Aftur á Spáni...

Við erum komin aftur til Spánar eftir frábæra heimsókn til Íslands. Skítakuldi sunnanlands og kafsnjór norðanlands. Við misstum svo sannarlega ekki af vetrinum heima. Kærar þakkir fyrir frábærar móttökur svo ekki sé talað um skemmtilega fermingarveislu á laugardeginum. Okkur hlýnaði um hjartarætur að hitta svona mikið af ættingjunum.
En Spánn tók á móti okkur með 24°C hita og stórum blómabreiðum. Afspyrnuljót tré við endann á götunni eru allt í einu allaufguð og komnar þokkalega stórar fíkjur á þau. Sum sé ekki tré eins og í skóginum hennar Mjallhvítar heldur fíkjutré. Hér var fjöldi fugla í trjánum, en Maríuerlurnar eru farnar af stað, sennilega til Íslands, og svölurnar eru horfnar líka. Hér eru eftir pínulitlar finkur sem halda stóra fundi og lenda reglulega í gríðarlegum rifrildum án sýnilegrar ástæðu. Þess á milli spjalla þær ljúflega saman og éta geitunga og döðlur með góðri lyst. Hundtíkurnar í þarnæsta húsi eru í vandræðum vegna katta sem sitja meinstríðnir upp á grindverki eða stiga í næsta húsi. Markmið kattanna er að láta tíkurnar gelta þar til að þær eru orðnar hásar og nágrannarnir brjálaðir.
Í dag ætla ég að miðla til ykkar uppskrift frá Provence í Frakklandi. Vínið gefur sósunni mikið og gott bragð og uppskriftin er fljótleg.
Blogguppskriftin
Engiferrækjurnar hennar Maríu
16-20 stórar hráar rækjur
2 msk ólífuolía
4 msk rifinn ferskur engifer
7 væn hvítlauksrif, skorin langsum og sneidd
Gott sjávarsalt eftir smekk
500 ml eða hálf flaska af þurru hvítvíni
4 msk af ferskri basilíku sneiddri í þunna strimla
Soðin basmati hrísgrjón
Hitið olíu á steikarpönnu sem er nógu stór til að rækjurnar geti allar verið á pönnunni í einu. Setjið 3 msk af engifer, allan hvítlaukinn og klípu af salti á pönnuna. Mallið við meðalháan hita þar til hvítlaukurinn er rétt að byrja að brúnast eða 2-3 mín. Hellið víninu út í og sjóðið niður þar til helmingur er eftir af soðinu eða u.þ.b. 8 mín. Raðið rækjunum ofan á og sjóðið í 4 mín eða þar til þær eru orðnar bleikar í gegn en ágætt er að snúa þeim öðru hvoru. Setjið hrísgrjón í skálar fyrir hvern og einn, setjið rækjurnar ofan á ásamt svolitlu af sósu. Dreifið afganginum af engifernum og basilíkunni yfir. Drekkið gott hvítvín með. Dugar fyrir fjóra í forrétt eða tvo sem aðalréttur.
2 Comments:
Þökkum kærlega fyrir félagsskapinn í Íslandsheimsókninni og þökkum fyrir ungana.
Kveðjur úr Kópavogi!
Þórdís og co.
Ef þið munið, þá sagði ég ykkur frá skrítnu illgresi sem er hér um allt og lítur út eins og feitir grænir puttar. Svona litu þeir út þegar við komum til Spánar. Áður en við fórum þá var komið eitt og eitt blóm. Flottir!!!!
Skrifa ummæli
<< Home