sunnudagur, maí 07, 2006

Í hátíðarskapi ...


Nú er hátíð sem er kölluð Feria de Mayo de Torrevieja. Við fórum í bæinn á föstudagskvöld og fengum okkur að borða á litlum stað rétt fyrir ofan höfnina.

Á meðan fylgdumst við með fullt af fólki sem var að labba niður að höfn. Óteljandi dömur á öllum aldri í skrautlegum flamenco kjólum. Inn á milli flottir gæjar í þjóðbúningum. Eftir matinn spásseruðum við í sömu átt og hinir. Það er búið að setja upp tívolí fyrir börnin og óteljandi veitingatjöld. Þurrkuð svínslæri hanga í loftum. Lyktin af djúpsteiktum “churros” liggur yfir öllu. Það eru spánskar kökulengjur sem eru steiktar eins og kleinur. Stórar tunnur af bjór og víni eru svo til að slökkva þorstann. Glæsileg Flamencosýning var í gangi, aðallega misstórir hópar af stelpum. Í hverju veitingatjaldi er músík. Þar dansaði fólk á öllum aldri Flamenco á litlum pöllum.

Á laugardagsmorgninum mættu glæsilegir hestar á svæðið ásamt knöpum sínum. Síðan var skrúðganga. Með stuttu millibili stönsuðu sumir hestanna, stöppuðu með aftur­fótunum og mannfjöldinn klappaði í takt. Lífsnautnirnar héldu áfram á hátíða­svæðinu, leikið sér, borðað og dansað af hjartans lyst. Í gærkvöldi var nautaat en við mættum ekki. Okkur finnst hræðilegt að sjá lífið murkað úr þessum stoltu dýrum. En kjötið af þessum nautum var áður fyrr oft eina nautakjötið sem bauðst fátækum. Af því að kjötið var seigt þá var það lagað og drýgt með ýmsum hætti. Gott dæmi um það er eftirfarandi uppskrift að kjötbollum í sósu.

Blogguppskriftin

Albondigas en salsa

Kjötbollur(albondigas):
450g hakkað kjöt, nauta-, kálfa- eða lamba-.
225g hakkað svínakjöt
1 egg þeytt með gaffli
4 msk kúfaðar af ferskri brauðmylsnu
1 hvítlauksrif skrælt og saxað fínt
½ stór mildur laukur rifinn eða saxaður fínt
1 msk söxuð steinselja
1 tsk malað kumin
1 msk ferskt koriander
Salt og pipar

Sósan:
2-3 msk olífuolía
1 rauð paprika fræhreinsuð og fínsöxuð
1 stór mildur laukur skorin í tvennt, síðan sneiddur langsum (litlir þunnir hálfmánar)
1 hvítlauksrif skrælt og fínsaxað
1 kg af þroskuðum tómötum flysjuðum og söxuðum eða niðursoðnir
4 msk þurrt sherry eða hvítvín
1-2 kanelstangir
Sykur, salt

Blandið vel saman öllu innihaldi í bollurnar. Hafið saltað og piprað hveiti á disk og skál með volgu vatni við hliðina á ykkur. Búið til litlar (bitastórar) bollur með blautum höndum og veltið þeim léttilega upp úr hveiti. Hitið 2-3 msk af olíu á pönnu og steikið bollurnar á öllum hlið þar til þær eru stinnar viðkomu. Á meðan er sósan búin til. Paprika, laukur og hvítlaukur látin malla við vægan hita þar til mjúkt. Ekki láta þetta brúnast. Bætið við tómötum, víni og kanel, kryddið með salti og sykri eftir smekk, lækkið hitann þegar sýður og látið malla í 20 mín. Bætið þá bollunum í, hitið aftur að suðu og látið malla þar til allt er orðið mjúkt í 20-25 mín í viðbót. Borið fram með saffran hrísgrjónum eða frönskum sem hafa verið steiktar í ólífuolíu. Líka gott sem tapas með góðu brauði og víni.

2 Comments:

Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

"Feria de Mayo de Torrevieja"
Er það majónesfríið í Torrevieja?

Bara smá grín á mánudegi.
Þórdís

4:41 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Flottar myndir, mér líst vel á þessa flottu flamengó kjóla, Birta yrði nú voða sæt í einum svona, hint hint.....

Annars bara sumarkveðjur hér úr 25 stiga hita sem brast á bara allt í einu og við náðum ekki að venjast veðrinu áður en það kom.

Elskum ykkur fullt og sendum ykkur kossa..
Kristín og gríslingarnir

9:57 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home