
Síðasta vika hefur verið róleg. Gott að hvíla sig og leyfa orkunni að endurnýjast eftir undangengna vanheilsu. Það er heldur svalara í veðri núna þessa dagana eða rétt ríflega 30°C en rakinn er mikill, sem þýðir að minnsta hreyfing verður til þess að fólk svitnar ótæpilega. Við höfum verið á ferðinni á daginn. Búin að finna eina verslunarmiðstöð í viðbót, sem heitir Crescat. Sú er sniðin að vestrænum hætti. Stærri búðir, bjartari húsnæði og þess vegna töluvert hærra verðlag þar. Hér í götunni hjá okkur er ein fínasta búðin í Colombo. Hún selur listmuni, húsgögn og búsáhöld, allt sérhannað og ofboðslega flott. Hún heitir Paradise Road. Við fórum þar inn í gær og skoðuðum. Þetta er búð í stíl við Casa enda voru inn á milli alls konar

designerdót frá Corbusier og fl. En mest er af innlendri hönnun sem er mjög samkeppnisfær. Einhvers staðar á leiðinni fann ég þetta fína dippidútt úr tré sem ég áleit að væri til þess að skrúfa safann úr sítrusávöxtum. Áður en ég borgaði fannst mér samt rétt að spyrja hvort þetta væri rétt hjá mér. Afgreiðslufólkið fórnaði höndum og sagði að þetta væri útskorin stjörnuávöxtur og væri til skreytingar. Einn gæinn hljóp af stað og sótti samsvarandi verkfæri úr hvítu postulíni og rétti mér. Ég var alsæl og borgaði þetta en hugsaði með sjálfri mér að stjörnuávöxturinn hefði alveg getað gert sama gagn. Tengt búðinni er flott gallery og veitingahús sem heitir Gallery café. Við fórum að borða þar á laugardagskvöldið og vorum algjörlega heilluð. Fyrst var gengið inn í port og þaðan inn í stórt anddyri með vænni tjörn. Alls staðar heyrist vatnsniður í bland við fallega tónlist. Þar á veggjum er málverkasýning og í smáskoti voru seldir valdir hlutir frá búðinni. Þaðan er gengið inn í veitingahúsið, aflangt rými með sérhönnuðum húsgögnum. Við vorum búin að lesa okkur til um að þetta væri eitt af fimm bestu veitingahúsum hérlendis. Þeir stóðu fyllilega undir væntingum og við gáfum okkur góðan tíma til að njóta veitinga og umhverfis.
Fyrr í undangenginni viku heimsóttum við næstfrægustu búðina í bænum. Hún heitir “Barefoot” og selur sérhannaðar handverksvörur. Búðin er í gömlu húsi í nýlendustíl og góðan tíma þarf til að skoða alla króka og kima. Þarna eru seld handofin fataefni úr bómull eða silki. Sérsaumaður fatnaður, leikföng, búsáhöld, bækur og alls konar smáhlutir sem hugsanlega þarf að nota eða punta með á hverju heimili. Ferðalagið endar á litlu útikaffihúsi sem við eigum eftir að prófa. Sérkenni þessarar verslunar er gríðarleg litagleði og sérstaklega tærir og fallegir litir. Skemmtileg og einstaklega fallegt fyrirtæki.

Við erum líka búin að rölta hér um nágrennið og taka myndir hér í götunni af t.d. húsinu sem við búum í. Gróðurinn er mikill, mannlíf og dýralíf gróskumikið. Krákurnar eru á fullu í hreiðurgerð, flækingshundarnir hvíla sig í hitanum, ein og ein kisa er á stjákli og fjöldi fólks á ferðinni. Sumir eru að flýta sér og aðrir ekki. En það virðist vera pláss fyrir alla í þessu samfélagi.
Við enduðum daginn í gær á Hilton Colombo en þar er fyrirtaks veitingastaður sem heitir “Il ponte” eða upp á ítölsku “Brúin” enda ítalskur staður. Við höfðum borðað þar einu sinni áður og erum mjög hrifin af staðnum. Matreiðslan er eiginlega ítölsk evrópsk fusion, virkilega vel heppnuð. Árni sendiráðunautur bauð okkur ásamt tveimur nýjum Íslendingum sem eru að vinna hér að upplýsingakerfum. Við áttum skemmtilegt kvöld, sem er nokkurs konar upptaktur að grillveislu sem Árni ætlar að halda fyrir okkur á laugardagskvöldið.
Efst er mynd af blómabúðinni í götunni, næst er mynd af Paradise Road, síðan er mynd af blokkinni sem við búum í og seinast sjáið þið garðinn í Cricket club café. Það er einn af stöðunum þar sem við borðum oftast. Við setjumst oftast inn og njótum veitinga í loftkældu umhverfi.