Lífið í óreiðunni á enda...

Í dag rignir og því ekki þörf á að vökva blómin mín stór og smá. Við erum voða fegin, því grasið er farið að skrælna og grasflötin okkar því frekar gul. En á morgun er aftur spáð bjartviðri og stillum eins og verið hefur síðustu vikur.
Hér er allt á fullu við að frágangi hússins. Kjallarinn að verða tilbúinn, bara eftir að mála lokaumferð á ganginn þar. Stefnt að hreingerningu þar á morgun. Búið er að leggja parket á ganginn hérna uppi, rafvirkinn er að klára að draga í og setja upp lampa. Þetta er búin að vera mikil vinna og sem betur fer eru Jón og Gerður búin að hjálpa okkur vel. Ég hef eiginlega aðallega séð um að allir fái að borða og eitthvað gott með kaffinu. Við sjáum fram á að tjaldlífinu okkar ljúki á næstu dögum. Rebekka kemur norður í kvöld og ætlar því að hjálpa okkur að ganga frá á morgun. Síðan drífum við okkur öll á flugvöllinn annað kvöld og tökum á móti Kristínu og litlu skriflunum. Við hlökkum öll til að sjást og vera saman.
Nú er ég búin að uppgötva hvers vegna ég var með stöðuga gigt. Ég hef verið að reyna að hjálpa ónæmiskerfinu mínu með því að koma ofan í mig einhverju C vitamíni. Í þeim tilgangi keypti ég kiwisafa og hélt nú að ég myndi hressast verulega með því að drekka 1-2 glös á dag. Eftir 5 daga samfellt gigtarvesen fór ég að lesa utan á umbúðirnar og kemst að því að helmingur af safanum kemur úr appelsínum!! Ég hætti snarlega að sulla þessu í mig og viti menn, gigtin hvarf á rúmum sólarhring. Ég held að það sé útséð um að neysla mín á sítrusávöxtum verði mér til heilsubótar. Ætli ég verði ekki bara að læra af reynslunni.
Til að lífga upp á tilveruna, þá eldum við okkur steiktan lax í dag. Taboulah er salat ættað frá Marokkó og er mjög gott með öllum mat. Það er líka mjög gott næsta dag.
Blogguppskriftin
Steiktur lax með taboulah
1 vænt laxaflak skorið í hæfilega bita.
400g Cous cous
6 dl kjúklingasoð
Safi úr hálfri sítrónu
2-3 msk af olífuolíu
2-3 tómatar
½ agúrka
1 paprika gul eða appelsínugul
1 vænn rauðlaukur
½ rautt chili (má sleppa eða nota heilt)
Vænn slatti af söxuðu fersku kóriander eða steinselju.
Byrjað á því að búa til kúskús eftir leiðbeiningum á pakkanum nema heitt kjúklingasoð notað í stað vatns (teningur í heitavatnið). Leyft að standa í lokuðu íláti. Grænmetið er skorið í litla bita og sett í sigti. Látið síga af því í uþb hálftíma. Eftir hálftímann er kúskús sett í stóra skál, sítrónusafa, olíu, salti og pipar hrært saman við það og grænmetinu ásamt kryddjurtum síðan bætt í og blandað vel saman. Sumum finnst kóriander ekki gott þá notum við steinselju. Látið standa á meðan laxinn er eldaður. Matskeið af olíu sett á vel heita pönnu. Laxabitarnir settir á opnu hliðina og steiktir í 1 mínútu síðan er þeim snúið á skinnhliðin og steiktir við mikinn hitan í uþb 6 mín. Loftið vel út á meðan. Að lokinni steikingu á roðið að vera stökkt og mjög bragðgott. Við notum yfirleitt ekki sósur en læt ykkur um að bæta slíku við eftir smekk. Dugar vel fyrir fjóra.