Vesen, vesen og þó...

Dagurinn hefur verið svo ævintýralegur að ég sé mig til knúna til að bæta við fréttum. Það er skemmst frá því að segja að vegabréfsáritunin okkar rann út í morgun. Við vorum búin að orða þetta við félagana í sendiráðinu nokkrum sinnum og þeir gerðu frekar lítið úr því. Smámál eins og það var kallað. Reddað eftir helgina. Nú helgin var búin svo við hringdum og tékkuðum á málum. Jú það ætti að vera hægt, mæta til þeirra um hádegið. Þangað komin var altmuligmaður skrifstofunnar sendur með okkur í útlendingaeftirlitið. Undir tvö vorum við komin og mílumiðröð fyrir utan. Okkar maður gekk fram hjá öllum, inn eftir löngum gangi meðfram matsöluborðum og fornbókasölum, upp á þriðju hæð, þar var farið inn eftir fornlegum sal með fjölda opinberra starfsmanna og fengin umsókn hjá afgreiðslunni. Umsóknin fyllt út, farið fram fyrir, tekin af okkur mynd og límd á blaðið. Gengið inn í salinn aftur til einhvers yfirmanns sem kvittaði á allt saman. Næst var farið aftur í afgreiðslu og upplýsingarnar slegnar inn í tölvu og einhverjir reitir fylltir út á blaðinu. Aftur ruðst inn til sama yfirmannsins til að fá aðra uppáskrift. Næst var farið til gjaldkera og borgaðar 4.400 rúpíur, síðan voru blöðin ásamt kvittun og pössum sett til ofurþreytts afgreiðslumanns, sem afhenti okkur númer og sagði okkur að bíða. Hann fór með dótið inn í annan sal, eyddi þar dágóðri stundu með öðrum embættismönnum, fór síðan með allt til yfirmannsins á ný, sem kvittaði á allt saman í þriðja skiptið. Eftir hálftímabið brosti sá þreytti til okkar, kallaði númerið okkar upp og afhenti okkur passana. Við þóttumst góð, drifum okkur niður og fórum framhjá óralangri biðröðinni og vorum keyrð aftur í sendiráðið. Þegar við fórum að tala um að þetta hefði tekið langan tíma, var litið á okkur, glott og sagt ef þið hefðuð ekki verið með mann með ykkur sem hefði troðist fram hjá öllum, þá hefðuð þið þurft að mæta kl 6 í morgun og fara í biðröðina! Nú skildum við þetta með matsölurnar og bækurnar í anddyrinu. Allt þetta fyrir vikuframlengingu á vegabréfsáritun.
Næst drifum við okkur á ferðaskrifstofu og gengum frá því að fara eldsnemma í fyrramálið til Kandy og dvelja í hæðum Sri Lanka í einn sólarhring. Það mætir hér bíll með bílstjóra í fyrramálið kl 6:30 og við ætlum að vera komin í fílabyggðir kl. 9. Um hádegi verðum við komin á vinningshótelið okkar, hvert við förum annað er óvíst. Sem sé óvissuferð sem við komum til baka úr undir kvöld á miðvikudag. Þegar við báðum um að flugferðin okkar yrði staðfest, þá sagði vinurinn að við skyldum drífa okkur út á skrifstofur Srilankan airlines og láta lagfæra farseðlana okkar til að við lentum ekki í vandræðum á flugvellinum. Við gegndum þessu og eftir smáhvíld heima var aftur lagt í hann, nú norður á Galletanga í Twin Tower center. Það var sko eins gott að það var búið að lagfæra passana okkar. Við vorum stoppuð á leiðinni á einni varðstöðinni og passarnir skoðaðir út í hörgul. Á áfangastað skelltum við okkur í biðröð sem var flokkuð eftir kyni. Á endanum voru klefar þar sem skoðað var í töskur og horft á okkur rannsakandi augnaráði. Síðan komum við inn í húsið og þar voru öryggisverðir og málmleitarhlið. Eftir það komumst við inn í húsið og á heimaslóðir flugfélagsins. Þar tók við enn eitt vesenið, starfsfólkið sá að við vorum bókuð 15. en farseðlarnir okkur einungis gildir 29. Enn eitt vesenið. Eftir þref og símhringingar til Íslands var ákveðið að við mundum koma aftur á fimmtudag til að fá nýja pappíra. Enn einn klukkutíminn í vesen og vafstur. Við vorum varla komin inn í enn einn tuktukinn fyrr en fór að rigna ótæpilega. En heim komumst við og gátum hvílt okkur örlítið áður en það var trítlað í mat. En við erum þó fegin að við lentum ekki í flugseðlaveseninu um þrjúleytið á aðfararnótt föstudags.
Drykkur dagsins er einn af uppáhalds drykkjum okkar á matstöðunum, lime and Soda. Safi úr hálfu eða heilu lime eftir því hvað það er stórt. Nokkrir ísmolar út í og fyllt upp með sódavatni. Sykrað eftir smekk með gervisykri eða sýrópi. Ekki nota sykurinn hér á Sri Lanka, hann er fullur af örsmáum maurum. Við notum yfirleitt 4 - 5 Canderelpillur. Mjög svalandi og styrkjandi eftir erfiða daga. Gin og tonic er svo á boðstólum eftir kvöldmat.
Ég læt fylgja mynd af tveimur Búddum til lukku.
2 Comments:
Skemmtið ykkur vel í Kandý, vonandi sé ég ykkur sem fyrst aftur því að maður er nú bara farin að sakna ykkar og Helgi er farinn að sjá Afa í öllum dökkhærðum grásprengdum mönnum.
Elska ykkur
Stína fína
Hlakka til að sjá ykkur í hádeginu á laugardag. Skyrpi á eftir ykkur í ferðalaginu heim.
Kveðja,
Þórhildur
Skrifa ummæli
<< Home