Gleðilegt sumar öllsömul...

Nú fer í hönd löng helgi hér á Spáni, Feria de abril. Þá æðir fjöldi fólks af stað í lautartúra, fjölskylduveislur, strandferðir og til ýmissa hátíðahalda. Sumt kvenfólk og litlar stúlkur sjást í doppóttum flamenco klæðnaði með kamba í hári og pífur á ermum og pilsi. Hátíðahöld eru í flestum bæjum og þorpum. Paellur er eldaðar, borðaðar og ómældir lítrar af rauðvíni renna ofan í mannskapinn. Við höfum séð að skrúðgöngur eru vinsælar skemmtanir við flest tækifæri. Í Valencia voru um síðustu helgi miklar skrúðgöngur til að minnast þess þegar Spánverjum tókst að reka Mára af sléttum Spánar fyrir fullt og allt eftir 700 ára valdatíma þeirra. Þá klæðast menn í fimmtándu aldar búninga. Sumir leika bjarta og fagra Spánverja og aðrir dökka og ljóta útlendinga. Svo er efnt til bardaga en að sjálfsögðu allt í góðu. Síðan hópast allir saman og borða rétt sem eru kallaðir „ Márar og Kristnir“. Þetta er hrísgrjónahringur með svörtum baunum í miðjunni. Sigurinn er í höfn, kristnir hafa umkringt márana. Með þessu er borin fram fersk tómatsósa, því vígvellir voru alltaf blóðugir!! Um næstu helgi verða hátíðahöld í Torrevieja og eru allir erlendir gestir boðnir sérstaklega velkomnir og heimamenn hvattir til að blanda geði við þá. Við skiljum þetta ekki alveg þar sem heimamenn eru einstaklega ljúfir í viðmóti og hjálplegir. Það þarf frekar að vara sig á aðkomupakki frá hinum ýmsu löndum. Svo sem glæpagengjum frá austur Evrópu eða fjársvikaliði frá norður Evrópu. Hér eru fréttir í hverri viku af afhjúpun slíks glæpahyskis. Spánverjarnir eru aðallega að drepa sig í bílslysum eða berja kellingar og krakka til bana og að sjálfsögðu er hafið þjóðarátak til að stemma stigu við þessum ósóma. Nú er farið styttast í veru okkar hér á Spáni. Við erum farin að hlakka til því hér er farið hitna töluvert og því kominn tími til að halda á svalari slóðir. Til hátíðabrigða skulum við setja inn uppskrift af heilsteiktum svínahrygg. Við notuðum að sjálfsögðu kjöt af iberico bellota fyrst við erum stödd hér um slóðir, algjört æði!!!
Blogguppskriftin
Kryddleginn svínahryggur
Hryggur með 3-4 rifjum án pöru en helst með þunnu fitulagi (uþb 600 gr)
1 tsk esdragon
½ tsk rósmarín
½ tsk timian
1 tsk af rifnum sítrónuberki
3-4 hvítlauksrif skræld og sneidd í þunnar sneiðar
3 msk ólífuolía extra vergine
Gróft salt og pipar
Nuddið hrygginn vel með smávegis af olíunni, saltið vel og piprið. Verið ekki smeyk við að höndla kjötið. Gott nudd meyrir það vel. Blandið afgang af olíunni við kryddið og hvítlaukinn. Ef ferskt krydd er notað, þá breytast tsk í msk. Nuddið þessu vel inn í hrygginn. Pakkað inn í plast eða álpappír og leyft að hvíla í ísskápnum í 6 til 48 klst. Við eldun er kryddið skafið af kjötinu. Steikt í miðjum ofni við 220°C þar til hiti í miðjum vöðva fer yfir 70°C. Sennilega um 30 til 40 mín. Takið þá kjötið úr ofninum, setjið álpappír lauslega yfir og látið standa í 15 mín. Ágætt er að hafa gott kartöflugratín með. Dugar vel fyrir 2 og jafnvel fleiri.