miðvikudagur, maí 16, 2007

Á strönd Kínahafs...


Ég er búin að vera hundlasin undanfarna daga, en í dag er þetta allt að skána. Sem betur fer hafa Ögmundur og Helgi nóg að gera við að hotta áfram verkefninu sínu og ég fengið að vera í friði með hóstann minn.

En við skulum halda áfram með Malasíu. Þegar við komum niður að strönd Suður Kínahafs var orðið framorðið og við fengum okkur að borða áður en lagst var inn á hótel til hvíldar. Eftir góðan nætursvefn í Kuala Terengganu var lagt í hann eldsnemma. Nú hafði komið upp eitthvað áríðandi hjá Jamal svo við ætluðum að taka stóra dagskrá og enda um kvöldið í Kuala Lumpur, einum til tveimur dögum á undan áætlun. Nú var stefnan tekin á héraðsskrifstofu sambands fiskimanna. Eftir fund það var tekin stefnan á hádegismat. Á borðum beið okkar smámunngæti. Uppvafin laufblöð með fyllingu. Þegar þau voru opnuð var hrísgrjónabiti innan í með smávökva. Okkur var sagt að þetta væri dæmigert fyrir héraðið og væri oft notað til að brjóta föstuna á Ramadan. Í ljós kom að þetta voru klístruð hrísgrjón hnoðuð með góðu geri og látin gerjast í laufblaðinu í þrjá daga. Sum sé rótáfengt og stílbrot við múslimskar hefðir sem halda sig langt frá áfengi. En þetta var mjög gott. Annað sem við smökkuðum um morguninn voru fiskipylsur sem eru líka einkennandi fyrir þetta hérað. Þær eru kallaðar keropak lekor og er fiskfars hnoðað með sagómjöli. Síðan er það rúllað upp úr hveit og soðið í 15 mín. Pylsurnar eru síðan etnar steiktar eða djúpsteiktar með góðri chili sósu. Eins og þær litu ólystilega út, þá var þetta algjört sælgæti. Síðan var haldið áfram með strönd Kínahafs og stefnan tekin á næsta fiskimannaþorp. Leiðin lá um alls konar lítil þorp og undir fjögur var komið í síðustu heimsóknina. Þar sáum við breiddar til þerris breiður af örsmáum ansjósum. Þær eru soðnar eldsnöggt, þurrkaðar og síðan djúpsteiktar. Malayum finnst þetta ómissandi á hrísgrjónagrautinn sinn á morgnana og almennt með soðnum hrísgrjónum. Eitt af þessu sem við urðum að prófa. En við ókum áfram og um níuleytið að kvöldi þriðjudags vorum við komin til Kuala Lumpur og aftur inn á Quality Hotel. Næsti dagur fór í hvíld eftir viðburðaríka og skemmtilega ferð um norður Malasíu. Á myndunum sjáið þið efst gamalt malaískt timburhús, á næstu mynd eru konur að búa til kerolak lekor til að selja í litlu búðinni sinni, næst eru breiður af ansjósum og síðast konurnar og börnin að bíða eftir því ansjósurnar þorni nóg til að taka þær saman eða chillað á strönd Kínahafs.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þú verður allavegna ekki heimsk blondína eftir þessa ferð. Þetta voru mótrökin hjá mömmu ef maður vildi ekki fisk í matinn þegar maður var lítill. Ef þú borðar ekki fisk þá verður þú bara heimsk blondína! Alveg ótrúleg leið til þess að fá barn til þess að borða matinn sinn!

5:33 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home