
Ja, nú þykir mér týra á tíkarskarinu. Í fyrrakvöld slokknuðu skyndilega ljósin en eftir hálfa mínútu komu þau aftur á. Seinni partinn í gær fréttum við að rafmagnið hefði verið tekið af Colombo í heila klukkustund til öryggis. Einhver varðstöðin hafði tilkynnt um flugumferð á tíma þar sem engin flugvél átti að vera á lofti og því miklar áhyggjur að tamíltígrarnir væru á ferðinni. Við urðum hins vegar ekki vör við þetta því blokkin okkar hefur sína eigin rafstöð. Við drógum ekki einu sinni fyrir og vorum því óvitandi skotmark í myrkrinu. Ekkert gerðist sem betur fer.
Dvölin hér er ótrúlega viðburðarík, þrátt fyrir að ég hafi ekki getað verið mikið á ferðinni. Helgi fer alltaf og þvælist eitthvað á daginn og ég fer með honum ef það þarf ekki að labba langt. Það er mikil spenna í loftinu vegna úrslitaleiksins um heimsmeistarabikarinn í cricket. Sri Lanka leikur til úrslita gegn Ástralíu í kvöld. Fyrir Sri Lanka búa er cricket í sama spennuflokki og handbolti fyrir okkur. Lífið hreyfir sig hægt hér og það hentar frábærlega fyrir þessa íþrótt. Hver leikur tekur a.m.k. 4-5 klst. Eftir að hafa borðað nokkrum sinnum út á Cricket Club Café og horft um leið á einhvern leikinn í heimsmeistarakeppninni um leið, þá er ég farin að fatta geimið. Ég verð að segja að ég kann vel við íþrótt þar sem ég get setið og horft án þess að vera á barmi taugaáfalls af spenningi.
Það er margt að miðla þegar kynnst er nýrri menningu. Við höfum rétt minnst á veitingahúsin, en við höfum látið þau um að næra okkur undanfarnar tvær vikur. Þau hafa verið hvert öðru betra og svo ódýr að það tekur því ekki að koma sér upp grunneldhúsvörum. Helgi keypti að vísu 5 kg af hrísgrjónum,en ég á eftir að sjá okkur reyna að torga þeim. Almennt erum við að borga innan við 1500 kr. fyrir tveggja manna máltíð nema þegar við ætlum að vera flott á því eins og í gær, þá var farið á Thambapani til að borða frábæra fiskrétti með hvítvíni og það kostaði heilar 3500 kr! Hver nennir að elda með svona marga frábæra veitingastaði í göngufæri. Eitt veitingahúsið sem við höfum heimsótt tvisvar heitir Green Cabin garden restaurant. Hér er eldaður ekta Sri Lanka matur. Vesturlandabúar geta fengið grillaðan kjúkling og franskar. Ég tók stökkið og pantaði mér það sem þjóninn kallaði milt karrí, krabbakarrí. Með því var borið fram stringhoppers, sem eru hrísnúðlur vafðar í litla disklaga kökur, og krydduð kókosmjólk. Ég varð hálfhissa þegar aðalmáltíðin kom í lítilli desertskál. En þá er kerfið þannig að núðlunum er vafið upp með fingrunum, bleytt aðeins í með karrígumsinu, smá kókósmjólk, chilitómatsósu og sjá, bitanum troðið upp í sig. Í næstu heimsókn var prófað rækjukarrí með Pittu, þykk pylsa hnoðuð úr rísmjöli og kókós, gothimba, örþunnar risastórar hrísmjölspönnukökur. Þetta fer eins fram. Smáflaga er rifin af gothimba, klípa af pittu eða stringhoppers ofan á, hálf teskeið af karríi, aðeins meira af kókósmjólk og smásletta af chilitómatsósu. Hnoðað vandlega saman og troðið upp í sig. Hér er matast með hægri hendinni og sú vinstri geymd undir borðbrúninni á meðan. Hér er mikið chili notað í matinn. Það er kostur, því það logar allt í fimm mínútur og svo kemur þetta fína bragð. Við erum búin að finna frábæran fiskréttastað, Thambapani, enn betri kínverskan, Flower Lounge og prýðilegan altmúligstað, Queens Café. Svo ekki sé minnst á Pizza Hut, þeir standa alltaf fyrir sínu nema hér er líka notuð chilitómatsósa á pizzurnar. Þessir staðir eru allir mikið sóttir af heimamönnum en Cricket Club Café er málið fyrir Evrópubúana.
Við sendum börnunum okkar og fjölskyldum þeirra sérstakar kveðjur en þau standa í stórræðum þessa dagana. Jón fór í skurðaðgerð s.l.mánudag þar sem tvíburinn var fjarlægður, vonandi endanlega. Honum hefur heilsast vel. Við getum ekki lýst því hversu fegin við erum enda var stöðug ígerð í gangi og því alltaf hætta á frekari slæmsku. Kristín opinberaði það í gær að nýtt barnabarn sé á leiðinni og verður væntanlega sporðdreki eins og amma og langafi. Við sendum kossa, risastór knús og góðar hugsanir og vonum að austanvindurinn beri það til þeirra allra.