Íslandsheimsókn...

Nú líður að heimsókn til Íslands. Við erum byrjuð að tína saman það sem á vera meðferðis, taka til farseðlana okkar og búin að þrífa húsið. Við bæði hlökkum til og kvíðum heimferðinni. Hlökkum til að hitta ykkur öll en kvíðum því að veðrið muni ekki leika eins við okkur og hér á Spáni. Hér eru allar auglýsingar fullar af vorstemmningu. Ofurmarkaðir (hipermercados) fullir af útihúsgögnum, grillum og viðleguútbúnaði. La primavera esta aquí eða vorið er komið eins og sagt er á spænsku. Vortískan í algleymingi. Ég skellti mér C & A og verslaði mér spariföt svo ég yrði ekki systrum mínum, frænkum og öðru venslafólki mínu til skammar. Það er mjög gaman að versla þar. Þeir selja föt sem eru bara reglulega flott handa stórum stelpum eins og mér. Ég fæ hvorki á tilfinninguna að ég sé eins og rúllupylsa né eins og lítið fjall. Tilfinning sem gerir iðulega vart við sig í öðrum búðum þegar verið er að prófa stærstu númerin og þau passa ekki eða eru eins og illa sniðin tjöld. Hér eru til föt fyrir miklu stærri og feitari kellingar en mig.
Ég ætla að leyfa ykkur að njóta þess að læra að búa til spænska tortilla (kartöfluomelettu) í dag. Þetta er geysilega vinsæll matur hér bæði sem tapa og sem fullbúin máltíð. Tortilla er hægt að kaupa tilbúna í öllum búðum. Það er bæði hægt að borða hana kalda og heita. Það má nota hana sem meðlæti. Notið hugmyndaflugið!
Blogguppskriftin
Tortilla Española
6 msk olífuolía
1 kg kartöflur skrældar og skornar í þunnar sneiðar
2 msk saxaður laukur
6 egg
1 tsk salt.
Olían hituð í djúpri pönnu, kartöflum bætt út í og velt vel upp úr olíunni. Látið þær malla hægt án þess að brúnast, hrærið oft í. Eftir 10 til 15 mín er lauknum bætt í. Látið malla áfram þar til kartöflurnar eru soðnar uþb 20 til 30 mín samtals. Eggin er þeytt vel með saltinu í stórri skál. Setjið disk yfir kartöflurnar og hellið afgangs olíu í hitaþolna skál. Kartöflunum er hellt út í eggjahræruna og blandað vel við. Smávegis af olíunni er sett á pönnuna og hrærunni hellt í. Látið malla við meðalhita án þess að tortillan brúnist mikið á botninum eða uþb 5 mín. Pannan er hrist öðru hverju til að ekkert festist við. Leggið lok eða disk ofan á og snúið pönnunni snöggt á hvolf. Smáolíu úr skálinni bætt á tóma pönnuna og tortillunni rennt af disknum yfir á hana aftur. Mallað á þeirri hlið uþb 3 mín í viðbót. Rennið henni yfir á disk, berið fram með góðu salati og brauði. Dugar fyrir fjóra sem aðalréttur en verður að 15-20 stk. í tapa þá skorið í litla ferninga. Það getur verið gott að vera með meiri lauk, jafnvel að nota eggaldin í stað hluta af kartöflunum. Ýmis grænt krydd eða spínat getur líka verið gott saman við tortilluna