þriðjudagur, maí 08, 2007

Selamat datang...


Þvílíkt land, þvílíkt ævintýri, þvílík þjóð. Þetta hljómar eins og klisja en við erum heilluð. Orðin í fyrirsögninni þýða velkomin á malaísku. Og við höfum svo sannarlega verið velkomin til Malasíu. Við komum til Kuala Lumpur á fimmtudagsmorgni. Við höfðum farið af stað frá Colombo kl. 4 að morgni og lentum kl 13 að malaískum tíma. Tímamismismunur á milli Íslands og Malasíu er 8 klst. Eftir þessa venjulegu gönguferð um stóran flugvöll komum við að afgreiðsluborði KLIA Express og keyptum okkar miða í hraðlestina með VIP meðferð innfaldri, alveg óvart. Huggulegur porter tók við okkur, bar farangurinn, beið eftir lestinni og fór með okkur á aðalstöðina í Kuala Lumpur. Þar beið lúxusbíll með bílstjóra eftir okkur sem skutlaði okkur á hótelið og fylgdi okkur að afgreiðslunni. Þetta allt saman kostaði 2.600 kr og tók tæplega klst. Okkur leið eins og höfðingjum þegar við vorum komin inn á herbergi. Eftir stutta gönguferð um nágrennið, hvíldum við okkur. Næsta dag kom Jamaludin vinur Helga og fór með hann í heimsókn á vinnustaðinn sinn. Jamal eyddi 6 mánuðum við nám hjá UNU á Akureyri fyrir þremur árum og Helgi var leiðbeinandinn hans í lokaverkefninu. Þarnæsta morgun, 5maí, sótti Jamal okkur og það var lagt af stað í ferð norður alla Malasíu. Ótrúleg ferð. Landslagið engu líkt. Við keyrðum yfir og á milli skógi vaxinna fjalla niður á jafnsléttu á frjósömustu sléttu Malasíu, víðáttumiklum hrísgrjónaökrum eða hrísgrjónaskál landsins eins og landsmenn kalla hana. Við verðum á ferðinni þangað til næsta fimmtudag. Þá komum við tilbaka. Við erum núna í borg sem heitir Kuala Terengganu. Þetta hérað er örstutt frá landamærum Malasíu og Thailands. Þetta er í fyrsta skipti sem við komumst í netsamband síðan á fimmtudaginn var. En það er seint að kvöldi og við búin að vera í 8 tíma ökuferð þvert yfir Malasíu frá vesturströndinni yfir á austurströndina, því ætla ég að geyma ferðasöguna smátíma í viðbót. Takk fyrir kveðjurnar, þær hlýja okkur vel. Á myndinni sjáið þið Helga með vini okkar Jamal.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

hvaða þvílíku kónglífi eru þið í,,bara með bílstjóra!!

8:28 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home