Aðeins svalara hjá okkur...

Nú styttist í að Kristín komi með krakkana til okkar. Hér hefur verið nóg að gera. Helgi er á fullu að undirbúa og ganga frá í kjallaranum. Síðan verður væntanlega farið í laga til í stofunum ef rafvirkjarnir láta sjá sig. Það er orðið mjög huggulegt á þakinu. Búið að kaupa nýtt borð í stað þess sem fauk í vetur og slatta af blómakerjum og kössum. Við erum búin að planta blómum og punta bæði við inngangana í húsið og uppi á þaki.
Mér hefur eiginlega tekist að vera meira og minna lasin undanfarnar vikur og því lítið gagn í mér nema til að elda mat. Fyrsta atlagan að sveppunum fór út um þúfur. Eftir heimsókn til sérfræðings var gerð næsta árás með pillum og kremum. Það virðist ætla að ganga en ég hef allan varann á. Ég er komin á biðlista hjá næsta sérfræðingi sem á að mæla einhverja starfssemi hjá mér og kanna hvort að þurfi að breyta lyfjasamsetningum. Erfðagalli fjölskyldunar virðist vera búinn að að rústa ónæmiskerfinu hjá mér í bili.
En lífið er samt ágætt. Rebekka kom hér í byrjun júlí og var í viku. Það var mjög gaman enda heimsótti hún ömmu sína og afa oft. Við fórum í veiði á sunnudeginum og veiddum þrjá fiska. Þeir voru vænir eða samtals fjögur kíló. Rebekka sá um að rota þá með dyggri aðstoð föður síns. Einn silungurinn var heilgrillaður í matinn um kvöldið. Annar silungur var flakaður og grafinn. Lax sem veiddist var frystur til síðari nota. Rebekka ætlar að koma aftur 1. ágúst, taka á móti liðinu og vera með okkur í tvær vikur. Næstum því efst á listanum er önnur veiðiferð til að kenna Birtu að rota silunga! Berjaferð verður örugglega líka á dagskrá og svo er verið að kanna hvort frænkurnar geti farið á reiðnámskeið. Verslunarmannahelgin ætti líka verða skemmtileg. Fjölskylduhátíðin “Halló Akureyri” verður í algleymingi þá daga. Viku seinna er handverkshátíð á Hrafnagili. Þann 12. ágúst verður svo haldinn fiskidagurinn mikli á Dalvík, en það er spurning hvort lagt er í að fá sér síðdegisverð með tugþúsundum gesta í ekki stærra plássi. Hér hefur verið gríðarlegur ferðamannastraumur í allt sumar. Tugir skemmtiferðaskipa hafa verið á ferðinni. Íþróttamót fyrir fullorðna og börn, tónlistarhátíðir í héraðinu flestar helgar og síðast en ekki síst hefur fjöldi gegnblautra og hraktra sunnlendinga þurrkað sig í góða veðrinu fyrir norðan. Mikill munur frá síðasta sumri sem var kalt og blautt hjá okkur.
Blogguppskriftin
Grafinn silungur
2 væn silungaflök eða ca 0,75 til 1 kg
Kryddblanda:
2 msk sykur
2 msk salt
1 msk ferskt koriander
2 msk ferskt dill eða 1 msk þurrkað
½ tsk cumin
½ - 1 tsk sinnepsduft eða 1 tsk dijon sinnep
Slatti af heilu koriander og/eða dilli
Leggið fyrra silungsflakið á skinnhliðina í fat, dreifið helmingnum af kryddblöndunni yfir. Leggið kryddplönturnar á flakið. Dreifið restinni af kryddinu á hitt flakið og leggið það á hvolf yfir fyrra flakið, þ.e. skinnhliðin snýr út. Breiðið klessuplast yfir, setjið smáfarg ofan á. Eftir u.þ.b. 12 klst er flökunum snúið í kryddleginum og látið liggja í alla vega 12 klst í viðbót.
Sósa:
2 msk dijonsinnep
1 msk sætt franskt sinnep
1 msk gott edik
1 tsk hlynsýróp
1 tsk þurrt dill eða 1 msk ferskt dill
½ bolli olía (Isio oliva eða góð olífuolía) eða meira eftir smekk og þörfum.
Þeytt saman í þykka sósu. Má þynna með 2-3 msk af vatni.
Silungurinn skorinn í þunnar sneiðar og borinn fram með slatta af fínt sneiddum rauðlauk, saxaðri steinselju, sósu og ristuðu brauði. Dugar í forrétt fyrir fjóra til sex.
1 Comments:
Ég held að Þórhildur verður að bjóða Rebekku með sér næst í veiðferð fyrst hún er svona dugleg að ganga frá veiðinni. Í síðustu veiðiferð veiddi Þórhildur þrjá fiska og gat ekki hugsað sér að drepa þá eða varla koma við þá. Pabbi þurfti ná þeim af önglinum og fleygja þeim út í. Þórhildur hætti að veiða eftir þriðja fiskinn því henni var hætt að lítast á blikuna hversu margir fiskar voru að bíta á hjá henni:) (Sorry, Þórhildur ég gat ekki stillt mig um að minnast á þetta).
Kveðja,
Guðrún Björk
P.S. Gangi þér vel að kljást við fylgifiska erfðagallans. Þegar ég las um bardagann við sveppina þá slapp fram í hugarskotið mynd af ömmu að berjast við fífla:)
Skrifa ummæli
<< Home