Óboðnir gestir...

Þegar við komum hér um jólin var til mikið og gott úrval af skordýraeitri. Meðal annars stór brúsi af eitri sérstaklega ætluðu til að vinna bug á kakkalökkum eða la cucaracha eins og þeir heita hér á Spáni. Brúsinn var næstum tómur svo við áttum von á að kvikindin myndu sýna sig með vorinu. Við höfum þrifið allt hátt og lágt einu sinni í viku og notað sérstakt Ajax Repel á gólfin sem á að halda öllu skordýrafríu. Enda höfum við verið blessunarlega laus við nærveru þeirra innandyra. En aðfararnótt skírdagsins var dýrðin búin. Sem við lágum og horfðum á imbann sé ég allt í einu stóran svartan hlunk koma spásserandi undan eldavélinni. Helgi brást hratt og snöfurmannlega við og sótti stóra græna flugnaspaðann okkar og drap kakkalakkann. Örstuttu seinna kemur litla sexfætta konan hans labbandi og varð að annarri klessu. Eftir töluverða stund kemur einn lítill trítlandi og hlaut sömu örlög. Daginn eftir var farið í Páskaþrifin degi á undan áætlun. Sópar, ryksuga og tuskur ásamt mismunandi eitruðum hreinsiefnum voru nýtt til hins ýtrasta. Allar smugur voru hreinsaðar og eitri sprautað á þá staði sem ráðlagt var. Síðari hluta dagsins stóðum við sigrihrósandi og horfðum yfir vígvöllinn. Næstu þrír dagar liðu og okkur leið bara vel í tandurhreinu húsinu. Aðfararnótt mánudags vaknaði frúin um tvöleytið við árás gigtargemlingsins. Þar sem verkjalyfin eru geymd í eldhúsinu var sjálfgert að fálma sig fram. Um leið og ljós kviknaði hlupu tveir stórir svartir blettir af stað. Húsbóndinn hrökk upp af værum blundi og stökk fram til varnar kerlu sinni. Um leið hlupu nokkrir kakkalakkar í viðbót með veggjum. Græni spaðinn gegndi sínu hlutverki með sæmd. Sex lágu í valnum. Eftir nokkrar vangaveltur áttuðum við okkur á því að flestir voru í nánd við eldavélina þrátt fyrir að hún hefði verið rifin fram og þrifin hátt og lágt. Stóri brúsinn var því gripin og sprautað í allar glufur á vélinni. Daginn eftir lágu tveir dauðir við vélina. Eiturbirgðirnar voru endurnýjaðar snarlega og nýjum skammti dreift á alla áhættustaði. Nú eru liðnir nokkrir dagar og við bíðum með öndina í hálsinum eftir næstu kakkalakkafjölskyldu!!!! Það er ekki við hæfi að setja inn uppskrift í dag, þó að við höfum sannfrétt að einhverjar þjóðir djúpsteiki kvikindin eða hjúpi í súkkulaði.
4 Comments:
Oj, oj, oj!
Eða "Oj bala" eins og Hulda Ólafía segir.
Bara ekki flytja neina svona fjölskyldu með ykkur heim!
Eini staðurinn á landinu sem kakkalakka lifa góðu lífi er upp á velli! Það er alveg ótrúlegt þeir virðast alltaf drepast hinum megin við girðinguna!Skordýrafræðingar eru enþá að klóra sér í hausnum yfir þessu! Þeir að hallast á loftkælinguna,,þeir eru víst með AC en við ekki! Svo það er allt í lagi ef einn skyldi laumast í töskuna hjá þér!Einhver laug því að mér að hársprey virkar ágætlega ef skordýraeitrið er búið!
Ekki líst okkur á þessi kvikindi, við sáum fullt af kakkalökkum í glerkössum í dýragarðinum um daginn og við Birta hrópuðum báðar upp yfir okkur "Oj bara".
Annars senda Birta og bóluhelgi svaka knús til ykkar
Getur þú nokkuð skrifað annan pistill,,fyrsta sem maður sér þegar litið er inn á þessa síðu er þessi djöfunsins padda!
kv
hulda
Skrifa ummæli
<< Home