Á ferðinni um Malasíu...

Við vorum heldur fljótari í förum en áætlað var. Við tékkuðum okkur inn á Quality Hotel í Kuala Lumpur þriðjudagskvöldið 9. maí og fengum þetta líka ágæta herbergi með internetsambandi, straujárni, straubretti og ég veit ekki hverju. En á þremur dögum tókst aldrei að ná sambandi, hvorki í gsm símunum okkar né tölvunum. Skýringar á þessu voru að símalínur voru í henglum og ekkert virkaði. Það var eins gott að eldhúsið var ekki tölvuvætt, því þá hefðum við ekki einu sinni fengið að borða. Það er vond tilfinning að vera svona sambandslaus við umheiminn. Við vissum ekkert hverju fór fram hvorki heima né annars staðar. Í sjónvarpinu voru bara fréttir af atburðum í Asíu. En rúmið okkar var gott. En öll él birtir upp um síðir. Síðdegis í dag komst netsambandið aftur á en Helgi var þá komin út í höfuðstöðvar LKIM ásamt Tuma Tómassyni yfirmanns UNU (Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna á Íslandi). Við áttum þó ekki nema klukkutíma á kortinu okkar og tæknin hleypti okkur ekki í gegn. Nú erum við komin aftur til Sri Lanka og finnst við næstum því vera komin heim.
En Malasía er frábært land. Skógi vaxið frá fjallatoppum niður í fjörur. Við ókum norður eftir hraðbrautinni á föstudag. Fyrst lá leiðin um skógi vaxnar hæðir og fjöll. Þaðan komum við niður á miklar sléttur, þar sem hver hrísgrjónaakurinn tekur við af öðrum. Hrísgrjónabændur hér eru fremur vel efnaðir og það eru ekki lengur notaðir bufflar til að draga jarðyrkjutækin, heldur sérkennilegar vélar á metersbreiðum felgum. Engin dekk á felgunum, þótt Malasía sé einn af stærstu framleiðendum gúmmís á heimsvísu. Verkafólk sér um að reita illgresi og eitra fyrir flugum og það er berfætt í vatni upp á miðjan legg við vinnu sína. En erindi okkar var að skoða svæðisfélög fiskimanna á landsbyggðinni. Að kvöldi var komið til borgarinnar Alor Star í Kedah héraði og eftir smáhvíld var leiðinni heitið í úthverfi hennar í lítið fiskimannahverfi. Þar hittum við fyrsta svæðisstjórann yfir matarbita. Fiskimennirnir reka veitingahús. Ég fór með bílstjóranum okkar og við völdum fisk í matinn. Risastórar risarækjur, tvær eða þrjár tegundir af hvítum
fiski og smokkfisk, allt nýveitt. Við settum þetta í körfur og síðan var þetta eldaði kokkurinn fyrir okkur. Borið fram soðnum hrísgrjónum í missterkum sósum. Við vorum farin að venjast kryddstyrknum, en ég flaskaði á því að fá mér uxahalasúpu. Súpan sú kveikti í mér endanna á milli og ég er viss um að það kom reykur út um eyrun á mér. Við nánari skoðun hafði ég verið að tyggja stóran bita af rauðu chilli. Ég kláraði allan vatnsmelónusafann minn og heimamenn voru fljótir að koma með stóra könnu af miðinum í viðbót. Ég jafnaði mig fljótlega og sneri mér að mildari sortum. Þeir stilltu sig um að hlæja að mér, brostu bara í kampinn, en gættu þess að ég væri ekki að álpast út í neina vitleysu í mataræðinu eftir það. Rækjurnar bættu upp skaðann, svo og annar fiskmatur sem við prófuðum það kvöldið. Veitingahúsið er ekki merkilegt, lítið stálgrindahús með þaki en engum veggjum. Kvöldgusturinn af hafi kældi niður lofthitann og því notalegt að sitja þarna í rökkrinu. Við áttum eftir að borða í mörgum svona útiveitingastöðum á næstu dögum. Eitt sem einkennir fiskiþorpin og nágrenni þeirra er fjöldi katta sem er á ferðinni. Þeir skjótast á milli fótanna á fólki þegar fiskinum er landað. Sitja upp á veggjum á fiskmörkuðum og fylgjast vandlega með. Og á útiveitingastöðunum eru þeir á ferðinni á milli borða og reyna að plata fólk til að láta fiskbita hrökkva af diski. Næsta dag heimsóttum við tvö eða þrjú fiskiþorp og svæðisskrifstofur fiskimannasambandsins. Við fylgdumst með löndun fisks, frumstæðum uppboðum og borðuðum alls konar aukabita. Allt frá þurrkuðum fiski til heilla máltíða. Við fórum í litla verkstöð sem býr til fiskibollur og nagga. Það fengum við klístruð hrísgrjón (sticky rice) með harðfiskmylnu. Þegar leið á daginn var lagt aftur af stað og nú var ferðinni heitið til Penang héraðs með nokkrum heimsóknum í Ketalan héraði í leiðinni.

1 Comments:
Ég lenti í því í Kanada að tyggja rauðan chilie sem ég bjóst við að væri rauð paprika. Varð öll rauð eins og þú. Það sama átti við Gvend því að ég held að hann hafi ætlað að kafna úr hlátri við þessi ósköp hjá mér :-)
Kv.
Þórhildur
Skrifa ummæli
<< Home