mánudagur, júní 11, 2007

Ayubowan...

Ayubowan er notað til að heilsast og kveðjast hér á Sri Lanka og þýðir að þér og þínum er óskað velferðar og friðar um ókomna tíma.

Við erum búin að breyta farmiðum þannig að flogið verður heim 15. júní n.k. tveimur vikum fyrr en áætlað var. Helgi er að ljúka því sem átti að vera hans verkefni hér. Það hefur verið vaxandi órói í samfélaginu. Hermönnum og varðstöðvum hefur fjölgað. Þetta verður langt ferðalag. Búið er að breyta næturfluginu okkar í dagflug vegna árásarhættu sem þýðir að við þurfum að bíða margar klukkustundir í París og fljúga heim með kvöldflugi. Við lendum í Keflavík einum til tveimur tímum eftir miðnætti og erum þá búin að vera á ferðinni í ríflega 30 klst. En við hlökkum til að hitta fjölskylduna og komast norður seinni hluta laugardags.

Þetta hefur verið ævintýralegt ferðalag. Við höfum að vísu ekki enn ferðast neitt um Sri Lanka. Áætlanir um slíkt frestuðust þar sem mér tókst að verða lasin í vikunni. En núna um helgina ákváðum við að skoða meira af Colombo. Nyrst í Colombo er Galle fort sem eru leifar af virkisveggjum Portúgala á stórri eyri. Þar hefur alla tíð verið miðstöð þeirra yfirvalda sem hafa stjórnað á hverjum tíma. Þar er líka stórt vatn, Beira vatn, með eyju sem er kölluð Slave Island. Þar geymdu Hollendingar afrísku þrælana sína áður en þeir voru seldir plantekrueigendum. Til að þrælarnir strykju síður var miklum fjölda krókódíla skellt í vatnið. Þessum krókódílum var svo komið fyrir kattarnef þegar Bretar tóku stjórn á nýlendunni. Þeir þurftu ekki afríska þræla til að rækta te, heldur fluttu þeir mikinn fjölda tamíla frá Indlandi. Tamílarnir kunnu terækt og voru góðir stjórnendur. Syðst í vatninu er undurfagurt Búddahof sem er kallað Gangaramaia. Það er byggt þannig að það virðist fljóta. Hinum megin á götunni er annað Búddahof miklu eldra. Mjög fallegt hof með fjölda af Búddastyttum og safn ýmissa fornra og verðmætra muna sem þeim hefur áskotnast á löngum tíma. Í forgarðinum var stór fíll með þær stærstu skögultennur sem ég hef séð. Síðan fór Tuktuk gæinn okkar með okkur til eðalsteinasala, en Sri Lanka er einn stærsti útflytjandi eðalsteina í heiminum. Þar hófust fimleg sölusamskipti. Eftir mikil kostatilboð og skoðun á safírum, rúbínum, tópösum og ég veit ekki hverju, versluðum við smávegis og forðuðum okkur. Eftir það lá leiðinn niður á Galle Face strönd en þar eru leifarnar af virkisveggjunum. Þar var mikill fjöldi fólks að frílista sig. Við spókuðum okkur svolítið en höfðum lítinn frið fyrir litlum tannlausum kalli, sem þóttist vera kennari fyrir heyrnardaufa. Hann spurði mikið og kjaftaði enn meira og varðist fimlega öllum tilraunum okkar til að sleppa frá honum. Að lokum ætluðum við að fara inn á Galle Face Hótel og fá okkur einn gráan á barnum. En við snerum við á miðri leið og ákváðum að fara heldur heim. Við skelltum okkur inn í Tuktuk og viti menn, sá heyrnardaufi mættur með möppu og bað um nafn okkar á blað fyrir skólann. Ég var svo græn að ég hélt að það væri nú í lagi að setja tvö skrýtin nöfn á blað en Helgi þakkaði pent og ýtti möppunni í burtu. Tuktuk gæinn gaf í og sagði okkur um leið að þetta væri götusvindlari. Hér tíðkast nefnilega að ganga um götur og reyna að fá bláeyga túrista til að styðja hin ýmsu góðgerðamálefni sem oftast eru svo leyst á næsta bar.

Við frískuðum svo upp á okkur og skelltum okkur á Gallery Café í kvöldmat.


Efsta myndin er af hofinu á vatninu, næsta er af Búddaaltari hofsins, síðan er mynd af fílnum skögultennta og svo Búdda í hofinu hans, síðast er mynd af mér og litla tannlausa kallinum sem "kennir heyrnarlausum börnum".

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Rosalega gaman að sjá þessar fínu myndir af Sri lanka og ég sé að mamma lítur vel út.

Það er nú gott samt að pabbi hafði vit á því að nöfnin ykkar kæmust ekki í hendur svindlara.

Sakna ykkar fullt, heyri í ykkur bráðum.

Stína fína

2:26 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home