mánudagur, mars 13, 2006

Fálmað eftir spottum...


Jæja kæru ættingjar og vinir. Nú er víst búið að sleppa okkur í loftið. Kristín tók af okkur ómakið með því að auglýsa þetta á síðunni sinni. Við höfum verið að fikta okkur áfram með óstyrkum fingrum og ekki fundist þetta nógu gott. En við látum gossa. Í krækjunum okkar er síða Sigga Hall þeirra spánverja. Hann heitir José Andrés og er með kokkaþátt á öllum virkum dögum. Hann notar ógrynnin öll af ólífuolíu og hvítlauk, en er mjög skemmtilegur ef öllum málæðinu hans er sleppt. Þátturinn heitir "Vamos a cocinar con José Andrés" eða Komum að elda með Jóa Andrésar.
Annars hefur síðasta vika verið í volgara lagi, svo heitt að við erum að hugsa um að skipta út vetrarsængum (2 cm á þykkt) fyrir sumarsængur (1 cm á þykkt). Helgi er orðinn mjög brúnn í framan og á handleggjum. Ég held að ég hafi aldrei séð hann almennilega sólbrúnan fyrr. Ég er bara svona eins og venjulega, vinnukonubrún.
Við fengum létt taugaáfall í gær. Við höfum verið að berjast við pop up glugga með klámfengnum kvendum undanfarnar vikur. Ég lenti inn á þessum ósóma þegar ég var að skoða ýmsa ferðalinka eitt kvöldið. Daginn eftir var komið ikon á síðuna okkar og eftir heiðarlega tilraun til að eyða því byrjuðu pjásurnar að birtast. Einnig fóru ýmis önnur skrýtin tilvik að angra okkur. Um helgina gekk síðan illa að komast inn í tölvuna og eftir einhverjar lagfæringar Jóns og Helga kom í ljós að kominn var Trójuhestur í tölvuna og í honum voru faldar skipanir um að hringja í hin og þessi símanúmer á sóðaslóðum og eingöngu "high cost" númer. Það var erfitt að bíða þangað til í dag og fá upplýsingar frá símafyrirtækinu að fyrirætlun tölvuþrjóta hafði ekki heppnast varðandi óumbeðnar símhringingar. Við losnum samt alls ekki við pjásurnar. Þær vinkonurnar spretta upp á skjáinn í hvert skipti sem við förum inn á moggann.

Við ætlum að enda þennan pistil á því að óska mági okkar og svila, Stefáni, innilega til hamingju með afmælið í dag og vonum að Helga Kristín kyssi hann vel og vendilega í tilefni dagsins og gefi honum eitthvað gott að borða.

Blogguppskriftin

Heilsteiktur vormakríll með súrum vínberjum og saffron salsa.
4 feitir makrílar verða að vera glænýir (líka gott með silungi eða lax)
Salt
4 msk maímjöl eða hveiti, blandið alla vega pipar í.
Svínafeiti eða olífuolía til steikingar

Salsa:
1 mildur laukur (t.d. hvítur salatlaukur alls ekki venjulegur matarlaukur) fíntsaxaður
2 hvítlauksrif skræld og söxuð
1 rauð paprika fræhreinsuð og söxuð
3 msk vínedik eða annað milt edik og smásalt (enn betra hvítt balsamedik)
½ tsk saffranþræðir
6 msk góð olífuolía
1 msk græn óþroskuð súr vínber eða handfylli af sætum skornum í tvennt eða fernt.

Búið fyrst til salsa. Blandið lauk, hvítlauk og papriku saman við edikið og smásalt og leyfið þessu að marinerast meðan fiskurinn er steiktur. Ristið saffranið örstutt á pönnu þar til það dökknar, ekki brenna það. Myljið það niður og bætið í salsað. Blandið olífuolíunni og vínberjunum við. Sætum eða súrum hvort heldur er til.
Hreinsið makrílinn, látið hann vera aðeins rakan, það er allt í lagi að skera nokkrar línur í hliðarnar á fiskinu al a Jamie Oliver, saltið utan og innan og veltið síðan fiskinum vel upp úr maísmjöli eða hveiti. Hitið olíu/feiti á pönnu og steikið fiskinn við meðalhita, snúið honum einu sinni, 4-6 mín á hlið eftir stærð fisksins. Þar til holdið er stinnt! Berið fram með salsanu og njótið.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ekki er annað hægt að segja að þú sért góður penni. Hlakka til að heyra meira frá þér.
Kv.
Þórhildur

11:37 e.h.  
Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Þar til holdið er stinnt?

Ertu örugglega bara að tala um fisk?

12:14 e.h.  
Blogger Auður Eir Guðmundsdóttir said...

En ekki hvað....???

3:50 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home