miðvikudagur, apríl 12, 2006

Loftkælingakvef...


Á laugardaginn ókum við sem leið lá norður í land og skoðuðum nokkra bæi. Byrjuðum í Almoradí, síðan til Crevillente. Þar stoppuðum við og skoðuðum falleg torg og slatta af markaðstjöldum með alls konar litríku drasli. Þaðan var farið til St Pola, þar er álíka saltframleiðsla og í Torrevieje. Svo enduðum við í Guardamar sem er gríðarlega vinsæll ferðamannastaður. Þar stoppuðum við á ströndinni gengum svolítið og horfðum á hálfberrassað og afvelta lið sleikja sólina og bjórflöskur. Við settumst á barinn og fengum okkur smárétti og brauð með alioli. Alioli er hvítlauksmajónes/sósa sem er borið fram með brauði. Algjört sælgæti. Alla leiðina var loftkælingin á og í lok ferðar var okkur hálfkalt þrátt fyrir 26° útihita. Á sunnudag hélt Helgi að hann væri með grasofnæmi en þegar leið á daginn rann upp fyrir okkur ljós. Við vorum kvefuð!! Nú er aðeins að brá af okkur en við erum frekar lufsuleg.
Fyrir helgi fórum við á markaðinn og heimsóttum vin okkar slátrarann. Sá sem selur okkur uxakjötið. Við keyptum meira af því og einnig svínakótelettur iberico bellota. Flottar, dökkar og vel fitusprengdar kótelettur. Við kryddlögðum þær í mildu kryddi og steiktum síðan í fyrradag. Ég á ekki til orð til að lýsa þessu kjöti. Það bókstaflega bráðnar í munninum og bragðið er engu líkt. Það var hverrar evru virði. Kryddunin er ættuð frá Rioja og er notuð á svínafillet (úrbeinaðar svínakótelettur). Þar eru steiktar eða grillaðar kótelettur skornar í helminga og settar í brauð (baguette/bocadilla) og er vinsæll skyndibiti þar um slóðir. Mælt er með að kryddleggja sæmilegt magn af þeim og frysta það sem ekki er eldað. Sneiðarnar eru þunnar svo ekki þarf að þíða þær fyrir notkun og því hægt að grípa til þeirra með litlum fyrirvara.

Blogguppskriftin

Lomo en adobo
(paprikulegið svínafillet)

350g svínafillet
2 msk mild paprika
½ tsk oregano
½ tsk timian
1 lárviðarlauf
1 hvítlauksrif skrælt og marið með 1 tsk salts
1 msk olífuolía

Blandið kryddinu saman við olíuna og nuddið vel inn í kjötið. Pakkið því svo inn í klessuplast eða álpappír. Setjið í ísskápinn og látið marinerast alla vega í sólarhring. Kjötið þolir allt að viku í ísskáp og það batnar með degi hverjum. Við eldun er stykkið tekið og skorið í þunnar sneiðar, ca kótelettuþykkt eða kóteletturnar teknar í sundur. Þurrkum af kjötinu og skellum því á grill eða pönnu í 3 – 4 mín, snúum því einu sinni. Sem tapa eða forréttur er hver sneið sett á litla brauðsneið (baguette) og sítrónusneið með. Dugar fyrir 4-6 sem tapa eða fyrir tvo sem aðalréttur. Við steiktum kóteletturnar með beini og settum síðan matreiðslurjóma á pönnuna og leyfðum kótelettunum að malla þar í 5 mín í viðbót. Svínvirkaði með léttu sítrónublönduðu kúskús!!!

6 Comments:

Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Ég er alltaf á leiðinni að prófa litlu matvinnsluvélina mína og búa til Aioli. Kannski athuga ég það bara um helgina eftir þessa inspíreruðu lýsingu.
Páskakveðjur úr Kópavoginum

6:15 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hallo there dear sister, how are you. I like your recipes can you send me some genuine spicy Spanish classics. Do you like your stay in Spain? How is the family, blah, blah, blah. How long are you staying in Spain?

Your Only Brother.

4:28 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ertu ekki að grínast? Kann Gvendur að skrifa skilaboð? Hann var örugglega búin að fá sér frekar mikið í littlu tána til þess að skrifa þetta?

6:59 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hulda, vertu góð við frænda þinn. ;-)

8:10 e.h.  
Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Blessaður Gvendur og gaman að sjá þig á þessum vígstöðvum.
Gleðilega páska!
Minnsta systir!

3:32 f.h.  
Blogger Auður Eir Guðmundsdóttir said...

Elsku bróðir; Velkominn í samband. Ég get ekki líst því hversu ánægjulegt það er að heyra í þér. Okkur hlýnaði svo sannarlega um hjartarætur. Ég skal sko sjá til þess að þú fáir saffran og sæta papriku eins og hitt liðið. Spánverjinn kallar þetta piemento dulce. Við óskum ykkur gleðilegra páska og sendum knús og kossa áleiðis til Kanada.

11:46 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home