Það er stór dagur í dag...

Í dag, 24. maí, er einkadóttir okkar þrítug. Við sendum henni hjartanlegar hamingjuóskir og vonum að hún eigi góðan dag með fjölskyldu sinni. Frænkur hennar eru á leið til Köben til að halda upp á þennan merkisáfanga með henni. Það er varla að hægt sé að trúa því að tíminn hafi liðið svona hratt. Það er svo stutt síðan að hún var bara lítill síbrosandi grallari en nú er hún ábyrg ung kona sem við erum óskaplega stolt af. Á þessum degi fyrir þrjátíu árum var skítkalt úti eins og er í dag. Þegar ég var svæfð fyrir keisaraskurðinn var lítill gróður á trjánum og nöturlegt út að líta, en þremur dögum seinna vaknaði ég og fékk að sjá dóttur mína. Lítil dama með ljóst hárið í eins og burstaklippingu á höfðinu. Um leið og ég fékk hana í fangið var mér litið út um gluggann. Sólin skein og allt var að grænka. Það var eins og veröldin hefði vaknað með mér og litla krílinu okkar sem var komið í heiminn. Við pabbi hennar, Jón, Gerður og annað skyldulið munum vera með hugann hjá henni í dag. Í tilefni dagsins látum við fylgja uppskrift að afmælisköku fjölskyldunnar, Dimmalimm.
Blogguppskriftin
Dimmalimm
1 1/3 bolli hveiti
1 ½ tsk lyftiduft
½ til 1 tsk salt
½ tsk sódaduft
1 ¼ bolli sykur
Allt þetta er sigtað saman í skál.
1/3 bolli smjörlíki
¾ bolli súrmjólk
Bætt í og hrært í 2 mín.
2 egg
60 g dökkt súkkulaði brætt og kælt
1 tsk vanilludropar
Bætt í og hrært í 2 mín. Hellt í smurt og hveitistráð form og bakað við 180°C í 30 – 35 mín. Má alveg falla aðeins.
Krem
2 ½ bolli flórsykur, ¼ bolli kakó, 1/8 tsk salt sigtað saman í skál. Bætt í 1/3 bolli smjör, 3 msk heitur rjómi, 1 eggjarauða, 1 tsk vanilludropar og allt hrært í 2 mín eða þar til kremið lýsist aðeins. Smurt utan á kökuna þegar hún er orðin köld.