föstudagur, maí 18, 2007

Terima kasih...

Hér hefur aldeilis verið heilsuleysi á bænum. Síðdegis á miðvikudag kom Helgi veikur heim, ómótt og illt í maganum, skreið upp í rúm og lá þar það sem eftir var dags. Í gær kom hann heim undir kl. fimm og þá var hann kominn með hita og illt í hálsinn. Enn og aftur var lagst í bælið. Við Ögmundur fórum út á Queens café og fengum okkur að borða. Ég var komin að hungurmörkum því ég hafði lítið borðað frá því á þriðjudagskvöld. Líðanin mín lagaðist verulega en Helgi eyddi hálfri nóttinni á klósettinu. Þá eru allir Íslendingarnir í tengslum við verkefnið búnir að fá magakveisu nema ég.

En í dag ætlum við að ljúka frásögninni af ferð okkar um Malasíu. Fyrirsögnin þýðir á Malaísku, þakka ykkur fyrir. Við komum aftur til Kuala Lumpur á þriðjudagskvöld. Miðvikudagurinn fór í það að hvíla sig, skreppa út í stóra verslunarmiðstöð sem var rétt hjá okkur og um kvöldið skelltum við okkur á kínverskt veitingahús. Þar fengum við aldeilis frábæran mat. Eldsnemma daginn eftir fórum við í skoðunarferð um borgina. Þetta er mjög hrein og snyrtileg borg. Ofboðslega fallegir garðar og meðfram öllum aðalakstursleiðum er plantað blómum og runnum. Við byrjuðum á safni til að skoða Malaya og ökutæki þeirra fyrr og nú. Síðan var skoðuð stærsta moska landsins, ýmis minnismerki úr stríðinu og síðan var haldið að konungshöllinni. Þar situr nýkrýndur konungur, sá yngsti hingað til, aðeins 45 ára. Þegar Bretar veittu Malasíu sjálfstæði, þá var búið þannig um hnútana að samið var við fyrrum 15 konunga hina ýmsu ríkja landsins að hver þeirra sæti á konungsstóli í 5 ár og þá væri skipt og næsti kóngsi tæki við. Í ár er 50 ára afmæli lýðveldissins og því miklu til tjaldað í veisluhöldum alls staðar sem og krýningu konungs. Síðan fórum við og skoðuðum Kínahverfið, pjáturverksmiðju, batikhús, leðurvinnslu og súkkulaðigerð. Allt mjög áhugavert en verið að selja manni fína minjagripi á uppsprengdu verði. Næst var ferðinni heitið að skoða fyrrum stjórnarsetur Breta svo og cricket klúbbinn þeirra og síðast en ekki síst var tekin myndastopp við hæstu tvíburaturna Suður Asíu. Þegar við komum á hótelið var stefnan tekin á McDonalds til að fríska svolítið upp á vestrænu hliðina á okkur. Á föstudeginum kom Tumi Tómasson á svæðið og þeir Helgi fóru og heimsóttu Jamal í ráðuneytinu. Um kvöldið komu þeir síðan á hótelið ásamt einni dömunni sem hefur líka verið í UNU skólanum og þau buðu okkur að borða síðustu malaísku máltíðina. Síðan var kvaðst með virktum og við boðið velkomin til Malasíu aftur hvenær sem okkur lysti. Deginum lauk með einu til tveimur gin og tonic á mann. Næsta morgun var haldið út á flugvöll. Þar var Tumi orðin hundveikur og taldi það hafa rætur að rekja til máltíðar sem hann fékk í flugvélinni á leiðinni frá Bangla Desh til Malasíu. En ég held að hann hafi fengið einhverja sýkingu sem er svo búin að grassera meðal okkar Íslendinganna hér. En við kvöddum Malasíu þakklát fyrir frábæra ferð og vináttu sem okkur var sýnd.
Efst myndin er af okkur Helga við hallarhlið konungs, á næstu erum við fram við moskuna, þriðja myndin er af stjórnarsetri Breta í Malasíu og sú fjórða er útsýnið úr herbergi okkar á hótelinu.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Umræddur kvilli, eins og þið vafalaust vitið upp á hár, gengur undir mörgum skemmtilegum nöfnum: "Delhi Belly", "The Aztec 2-step", "Montezuma's revenge", "The Karachi Crouch", allt frasar sem Bjössi hefur komið með frá útlöndum. En ég var að leita að gamni mínu að þessum frösum og fann þessa skemmtilegu grein: http://www.journals.uchicago.edu/CID/journal/issues/v31n3/000026/000026.html

Vona að ykkur batni sem fyrst.

4:07 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég kíkti heimsókn til afa áðan á spítalann. Hann er búin að fá póstkortið frá þér og fannst það alveg svakalega merkilegt að vera þvælast þarna út í Sri Lanka. Mamma prentar líka út nýjustu pistlana þína fyrir hann að lesa á spítalanum! Hann biður að heilsa!

9:39 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home