fimmtudagur, mars 16, 2006

Sól, sól skín á mig...


Þegar ég vaknaði í fyrradag var gigtargemlingurinn mættur og verulega úrillur að þessu sinni. Eftir hafa hnoðast á mér og hoppað jafnfætis á mér megnið af deginum var hann orðinn þreyttur og dró sig í hlé aldrei þessu vant. Skildi mig eftir alveg marflata. Venjulega ólátast hann í 2-3 daga. Í dag sá ég aftur til sólar. Heldur betur fegin að heimsóknin væri svona stutt.
Vissuð þið að það eru til sérstök svín hér á Spáni? Nú orðið eru þau hvergi til nema hér á Iberíuskaganum enda eru þau kölluð Iberíusvín. Þau ganga laus og lifa helst ekki á neinu öðru en eikarakörnum. Ef það tekst er kjötið af þeim kallað Ibericó bellota og er eitt það dýrasta og fínasta sem hægt er að kaupa hér til matar. Svínin eru svört að lit og með svartar klaufir og því gjarnan kölluð “pata negra” eða svartar lappir. Þetta er til aðgreiningar frá venjulegum svínum sem geta verið svört en eru ekki með svartar klaufir. Kjötið af þeim er dökkt og mjög fitusprengt, afbragðsgott á bragðið og ekkert líkt venjulegu svínakjöti.
En það er ekki hægt að vera hér á strönd Miðjarðarhafsins og tala ekki um fisk. Hér eru óteljandi tegundir af fiski, skelfiski, krabbadýrum og öðrum ókennilegum kvikindum eins og mismunandi sortum af smokkfiski og kolkrabba. Við höfum ekki verið mjög dugleg að smakka þetta. Við höfum þó eldað paellu, múslinga, stóran humar, makríl, lýsing (Merluza með hvítum ormum) og lax. Við höfum ekki ennþá lagt í að kaupa okkur álaseiði en þau líta út eins langir ormar og hvítir í þokkabót! Uppáhaldið okkur er risarækja sem við kaupum hálft kg af í einu, kostar um 5 evrur. og þykir dýrt. Og í dag látum við fylgja eina af uppáhaldsuppskriftum okkar. Gambas al ajillo eða gambas pil pil eða bara hvítlauksrækjur. Galdurinn hér er að ofhita ekki olíuna og ofelda ekki rækjurnar.

Blogguppskriftin

Gambas al ajillo

40 mjög ferskar, hráar risarækjur (heima fást þær frystar)
8 msk olía
4 hvítlauksrif, skræld og skorin þvert í næfurþunnar sneiðar
4 sneiðar af þurrkuðum chili eða ca ½ ferskur (í versta falli nýmalaður pipar)
2 msk vatn
Klípa af papriku
Klípa af salti

Skolið rækjurnar og þurrkið léttilega með pappír. Hitið olíuna vel en ekki þannig að það rjúki af henni. Setjið hvítlaukinn og chili út í og mallið í 30 sek eða þar til að laukurinn fer að taka smálit. Setjið rækjurnar út í og reynið að raða þeim þannig að það sé bara einfalt lag af þeim. Hrærið í þar til rækjurnar verða bleikar eða ca 30 til 40 sek. Takið pönnuna af hitanum, hrærið vatninu út í, dreifið salti og papriku yfir. Borið strax fram, þannig að rétturinn sé ennþá snarkandi á matarborðinu. Borðað með góðu brauði til að veiða upp hvítlauksolíuna. Kalt hvítvín eða kalt þurrt sherry drukkið með. Dugar fyrir 4 sem tapa eða forréttur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home