og grasflötin okkar því frekar gul. En á morgun er aftur spáð bjartviðri og stillum eins og verið hefur síðustu vikur.

Hér er allt á fullu við að frágangi hússins. Kjallarinn að verða tilbúinn, bara eftir að mála lokaumferð á ganginn þar. Stefnt að hreingerningu þar á morgun. Búið er að leggja parket á ganginn hérna uppi, rafvirkinn er að klára að draga í og setja upp lampa. Þetta er búin að vera mikil vinna og sem betur fer eru Jón og Gerður búin að hjálpa okkur vel. Ég hef eiginlega aðallega séð um að allir fái að borða og eitthvað gott með kaffinu. Við sjáum fram á að tjaldlífinu okkar ljúki á næstu dögum. Rebekka kemur norður í kvöld og ætlar því að hjálpa okkur að ganga frá á morgun. Síðan drífum við okkur öll á flugvöllinn annað kvöld og tökum á móti Kristínu og litlu skriflunum. Við hlökkum öll til að sjást og vera saman.

Nú er ég búin að uppgötva hvers vegna ég var með stöðuga gigt. Ég hef verið að reyna að hjálpa ónæmiskerfinu mínu með því að koma ofan í mig einhverju C vitamíni. Í þeim tilgangi keypti ég kiwisafa og hélt nú að ég myndi hressast verulega með því að drekka 1-2 glös á dag. Eftir 5 daga samfellt gigtarvesen fór ég að lesa utan á umbúðirnar og kemst að því að helmingur af safanum kemur úr appelsínum!! Ég hætti snarlega að sulla þessu í mig og viti menn, gigtin hvarf á rúmum sólarhring. Ég held að það sé útséð um að neysla mín á sítrusávöxtum verði mér til heilsubótar. Ætli ég verði ekki bara að læra af reynslunni.

Til að lífga upp á tilveruna, þá eldum við okkur steiktan lax í dag. Taboulah er salat ættað frá Marokkó og er mjög gott með öllum mat. Það er líka mjög gott næsta dag.

Blogguppskriftin

Steiktur lax með taboulah

1 vænt laxaflak skorið í hæfilega bita.

400g Cous cous
6 dl kjúklingasoð
Safi úr hálfri sítrónu
2-3 msk af olífuolíu

2-3 tómatar
½ agúrka
1 paprika gul eða appelsínugul
1 vænn rauðlaukur
½ rautt chili (má sleppa eða nota heilt)
Vænn slatti af söxuðu fersku kóriander eða steinselju.

Byrjað á því að búa til kúskús eftir leiðbeiningum á pakkanum nema heitt kjúklingasoð notað í stað vatns (teningur í heitavatnið). Leyft að standa í lokuðu íláti. Grænmetið er skorið í litla bita og sett í sigti. Látið síga af því í uþb hálftíma. Eftir hálftímann er kúskús sett í stóra skál, sítrónusafa, olíu, salti og pipar hrært saman við það og grænmetinu ásamt kryddjurtum síðan bætt í og blandað vel saman. Sumum finnst kóriander ekki gott þá notum við steinselju. Látið standa á meðan laxinn er eldaður. Matskeið af olíu sett á vel heita pönnu. Laxabitarnir settir á opnu hliðina og steiktir í 1 mínútu síðan er þeim snúið á skinnhliðin og steiktir við mikinn hitan í uþb 6 mín. Loftið vel út á meðan. Að lokinni steikingu á roðið að vera stökkt og mjög bragðgott. Við notum yfirleitt ekki sósur en læt ykkur um að bæta slíku við eftir smekk. Dugar vel fyrir fjóra.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Gigt og maríuerlur...


