
Hér er fullt hús í orðsins fyllstu merkingu. Kristín með Helga Hrafn og Birtu, Jón og Gerður með Rebekku og afinn og amman mjög stolt af öllum mannskapnum. Það var mikið spennufall á miðvikudaginn þegar allir voru komnir.

Við lögðumst eiginlega öll flöt og gerðum ekki neitt. Á fimmudaginn var svo tekinn dagur í garðinum enda 20 stiga hiti. Afi sló og stelpustóðið rakaði, meira segja Helgi litli fékk litla hrífu og dreifði úr hrúgum. Síðan var tjaldað einu litlu tjaldi og tveimur leiktjöldum. Sum sé tjaldborg í garðinum. Liðið þurfti að kanna leikvöllinn hjá skólanum og síðan þurfti að fara í bíltúr með afa. Í gær var síðan enn heitara eða 25 stig. Sem betur fer dró öðru hvoru fyrir sólu svo enginn sólbrann. Síðan þurfti að fara með afa í búðir og ömmu á bókasafnið. Tími var fundinn til að horfa á Sjóræningja Karabíska hafsins og borða síðan pylsur með afa. Bærinn var svo fullur af fólki í gær að það var varla hægt að þverfóta og það er farið að bera á vöruskorti í búðum. Ríkið hleypti inn í hollum. Helgi afi mætti kl. 11:10 eða rétt eftir opnun og var í þriðja holli sem hleypt var inn. Þá voru 10 þús. hátíðargestir komnir og fimm skemmtiferðaskip lágu í höfn með um 20 þús. manns innanborðs sem öllum var hleypt í land samtímis!

Sum sé 47 þús manns í bænum ef heimamenn eru taldir með. Svo fækkaði seinnipartinn eftir því sem skipin létu úr höfn en sennilega hafa um 8 þús manns bæst við á hátíðina. Öll tjaldstæði yfirfull og frekar mikið fyllerí í bænum í nótt. Nú eru við afinn ein heima að hvíla okkur en Jón, Gerður og Kristín með stubbana eða kannski strumpana í bænum að skemmta sér við dans og söng svo ekki sé minnst á Tívolí. Við erum bara hamingjusöm í mannþrönginni, þetta er mikil innspýting í bæjarlífið og gerir okkur bara gott. Við eldum okkur lambalæri provencal í kvöld og ætlum að anga langar leiðir af hvítlauk á morgun til að við fáum gott pláss í kringum okkur á Ráðhústorginu á morgun.
BlogguppskriftinGigot provencal (Ofnbakað lambalæri frá Provence)
6 heilir hvítlaukar
2 vænir kryddvöndlar búnir til úr steinselju, timian, rósmarín og lárviðarlaufum
2 msk olífuolía
1 lambalæri, fituhreinsað. Mjaðmabein fjarlægt og og bundið í rúllu og skankabein látið standa upp úr.
Skerið uþb 1/3 ofan af hvítlaukunum. Setjið í steikarfat og látið skorna hlutann vísa upp. Setjið smá af olífuolíu ofan á þá. Leggið kryddvöndlana í ofnskúffuna. Lærið nuddað vel með olíu, saltað og piprað vel. Það er síðan sett á grind ofan á og steikt við 220°C. Miðað er við 10 til 12 mín á kg fyrir medium rare og 15 mín á kg fyrir medium. Snúið lærinu nokkrum sinnum á meðan steikingu stendur. Fjarlægið lærið úr ofninum, kryddið aftur vel og setjið álpappír yfir. Leyfið því að standa í alla vega 25 mín og jafnvel allt að 1 klst. Það má láta það standa í kólnandi ofninum. Á meðan búum við til sósu. Kryddvöndlunum er hent og steikarskúffan er sett yfir hita eða innihaldi hennar hellt í pott. Losið vel um allt brúnað sem er fast í skúffunni. Sjóðið niður þar til vökvinn er næstum því karmelliseraður. Hreinsið fitu af soðinu og bætið við nokkuð mörgum msk af heitu vatni eða eftir smekk. Kalt vatn gerir vökvann gruggugan. Látið sjóða þar til sósan hefur þykknað aðeins. Soðinu hellt í sósuskál. Skerið kjötið í mjög þunnar sneiðar og berið fram umkringt hvítlaukum. Gúmmulaðið úr laukunum er mjög gott með steikinni. Kartöflur brúnaðar í olíu og msk af hlynsýrópi er mjög góðar með. Að öðru leyti læt ég ykkur um meðlætið. Dugar fyrir, ja það fer eftir því hversu stórt lærið er.