mánudagur, maí 14, 2007

Á eyjum og í hitabeltisskógum...

Í gærmorgun var ég komin með hósta, snert af bronkítis og hita. Ég gat ekki annað en hugsað: “Aumingja Helgi, hvers á hann að gjalda að dragnast með handónýta kellingu um hálfan heiminn”. En við vöknuðum samt snemma til að fylgjast með síðustu klukkutímum kosningavökunnar. Mjög spennandi, alveg hissa hvað Framsókn og Samfylkingu hefur gengið vel að tosa sig upp á síðustu metrunum. En mér finnst Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn sigurvegararnir að ná að bæta við sig þingmönnum eftir 16 ára stjórnarsetu. Við tókum því rólega frameftir degi enda von á Ögmundi, vini okkar og nágranna um fimmleytið. Og hann var ekki fyrr komin fyrr en Árni ásamt Tuma kallaði okkur til túnfiskveislu. Ég náði þó að sjá síðustu hringina í formúlunni. Undir kl. 7 tróðum við okkur þrjú í tuktuk og þurftum ekki skóhorn og héldum til veislu.

En ég ætlaði að segja ykkur betur frá Malasíu. Á leiðinni til Penang á norðausturströndinni, voru nokkur fiskiþorp og svæðisskrifstofur heimsóttar. Hvert sem við komum var dregið fram eitthvað í svanginn. Móttökurnar voru frábærar. Malayar hafa þann sið að þeir heilsast með handabandi og leggja svo hægri hendina í hjartastað. Aðspurðir sögðu þeir þetta tákna að tekið væri á móti okkur af hjartans ánægju og bróðerni. Þegar leið á daginn heimsóttum við lítinn ferðamannastað upp í fjalli. Þar fengum við ferskan kókóssafa okkur til hressingar. Síðan var keyrt sem leið lá og þegar við komum að ströndinni var farið með ferjunni til Penangeyju (Pulau Penang). Þegar þangað kom keyrðum við nokkuð langa leið og nú áttum við að gista í hálfgerðri bændagistingu eða Chalet eins og þeir kalla það. Við skelltum okkur inn og það lá við að bakkað væri út. Klósettið rétt virkaði, ef stuðst var við vaskinn þá dinglaði hann eiginlega laus, enginn þröskuldur enda skelltu fyrstu kakkalakkarnir sér fljótlega inn, rúmin voru ágæt en ullarábreiður án laks til að breiða yfir sig. Það er sko á tæru að það eru fleiri en við sem búa til ullardót sem stingur rosalega. En við létum okkur hafa það og notuðum handklæðin sem ábreiður. Við hliðina á húsinu var fiskveitingastaður og þar sest að borðum yfir dýrindis fiskréttum. Við vorum þreytt eftir langan dag og við sofnuðum eins og steinar þrátt fyrir risastóra kakkalakkann sem sat á sjónvarpinu okkar þegar inn var komið. Næsta dag var kúrði ég í rúminu með dýralífinu og Helgi fór með köllunum að kíkja á svæðisstjórann. Undir hádegi var lagt af stað og keyrt yfir lengstu brú Suður Asíu til lands. Nú var ferðinni heitið þvert yfir skagann yfir á strönd suður Kínahafs. Það var ekið yfir há fjöll og í gegnum hitabeltisskóg uns við komum að stóru vatni á fjallstoppi. Við settumst enn að fiskihlaðborði. Ég geri mér yfirleitt far um að bragða á eins mörgum tegundum og ég get. Meðal annars fékk ég mér soðin egg, heilsteikta smáfiska og svo fisk í karríi sem ég vissi að var skata. Jamal og Rosamir vöruðu mig við eggjunum, þau væru brimsölt. En þau brögðuðust mjög vel. Eftir að við höfum setið smástund tökum við eftir því að það mikið af fiskiflugum í kringum okkur. Eftir að reyna að banda þeim frá okkur, færðum við okkur um set en flugnagerið fylgdi okkur. Eftir dálitla stund kemur lítil kisa og gerir sig huggulega. Ég bráðnaði þrátt fyrir áminningar frá Helga og gaf henni smáskötubita. Hún þefaði og kippti sér snöggt tilbaka. Ég smakkaði og varð stórhrifin. Allt í einu tökum við eftir því að flugnagerið var allt lagst á fiskbita kattarins. En það skapaðist ráðrúm til að skella í sig skötunni með góðri lyst án þess að gleypa fiskiflugurnar með. Ég hafði sagt þeim félögum frá skötuáti okkar Íslendinga kvöldið áður í tilefni þess að við fengum grilluð skötubörð í matinn. Núna horfði ég alvarlega á Jamal og sagði honum, að þetta er eins og mjög mild útgáfa af kæstri skötu. Já, sagði hann og glotti, hún er lítillega gerjuð! Með það var haldið aftur af stað niður af fjallinu og þegar við vorum komin að landamærum Thailands og Malasíu glitti fljótlega í Suður Kínahaf.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home