Ég verð að viðurkenna það að ég er verulega súr í skapi þegar gigtargemlingurinn ákveður að koma í heimsókn. Ég kúri mig niður í stóla eða rúm og reyni að harka mig í gegnum daginn. Ég hef verið nokkuð laus við hann í sumar. Hann hefur svona rétt kíkt á gluggann hjá mér en farið svo strax aftur. Nú kom hann á laugardaginn og að reyndi að vera ekki mjög óþægur. En ég lét sem ég sæi hann ekki. Við það æstust leikar og í morgun var hann orðinn svo illvígur að ég rétt valt út úr rúminu og tók slatta af verkjalyfjum til að geta fengið mér morgunmat. En dagurinn lagaðist verulega þegar rafvirkinn mætti á svæðið og byrjaði að ganga frá lögnum og sjónvarpsköplum. Mikið verk, því síðasti eigandi hússins dró 70 m af slíkum köplum hingað og þangað um húsið! Helgi er langt kominn með kjallarann. Búið að mála þvottahúsið og koma því aftur í gagnið. Nú er verið að mála ganginn og baðið og þegar því lýkur þá er hægt að raða aftur inn húsgögnum. Það fer að verða hægt að bjóða aftur til sín gestum þegar fer að líða að haustinu. Veðrið hefur verið nokkuð gott hér. Að vísu kemur þoka með köflum en birtir til þegar líður á daginn. Eini gallinn er að hafgolan hefur verið allhvöss og þá er ekki hlýtt nema í góðu skjóli. Sum sé sunnan við húsið er sólbaðsveður. Það góða er að mér hafa áskotnast nokkrar vinnukonur. Maríuerlur sem búa í trjánum í kringum húsið hafa uppgötvað að það er góðar veiðilendur í sólskálanum hjá mér. Þegar enginn er uppi þá koma þær og tína upp allar flugur sem þær finna, dauðar sem lifandi. Þær virðast líka vera töluvert betur gefnar en þrestirnir, því þær fljúga aldrei á glerið í gluggunum. Þegar við komum upp, þá lyfta þær sér rólega á flug, kanna hvernig landið liggur og flögra svo út um dyrnar. Núna loksins þegar engir kettir eru í götunni, þá eru engir þrestir hér. Bara maríuerlur og sólskríkjur. Við erum bara fegin því þrestirnir eru frekar árásargjarnir. Þeir mæta þó örugglega í haust þegar reyniberin eru orðin þroskuð. Mér dettur í hug þegar ég hugsa um þresti, að við borðuðum töluvert af litlum lynghænum út á Spáni. Spánverjar eru hættir að éta spörfugla, en ala þess í stað upp lynghænur. Það þarf eina pr. mann en það er allt í lagi að nota kjúkling í staðinn.

Blogguppskriftin

Codornices a la bilbaina (lynghænur frá Bilbao)

4 lynghænur eða vænn hlutaður kjúklingur
4 msk smjör
4 msk olía
8 msk fersk brauðmylsna
2 rif af hvítlauk, skræld og fínt söxuð
8 msk fersk steinselja

Hryggbeinið fjarlægt úr lynghænunum og þær flattar út með því að berja ofan á bringubeinið. Öll aukafita og fjaðrir fjarlægt. Olían og smjörið hitað á pönnu og lynghænurnar steikta við vægan hita í 15 mín þar til þær eru gullinbrúnar og kjötsafi úr læri er orðinn tær.. Snúið við öðru hverju. Kjúkling þarf að steikja í 25 til 35 mín og það er líka betra að setja lok á pönnuna milli þess sem bitunum er snúið á ca 10 mín fresti. Þegar fuglarnir er tilbúnir, þá eru þeir fjarlægðir af pönnunni og haldið heitum. Fitan sem er eftir í pönnunni er hituð aftur og setjið brauðmylsnu, hvítlauk og steinselju út í og hrærið vel. Leyfið þessu að malla við góðan hita í 2 mín og gætið þess að þetta brenni ekki. Hellið stökkri brauðmylsnunni yfir fuglana/fuglinn og borðið með fingrunum. Dugar fyrir fjóra.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Aðeins svalara hjá okkur...


