Fyrsti vetrardagur og...

Það er stór dagur í dag. Guðrún Björk systurdóttir mín útskrifast með meistaragráðu frá Háskóla Íslands. Við erum mjög stolt af henni og óskum henni innilega til hamingju. Við erum með fjölskyldunni í anda í dag og munum skála henni til heiðurs í kvöld.
Annars er orðið of langt á milli pistla hjá mér. Í hvert skipti sem ég dregst til skrifta hefur svo margt gerst frá síðasta pistli að ég er í vandræðum með að koma öllu að. Fyrst ber að telja fertugsafmæli Sigurðar Vignis mágs míns. Rétt eftir að Siggi slapp yfir á fimmtugsaldurinn eða 6. október s.l. varð Jón Gestur sonur okkar 32 ára. Þá afmælisveislu náðum við Helgi að mæta í og nutum glæsilegs kvöldverðar. Það verður ekki af Jóni skafið að hann er afbragðs kokkur. Uppáhaldsmatur fjölskyldunnar var á borðum, sniglar og nautasteik. Við óskum þeim báðum innilega til hamingju með afmælisdagana.
Birta hringdi í ömmu sína um daginn og spurði grafalvarleg hvort ég ætlaði ekki að koma í heimsókn bráðum. Henni fannst agalegt að næstum allar vinkonur hennar voru búnar að fá ömmur sínar í heimsókn nema hún! Amma og afi veltu þessu fyrir sér og fyrst afmæli ömmunnar er í uppsiglingu var leitað á náðir Iceland Express og afmælisgjöfin var í höfn. Beint flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar þann 19. nóv og heim aftur þann 23. Það verður gaman að hittast aftur. Við Birta getum spjallað aftur saman og afi getur athugað hvort Helgi litli er jafn stríðinn ennþá.
Hér norðanlands hefur verið íþróttaátak í gangi hjá húsmóðurinni. Leikfimi á mánudögum og vatnsleikfimi á miðvikudögum. Hinir dagar vikunnar hafa farið í hvíld eftir örmögnun líkamsræktarinnar. Nú er hreyfingin farin að skila árangri. Frúin er afvelta í 4 daga í stað 7 og því líkur á að Eyjólfur hressist!!! Annars hef ég aldrei vitað hver þessi Eyjólfur er eiginlega og af hverju hann hressist svona mikið þegar ég er á hreyfingu. Vegna örþreytu hef ég fylgst vel með fréttum og umræðum á þingi undanfarið og nú er svo komið að ég er endanlega búin að ákveða það að Samfylkingin getur verið án minna krafta um alla framtíð, hafi mig nokkurn tímann langað til að styðja þá. Ég hélt á tímabili að eitthvað vit væri að komast í þetta. En McCarthyárátta Ingibjargar Sólrúnar og félaga og ákvörðun Margrétar Frímannsdóttur um að yfirgefa samkvæmið gerði endanlega út um vonir um að þarna væri að myndast hreyfing vel gefins og vel menntaðs fólks sem léti sig varða alþýðu landsins. En vei! Þröngsýni og neikvæðni ræður ríkjum í hugskotum þessa fólks og illgirni margra hefur fundið sér góðan farveg innan þessa stjórnmálaafls. Menntunin hefur ekki aukið víðsýni og umburðarlyndi þar á bæ og ég er eiginlega orðin sammála Agli Helgasyni um að Samfylkingin samanstandi að stórum hluta af annars flokks háskólamönnum.
Í dag eldum við nautasteik vegna þess að það er hátíð. Við kaupum nautalundir á tilboði hjá Samkaup/Úrval og skerum okkar vænar tornedos steikur. Þær verða steiktar medium rare eða tæplega meðalsteiktar. Síðan berum við þær fram með góðu salti, pipar og íslensku smjöri. Mér finnst óþarfi að hafa annað meðlæti en grænar baunir.
1 Comments:
Það er gaman að heyra í þér. Annars var mjög gaman í veislunni í dag. Það er ótrúlegur fjöldi sem kemst í þessa litlu stofu.
Kv.
Þórhildur
Skrifa ummæli
<< Home