Ævintýrið endar og nýtt tekur við...

Við byrjum á því að senda Birtunni okkar innilegar hamingjuóskir með afmælið 16 júní s.l. Hún er orðin átta ára og stór og falleg stelpa sem við erum stolt af. Í afmælisgjöf ætlar amman að sækja hana um mánaðamótin næstu til Kaupmannahafnar og bjóða henni að dvelja hjá okkur í júlímánuði. Lent verður á Akureyri þann 2. júlí n.k. Við hlökkum til að fá hana til okkar og vonum að við getum gert henni lífið skemmtilegt hér norðan heiða. Meðfylgjandi er mynd af henni að tala við afa á Sri Lanka.
Í dag er líka lengstur dagur og afmælið hennar Helgu ömmu minnar. Hún hefði orðið 104 ára í dag.
Við komum heim til Íslands á laugardagskvöld eftir tveggja sólarhringa útivist. Vegna þotuþreytu hafa undanfarnir dagar farið í að sofa og hvíla sig. Við lögðum af stað út á Bandaranaika flugvöll í Colombo kl. 2 aðfaranótt föstudags 15. júní eða kl. 21:30 þann 14. júní að íslenskum tíma. Það þýðir ekki annað en að vera tímanlega því afgreiðsla er sein bæði í innritun og hjá útlendingaeftirlitinu. Strax kom í ljós að flugi hafði verið seinkað frá kl. 6:15 til 7:40. Jæja við létum okkur hafa það. Versluðum smávegis, svöruðum einni ferðakönnun og fengum verðlaun fyrir, borðuðum morgunmat og fórum svo inn á VIP lounge og lúrðum þar til að tími var til að fara um borð í flugvélina. Þetta er í 4. skiptið sem við fljúgum með Srilankan Airlines og það verður að segjast að þeir eru með þá bestu þjónustu um borð sem við höfum kynnst. Við fengum heita þvottapoka til að þvo andlitið og hendurnar. Síðan var borin fram morgunmatur. Svo var dregið fyrir alla glugga, breytt teppi yfir sig og sofið eða horft á sjónvarpið næstu 5 klst. Þá voru allir vaktir með ávaxtasafa og heitum þvottapoka. Síðan var borin fram fordrykkur, hádegismatur og það er rétt að taka fram að við fengum að velja á milli þriggja rétta á matseðli bæði í morgun- og hádegismat. Flugvélin lenti síðan í París kl. 3 að þarlendum tíma. Eftir að hafa skráð okkur í transit, fórum við að leita að lounge en var bent á að við þyrftum að fara óraleið að skrifstofu flugfélagsins til að fá boðsmiða. Ekki nóg að vera með kortið! Við nenntum því ekki og fórum því í beint í gegnum öryggisskoðun og í landgöngusal. Skemmst er frá því að segja að Frakkar er miklu skárri en Englendingar í flugvallarmálum. Aðalfarangur okkar var tékkaður inn í Colombo beint til Íslands en við vorum með flugfreyjutöskur og poka með okkur. Engin vandræði, bara eðlilegt eftirlit. Nú tók við 7 klst bið eftir brottför til Íslands en hún var áætluð kl. 22:35 að frönskum tíma eða kl. 21:30 að íslenskum tíma. Sólarhring eftir að við fórum úr íbúðinni okkar í Colombo. En allt var á áætlun og við flugum heim og vorum komin á Hótel Borg um kl. 2 aðfararnótt laugardags og sofnuð örstuttu síðar. En það var sprottið á fætur kl. 9, endurraðað í töskur, farið í sturtu og síðan morgunmat. Um ellefuleytið kom Helga systir síðan að sækja okkur og eftir viðkomu í ríkinu og hjá tengdó hittumst við fjölskyldan hjá Þórdísi systur í Kópavoginum. Það var óskaplega gaman að hitta alla, geta eytt dagstund með þeim og miðlað smávegis af ferðasögunni. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir frábærar móttökur. Við áttum síðan bókað flug norður kl. 17:30 og þar biðu Jón og Gerður eftir okkur. Þar með hafði ferðalagið tekið 46 klst. Við borðuðum saman og nutum þess að hittast aftur eftir langt hlé. Um miðnættið svo skriðið upp í rúm og við misstum meðvitund. Það var aldeilis frábært að koma heim. En mér finnst frekar kalt eftir hlýjuna á Sri Lanka.
Nú er framundan að segja frá síðustu dögunum okkar þar og reyna að sýna ykkur eitthvað af öllum þeim myndum sem voru teknar þar. Það bíður helgarinnar.