Í lok Semana Santa...

Gleðilega páska kæru vinir og ættingjar nær og fjær. Hér er dýrðlegur páskadagsmorgun, sólin skín, 23° hiti og bærinn er fullur af útlenskum skríl!!! Hér er allt í mismunandi stórum umferðateppum, búðirnar eru yfirfullar og strandirnar líka. Við látum lítið á okkur bera. Förum og verslum í úthverfum og rétt kíkjum í bæinn til að skoða stóru gylltu flekana með jesústyttunum sem múgur og margmenni ber síðan um götur sér til sáluhjálpar og syndayfirbótar. Hjá þeim alsyndugustu er sveif á flekanum og öðru hvoru kemur svartklædd vera a la Ku Klux Klan og togar í sveifina og þá lyftist flekinn og skellur á öxlum syndaranna. Þeir segja að þeir sem beri þyngstu byrðarnar fái mestu fyrirgefninguna. Einn alstærsti flekinn er hér í Torrevieja og vegur 1500 kg. Alþjóðlega bræðralagið ber hann um götur og þarf 110 manns til að lyfta flykkinu. Stærsti hópur bræðralagsins er breskur og síðan eiga aðrar þjóðir sína fulltrúa. Aðeins 20% þeirra eru kaþólikkar. En í dag eru allir himinglaðir vegna páskaupprisunnar og nú verður eldaður dýrindis matur í öllum eldhúsum og allt tiltækt notað sér skemmtunar. Enda himnafaðirinn búinn að fyrirgefa syndir í tonnatali. Við höldum okkur heima í litla húsagarðinum okkar og ætlum að vígja grillið í dag. Það er að vísu kolryðgað og ljótt eftir veturinn en grindin er hrein og kolunum er ábyggilega sama um ryðið. Við ætlum að borða nautaentrecote og ég ætla líka að gera tilraun til að grilla artiskokkur. Ég fékk heilt kíló af þeim fyrir 1 evru. Kannski eru þær óætar en smá alioli bjargar áreiðanlega því sem hægt er. Ég ætla að gefa ykkur uppskrift að spænskri útgáfu.
Blogguppskriftin
Alioli
5 hvítlauksrif skræld
150 ml góð olífuolía
Gamla aðferðin: Merjið hvítlaukslaufin í mortéli með ¼ tsk af grófu salti. Þegar þau eru orðin að mauki, bætið þá olíunni hægt og hægt í þar til blandan er þykk og góð. Þeir sem er óöruggir með útkomuna, geta bætt við eggjarauðu og þá verður blandan líkari majónesi. Smádropi af sítrónusafa skerpir bragðið. Ef þú ert að flýta þér hentu þá öllu í blandarann með smásneið af soðinni kartöflu eða brauðskorpu sem hefur verið bleytt og er kreist þurr. Það kemur í veg fyrir að blandan skilji sig. Berið fram sem ídýfu með brauði, léttsoðnu grænmeti, hráu grænmeti eða notið með grilluðum mat allt eftir því sem ykkur dettur í hug. Spánverjunum finnst gott að blanda smá alioli í tærar súpur, þá oftast fiskisúpur. Það er þá gert við borðið eftir smekk hvers og eins. Ef hvítlauksrifin eru ekki fersk eða farin að spíra, þá benda franskar uppskriftir á að skera hvítlauksrifin langsum í sundur og taka úr þeim grænu spírurnar. Þá verður hvítlaukurinn ekki eins bitur. Frakkarnir nota alltaf eggjarauður og þá eina á hverja 100 til 150 ml af olíu.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home