Nú styttist í að Kristín komi með krakkana til okkar. Hér hefur verið nóg að gera. Helgi er á fullu að undirbúa og ganga frá í kjallaranum. Síðan verður væntanlega farið í laga til í stofunum ef rafvirkjarnir láta sjá sig. Það er orðið mjög huggulegt á þakinu. Búið að kaupa nýtt borð í stað þess sem fauk í vetur og slatta af blómakerjum og kössum. Við erum búin að planta blómum og punta bæði við inngangana í húsið og uppi á þaki.
Mér hefur eiginlega tekist að vera meira og minna lasin undanfarnar vikur og því lítið gagn í mér nema til að elda mat. Fyrsta atlagan að sveppunum fór út um þúfur. Eftir heimsókn til sérfræðings var gerð næsta árás með pillum og kremum. Það virðist ætla að ganga en ég hef allan varann á. Ég er komin á biðlista hjá næsta sérfræðingi sem á að mæla einhverja starfssemi hjá mér og kanna hvort að þurfi að breyta lyfjasamsetningum. Erfðagalli fjölskyldunar virðist vera búinn að að rústa ónæmiskerfinu hjá mér í bili.
En lífið er samt ágætt. Rebekka kom hér í byrjun júlí og var í viku. Það var mjög gaman enda heimsótti hún ömmu sína og afa oft. Við fórum í veiði á sunnudeginum og veiddum þrjá fiska. Þeir voru vænir eða samtals fjögur kíló. Rebekka sá um að rota þá með dyggri aðstoð föður síns. Einn silungurinn var heilgrillaður í matinn um kvöldið. Annar silungur var flakaður og grafinn. Lax sem veiddist var frystur til síðari nota. Rebekka ætlar að koma aftur 1. ágúst, taka á móti liðinu og vera með okkur í tvær vikur. Næstum því efst á listanum er önnur veiðiferð til að kenna Birtu að rota silunga! Berjaferð verður örugglega líka á dagskrá og svo er verið að kanna hvort frænkurnar geti farið á reiðnámskeið. Verslunarmannahelgin ætti líka verða skemmtileg. Fjölskylduhátíðin “Halló Akureyri” verður í algleymingi þá daga. Viku seinna er handverkshátíð á Hrafnagili. Þann 12. ágúst verður svo haldinn fiskidagurinn mikli á Dalvík, en það er spurning hvort lagt er í að fá sér síðdegisverð með tugþúsundum gesta í ekki stærra plássi. Hér hefur verið gríðarlegur ferðamannastraumur í allt sumar. Tugir skemmtiferðaskipa hafa verið á ferðinni. Íþróttamót fyrir fullorðna og börn, tónlistarhátíðir í héraðinu flestar helgar og síðast en ekki síst hefur fjöldi gegnblautra og hraktra sunnlendinga þurrkað sig í góða veðrinu fyrir norðan. Mikill munur frá síðasta sumri sem var kalt og blautt hjá okkur.


Blogguppskriftin

Grafinn silungur

2 væn silungaflök eða ca 0,75 til 1 kg

Kryddblanda:

2 msk sykur
2 msk salt
1 msk ferskt koriander
2 msk ferskt dill eða 1 msk þurrkað
½ tsk cumin
½ - 1 tsk sinnepsduft eða 1 tsk dijon sinnep
Slatti af heilu koriander og/eða dilli

Leggið fyrra silungsflakið á skinnhliðina í fat, dreifið helmingnum af kryddblöndunni yfir. Leggið kryddplönturnar á flakið. Dreifið restinni af kryddinu á hitt flakið og leggið það á hvolf yfir fyrra flakið, þ.e. skinnhliðin snýr út. Breiðið klessuplast yfir, setjið smáfarg ofan á. Eftir u.þ.b. 12 klst er flökunum snúið í kryddleginum og látið liggja í alla vega 12 klst í viðbót.

Sósa:

2 msk dijonsinnep
1 msk sætt franskt sinnep
1 msk gott edik
1 tsk hlynsýróp
1 tsk þurrt dill eða 1 msk ferskt dill
½ bolli olía (Isio oliva eða góð olífuolía) eða meira eftir smekk og þörfum.

Þeytt saman í þykka sósu. Má þynna með 2-3 msk af vatni.

Silungurinn skorinn í þunnar sneiðar og borinn fram með slatta af fínt sneiddum rauðlauk, saxaðri steinselju, sósu og ristuðu brauði. Dugar í forrétt fyrir fjóra til sex.