Snjór, snjór, snjór...

Hér er allt á kafi í snjó. Ekki mjög kalt, en kryddplönturnar mínar halda að þær séu rosalegir töffarar og eru bísperrtar undir breiðunni. Ég hamast við að nýta þær, sérstaklega esdragonið. Það er rosalega gott bæði á kjúkling og svínakjöt með mildu anisbragði. Ég tók mig til fyrir helgi og ætlaði nú að bæta ávaxtaneyslu okkar hjónanna. Ágætis vínber hafa fengist í Bónus, góð epli og afbragðs bananar. Svo á kvöldin hef ég útbúið væna skál með þvegnum og skornum ávöxtum og við höfum gætt okkur á þessu með góðri lyst. Á aðfararnótt mánudags vaknaði ég svo með gigtina á fleygiferð og lítt viðráðanlega. Snjórinn sagði ég leyndardómsfull á svip. Nú eru haustlægðirnar að gera sig gildandi. Svo við héldum áfram uppteknum hætti á mánudagskvöld, stór skál af girnilegum ávöxtum. Á þriðjudagsmorgun fór ég að velta því fyrir mér eftir hundleiðinlega nótt hvað væri eiginlega öðru vísi í lífi mínu þessa dagana. Eftir sjóðheitar pælingar rann upp fyrir mér ljós. Ávextirnir sem ég hef varla snert í marga mánuði. Í gærkvöldi fékk Helgi ávexti en ég bakaði mér marmaraköku. Síðastliðin nótt var eitthvað skárri en morgundagurinn ætti að verða fínn ef kenningar mínar eru réttar. Það virðist vera sama og með Samfylkinguna og ávexti. Annað veldur verkjum á sálinni hjá mér, hitt gigtarverkjum.
Ég fylgist spennt með hlerana- og njósnamálum. Þetta á sko allt erindi upp á borðið. Ég dáist að gömlu allaböllunum hversu forkláraðir þeir eru í framan. Geislabaugurinn stífpússaður og fannhvítir englavængirnir fallega burstaðir. Ég man nefnilega allt of vel undirbúning Natofundarins 1968. Það voru margir frelsaðir vinstrimenn í Menntaskólanum í Reykjavík. Ég fékk forsmekkinn af því, þar sem ég lá ekkert á því að mínar hugsjónir fylgdu einstaklingsfrelsinu að málum. Það voru margir sem lögðu sig fram um að kristna mig og þegar ég var kjörin í stjórn Heimdallar keyrði um þverbak. Menn urðu margir hverjir öskureiðir yfir því hversu fornfáleg ég væri. En ég stóð föst á því að skoðana- og félagafrelsi væri í stjórnarskránni og ég því í fullum rétti að hafa aðrar skoðanir en margir af skólafélögum mínum. Heiftin var mikil, umræður heitar og ýmislegt miður fallegt sagt í hita leiksins. Þegar dró að Natofundinum þá lágu menn ekkert á þeim skoðunum að nú skyldi helvítis íhaldið fá að kenna á því. Mótmælin yrðu öflug og ekkert dregið af. Kannski ekki stofnað til illinda að fyrra bragði en illgirnislegt augnatillit löggunnar yrði ærið tilefni til þess að verða reiður og sveifla kröfuspjöldum ögrandi. Best væri ef löggan gæti ekki stillt sig um nokkrar harðneskjulegar handtökur sem festust á mynd. Það getur vel verið að Kjartan Ólafsson hafi talið sig mæla með friðsamlegum mótmælum, en það var ekki ætlun margra þeirra sem ætluðu að taka fullan þátt í öllu saman. Hræsnin ríður ekki við einteyming, því Ragnar Stefánsson kannast heldur ekki við það að hafa verið með æsing í nokkrum mótmælum! Við sem lifðum og hrærðumst í samfélaginu á þessum tíma bíðum spennt eftir því að vinstri menn komi með fleiri fallegar jólasögur um framkomu þeirra, undirróður og ræðuhöld á þessum árum. Vissulega voru ekki allir vinstri menn þessu marki brenndir en allt of margir þóttust eiga samfélaginu grátt að gjalda.
Í dag verður kjúklingur í matinn. Þessi uppskrift er frá honum feita. Ég uppgötvaði hana í vetur úti á Spáni. Algjört lostæti.
Blogguppskriftin
Hægsteiktur kjúklingur (Sautéed chicken)
1 kg af kjúklingabitum (læri, leggir og vængstubbar)
3-4 msk af olíu
½ bolli hvítvín eða kjúklingasoð
250 gr af sveppum, heilir
Salt, pipar og steinselja
Olían hituð vel í djúpri pönnu og bitarnir brúnaðir. Saltað og piprað meðan kjötið er brúnað. Helming af víninu hellt út í og pönnunni lokað. Mallað við góðan hita í 10 mín. Þá er bitunum snúið og sveppunum bætt út í og mallað áfram við vænan hita í 10 mín. Bitunum snúið aftur og mallað áfram í 10 mín í viðbót. Nú eiga bitarnir að vera vel soðnir og brúnaðir. Ef ekki þá er allt í lagi að bæta 10 mín við. Síðan eru bitarnir teknir upp úr. Seinni helmingnum af hvítvíni eða kjúklingasoði og steinselju bætt við. Sósan látin sjóða duglega saman og hrært í vel á með. Hellt yfir kjúklingabitana. Með þessu er fínt að bera fram rísótto eða að sjóða hrísgrjón í kjúklingasoði og bæta við rifnum gulrótum og grænum baunum á síðustu mínútunum. Þetta dugar fyrir fjóra.