Gigt og maríuerlur...

Ég verð að viðurkenna það að ég er verulega súr í skapi þegar gigtargemlingurinn ákveður að koma í heimsókn. Ég kúri mig niður í stóla eða rúm og reyni að harka mig í gegnum daginn. Ég hef verið nokkuð laus við hann í sumar. Hann hefur svona rétt kíkt á gluggann hjá mér en farið svo strax aftur. Nú kom hann á laugardaginn og að reyndi að vera ekki mjög óþægur. En ég lét sem ég sæi hann ekki. Við það æstust leikar og í morgun var hann orðinn svo illvígur að ég rétt valt út úr rúminu og tók slatta af verkjalyfjum til að geta fengið mér morgunmat. En dagurinn lagaðist verulega þegar rafvirkinn mætti á svæðið og byrjaði að ganga frá lögnum og sjónvarpsköplum. Mikið verk, því síðasti eigandi hússins dró 70 m af slíkum köplum hingað og þangað um húsið! Helgi er langt kominn með kjallarann. Búið að mála þvottahúsið og koma því aftur í gagnið. Nú er verið að mála ganginn og baðið og þegar því lýkur þá er hægt að raða aftur inn húsgögnum. Það fer að verða hægt að bjóða aftur til sín gestum þegar fer að líða að haustinu. Veðrið hefur verið nokkuð gott hér. Að vísu kemur þoka með köflum en birtir til þegar líður á daginn. Eini gallinn er að hafgolan hefur verið allhvöss og þá er ekki hlýtt nema í góðu skjóli. Sum sé sunnan við húsið er sólbaðsveður. Það góða er að mér hafa áskotnast nokkrar vinnukonur. Maríuerlur sem búa í trjánum í kringum húsið hafa uppgötvað að það er góðar veiðilendur í sólskálanum hjá mér. Þegar enginn er uppi þá koma þær og tína upp allar flugur sem þær finna, dauðar sem lifandi. Þær virðast líka vera töluvert betur gefnar en þrestirnir, því þær fljúga aldrei á glerið í gluggunum. Þegar við komum upp, þá lyfta þær sér rólega á flug, kanna hvernig landið liggur og flögra svo út um dyrnar. Núna loksins þegar engir kettir eru í götunni, þá eru engir þrestir hér. Bara maríuerlur og sólskríkjur. Við erum bara fegin því þrestirnir eru frekar árásargjarnir. Þeir mæta þó örugglega í haust þegar reyniberin eru orðin þroskuð. Mér dettur í hug þegar ég hugsa um þresti, að við borðuðum töluvert af litlum lynghænum út á Spáni. Spánverjar eru hættir að éta spörfugla, en ala þess í stað upp lynghænur. Það þarf eina pr. mann en það er allt í lagi að nota kjúkling í staðinn.
Blogguppskriftin
Codornices a la bilbaina (lynghænur frá Bilbao)
4 lynghænur eða vænn hlutaður kjúklingur
4 msk smjör
4 msk olía
8 msk fersk brauðmylsna
2 rif af hvítlauk, skræld og fínt söxuð
8 msk fersk steinselja
Hryggbeinið fjarlægt úr lynghænunum og þær flattar út með því að berja ofan á bringubeinið. Öll aukafita og fjaðrir fjarlægt. Olían og smjörið hitað á pönnu og lynghænurnar steikta við vægan hita í 15 mín þar til þær eru gullinbrúnar og kjötsafi úr læri er orðinn tær.. Snúið við öðru hverju. Kjúkling þarf að steikja í 25 til 35 mín og það er líka betra að setja lok á pönnuna milli þess sem bitunum er snúið á ca 10 mín fresti. Þegar fuglarnir er tilbúnir, þá eru þeir fjarlægðir af pönnunni og haldið heitum. Fitan sem er eftir í pönnunni er hituð aftur og setjið brauðmylsnu, hvítlauk og steinselju út í og hrærið vel. Leyfið þessu að malla við góðan hita í 2 mín og gætið þess að þetta brenni ekki. Hellið stökkri brauðmylsnunni yfir fuglana/fuglinn og borðið með fingrunum. Dugar fyrir fjóra.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home