föstudagur, maí 12, 2006

Lok Spánardvalar ...


Í dag fórum við á föstudagsmarkaðinn í Torrevieja. Við héldum lengst af að markaðurinn væri niður við höfn, því þar eru sölutjöld alla daga. En þetta var allt annað. Markaðurinn náði yfir margar götur, tvö torg og eitt óbyggt svæði. Hér eru bændurnir með uppskeruna sína, slátrarinn með afurðir sínar, blómakonur, spánskt sælgæti, föt og alls konar glingur. Við stóðumst ekki mátið og keyptum nýjar kartöflur, lauk og smá nammi. Helgi fékk sér væn leðurbelti hjá súdönskum herramanni. Ótrúlega fallegt og fíngert fólk frá Súdan. En nú líður að lokum Spánardvalar okkar. Í fyrramálið leggjum við af stað til Alicante, en þaðan verður flogið beint til Keflavíkur. Í Keflavík taka Jón, Gerður og Rebekka á móti okkur um sexleytið og við keyrum norður annað kvöld. Við munum án efa sakna hlýjunnar, fólksins og margs í umhverfinu hér á Spáni. Við munum þó ekki sakna skordýranna. Þessir fimm mánuðir hafa liðið hratt og okkur hefur liðið mjög vel hér. Í dag hljóðar uppskriftin á þessa leið.

Blogguppskriftin

Hátíðakvöldverður a La Casa de Xu

Helgi settur í bað og klæddur í sparifötin. Frúin snyrt til og gerð hugguleg í framan. Farið út í bíl og ekið út að næsta hringtorgi. Bílnum lagt á bílastæði La Casa de Xu. Hjónunum vel fagnað af Kínverjum staðarins enda ekki fyrsta heimsókn þeirra. Matseðillinn hljóðar upp á matreiðslu frá Kanton, mjög mildur og bragðgóður matur. Forréttur var gufusoðið Dim Sum fyrir frúna og blandað góðgæti fyrir húsbóndann. Aðalrétturinn var stökksteikt andalæri fyrir mig og steikt nautakjöt að hætti Kantonbúa fyrir Helga. Matarins notið með einni flösku af Pinto rauðvíni frá La Mancha. Með reikningnum var borið fram eplavín og lótussnafs í litlum kínverskum dónastaupum. Við flissum alltaf þegar við sjáum myndirnar birtast í botninum, en fæstir gestanna fatta brandarann. Þeir sveifla í sig snafsinum og rjúka í burtu. En við kvöddum Kínverjana okkar með virktum og handabandi og í staðinn fékk ég lítið staup með mynd af huggulegum Kínverja sem sýnir stinna líkamsparta þegar hann blotnar.

Við hjónin kveðjum Spán og Spánverja með brosi og þakklæti fyrir að hafa gert dvölina svona góða með hjálpsemi, góðu skapi og ótrúlegu langlundargeði gagnvart slakri spænskukunnáttu okkar. Verið þið sæl að sinni. Við tekur daglega lífið norðan heiða.







3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sæl og blessuð
Tíminn líður ansi fljótt. Það er eins og það hafi verið í gær sem þið voruð að leggja af stað:) Góða ferð heim á leið og vonandi sé ég ykkur sem fyrst hress og kát:)
Kveðja,
Guðrún Björk

4:31 e.h.  
Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Hlökkum til að fá ykkur til Íslands.
Breytist þetta ekki bara í Akureyrablogg í staðinn?
Góða ferð,
Þórdís

7:34 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Það verður nú gott að fá ykkur aftur til Íslands þó að ég sé ekki þar ennþá. Þetta þýðir bara það að það styttist í það að ég komi til ykkar í ágúst.

Það er verst að ekki var hægt að redda dótturinni svona staupi sem sýnir stinna líkamsparta á kínverjum.

Bestu kveðjur og góða ferð heim.
Stína fína og grísirnir tveir

5:58 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home