sunnudagur, desember 31, 2006

Í lok ársins...


Við erum komin heim eftir árangursríka ferð suður til Reykjavíkur. Að morgni 28. var flogið með bóndann í sjúkraflugi og hann kominn í hjartaþræðingu fljótlega eftir að sjúkraflutningamenn skiluðu honum á gamla Landsspítalann. Í ljós kom að mikil þykknun hafði orðið í stoðneti sem var sett í framveggsæð hjartans fyrir tæpum fimm árum. Bara smálæna eftir sem hægt var þræða vírinn og blása. Fyrir hádegi var hann svo komin upp á hjartadeild og leit út eins nýfægður túskildingur. Glaðvakandi og hress. Undir kvöldmat fór hann síðan fram úr rúminu og gekk ganginn fram og tilbaka. Ég trúði varla mínum eigin augum. Eitthvað annað en fyrir fimm árum, þegar hann var hundveikur fram til morguns. Við svo búið skildi ég kallinn eftir og dreif mig til Þórdísar systur minnar til að reyna hvílast og jafna mig á atburðum dagsins. Um kvöldið komu síðan Helga systir og liðið hennar. Við áttum saman kvöldstund sem var frábær. Ástarþakkir til ykkar allra fyrir að hlúa svona vel að mér. Daginn eftir var síðan flogið heim á leið. Helgi var svo útskrifaður samdægurs af sjúkrahúsinu. Læknirinn hans lagði á það áherslu að þessar þrengingar hefðu ekki verið kólesteróltengdar. Allar aðrar æðar hjartans hefðu verið í fínu lagi. Hvað svo sem Helgi hefði verið að gera væri rétt og hann skyldi halda því áfram. Svo nú tekur við endurhæfing næstu vikurnar. Þó að allt hafi gengið vel, þá tekur svona lagað sinn toll bæði andlega og líkamlega. Ég verð að viðurkenna það að það var heldur ekki mikið eftir af mér. En við stóðumst þessa raun og erum óskaplega hamingjusöm yfir því að vera komin heim aftur heilu og höldnu. Nú tekur við nýtt ár og við horfum bjartsýn fram við.

Við óskum ykkur öllum farsældar á nýju ári og þökkum allt gott á liðnum árum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home